Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Stjórnsýslan kvartar undan flóknu regluverki

Posted on 06/09/202210/12/2022 by Fullveldi

Full ástæða er til þess að leggja vel við hlustir þegar ekki einungis fulltrúar atvinnulífsins kvarta sáran undan sífellt meira íþyngjandi regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem eitt og sér ætti að vera nægt tilefni til þess að staldra við og íhuga á hvaða leið við séum með aðildinni að samningnum, heldur einnig fulltrúar stjórnsýslunnar.

Fjallað var til að mynda um málið á Innherja á Vísir.is í lok síðasta árs þar sem rætt var við Unni Gunnarsdóttur, varaseðlabankastjóra Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Sagði hún meðal annars að regluverkið í kringum fjármálakerfið hér á landi væri líklega orðið flóknara en góðu hófi gegndi og vísaði í þeim efnum fyrst og fremst til þess regluverks sem borizt hefur til landsins í gegnum EES-samninginn.

Hliðstæð gagnrýni kom fram í máli Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, í Dagmálum á mbl.is á dögunum þar sem hún sagði að eftirlitskröfur, sem rekja mætti til regluverks frá Evrópusambandinu, þýddu að sífellt meiri vinna færi í skriffinsku vegna þeirra. Virkt eftirlit væri mikilvægt en að það mætti hins vegar ekki verða svo íþyngjandi að starfsfólk horfði aðallega í baksýnisspegilinn.

Ógerningur að ímynda sér flækjustigið

Fulltrúar atvinnulífsins og stjórnsýslunnar hafa þannig verið ágætlega samstíga í gagnrýni sinni í þessum efnum. Unnur benti meðal annars á það að umstangið í kringum innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu kæmi niður á getu Fjármálaeftirlitsins til þess að sinna mikilvægum eftirlitsstörfum: „Þegar regluverkið er komið út í öfgar er hætta á því að það þjóni ekki þeim markmiðum sem að er stefnt.“

Mikil vinna færi þannig í það hjá Fjármálaeftirlitinu að aðstoða stjórnvöld við það að semja lagafrumvörp vegna innleiðingar á regluverki frá Evrópusambandinu sem og að veita upplýsingar til annarra eftirlitsstofnana innan Evrópska efnahagssvæðisins um ýmis mál sem ættu misjafnlega vel við hér á landi. Í seinni tíð hafi stór hluti af starfsemi stofnunarinnar farið í innleiðingu á regluverki frá sambandinu.

„Ég held að það sé ógerningur fyrir fólk sem vinnur ekki við þetta að gera sér í hugarlund hversu umfangsmikið og flókið regluverkið er orðið,“ er enn fremur haft eftir Unni en tilefni viðtalsins var hliðstæð gagnrýni forstjóra fjármálaeftirlita Noregs og Danmerkur í Financial Times skömmu áður. Regluverkið væri einfaldlega orðið of flókið og þungt í framkvæmd og kæmi niður á eftirlitshlutverki stofnananna.

Magn og gæði fara alls ekki saman

Haft var eftir Jesper Berg, forstjóra danska fjármálaeftirlitsins, að regluverk Evrópusambandsins væri þannig einfaldlega orðið of viðamikið og fyrir vikið hætta á því að týnast í smáatriðum í stað þess að leggja áherzlu á þær áhættur sem fyrir hendi væru. Þrátt fyrir hundruð starfsmanna gæti stofnunin ekki bæði haft umsjón með innleiðingu á flóknu regluverki og staðið fullnægjandi vörð um fjármálakerfið.

Vert er að hafa í huga í þessu sambandi að enginn skortur var á umfangsmiklu regluverki um fjármálalífið þegar bankakerfið féll haustið 2008 enda kom það í flestum tilfellum frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Líkt og komið hefur verið inn á getur regluverk hins vegar hæglega orðið svo flókið og íþyngjandi að það geri illt verra við slíkar aðstæður. Magn og gæði fara þar einfaldlega ekki saman.

Fyrirkomulagið hér á landi verður vart verra ef undan er skilin innganga í Evrópusambandið. Þannig er óheimilt samkvæmt EES-samningnum að innleiða það regluverk sem berst í gegnum hann minna íþyngjandi hér á landi en fullt svigrúm er í raun til þess að innleiða það meira íþyngjandi. Utan EES væri í það minnsta mögulegt að setja minna íþyngjandi reglur í stað regluverks sambandsins eða alls engar reglur.

Þýddi mikla útþenslu hins opinbera

Með inngöngu í Evrópusambandið yrði farið úr öskunni í eldinn þegar kemur að umfangi stjórnsýslunnar hér á landi og íþyngjandi regluverki líkt og á ófáum öðrum sviðum. Þannig segir til að mynda í gögnum frá sambandinu sjálfu, í tengslum við misheppnaða umsókn vinstristjórnarinnar um inngöngu í það á sínum tíma, að stjórnsýslan hér á landi sé lítil og að innganga kallaði á umfangsmikla útþenslu hins opinbera.

Við Íslendingar erum sífellt að taka upp stærri hluta regluverks Evrópusambandsins í gegnum aðildina að EES-samningnum þó enn séum við langt frá því að gangast alfarið undir það líkt og fylgdi inngöngu í sambandið. Bilið þar á milli hefur hins vegar farið minnkandi. Einkum þar sem sviðið sem samningurinn nær til, innri markaður Evrópusambandsins, er bæði sífellt að dýpka og þenjast út til fleiri málaflokka.

Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum. Leið sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara þegar þau semja um milliríkjaviðskipti og þar á meðal stærstu efnahagsveldin með sína umfangsmiklu viðskiptahagsmuni. Þar með talið Evrópusambandið. Víðtækur fríverzlunarsamningur. Leið sem, ólíkt EES-samningnum, felur ekki í sér einhliða upptöku íþyngjandi regluverks og vaxandi framsal valds yfir eigin málum.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 5. september 2022)

(Ljósmynd: Stjórnarráðshúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)


Tengt efni:
Vilja frekar fríverzlunarsamning en EES
Tveir ójafnir dómstólar
Stjórnsýslan ekki nógu stór
Dýr aðgöngumiði að EES-samningnum
Meira regluverk og minna svigrúm

HELZTU GREINAR


Meira en heildartekjur ríkissjóðs

Tryggðar innistæður í fjármálastofnunum á Íslandi námu 1.228 milljörðum króna um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja (TVF) og jukust þær um eitt hundrað milljarða á síðasta ári. Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd á Íslandi vegna EES-samningsins mun það að öllum líkindum þýða ríkisábyrgð á tryggðum innistæðum.



Versnandi staða fámennari ríkja ESB

Meðal þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópusambandinu á undanförnum árum er að vægi fámennari ríkja sambandsins við ákvarðanatökur í ráðherraráði þess hefur minnkað stórlega. Einkum þeirra fámennustu. Krafa um einróma samþykki í ráðinu heyrir þannig í raun til algerra undantekninga í dag ólíkt því sem áður var og þess í stað er miðað við meirihlutasamþykki þar sem vægi ríkjanna fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Hvort tveggja hefur eðli málsins samkvæmt komið sér verst fyrir fámennustu ríkin.



Minna svigrúm til viðskiptasamninga

Með aðild Íslands að EES-samningnum hefur regluverk frá Evrópusambandinu, sem tekið hefur verið upp í gegnum samninginn, skapað viðskiptahindranir gagnvart nánustu viðskiptalöndum landsins utan Evrópskra efnahagssvæðisins (EES) og stuðlað að minna svigrúmi EFTA-ríkjanna sem aðild eiga að samningnum, Íslands, Noregs og Liechtensteins, til þess að semja um viðskipti við ríki utan svæðisins.


Færslur

  • Hver á að framkvæma stefnu Viðreisnar?
  • „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“
  • Minnast ekki á lokamarkmiðið
  • Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB
  • Meira en heildartekjur ríkissjóðs
  • Þegar raunveruleikinn hentar ekki
  • Versnandi staða fámennari ríkja ESB
  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb