Komi til þess að kínverska hernum verið fyrirskipað að ráðast til atlögu gegn Taívan mun hann einungis hafa 48 klukkustundir til þess að hernema eyríkið. Fram kemur á fréttavef brezka dagblaðsins Daily Telegraph að þetta sé sá lærdómur sem stjórnvöld í Kína hafa dregið af innrás rússneska hersins í Úkraínu.
Fram kemur í fréttinni að markmið kínverskra stjórnvalda verði að taka Taívan með leiftursókn áður en vestræn ríki fái ráðrúm til þess að bregðast við. Ráðamönnum í Beijing reiknist til að tekið hafi vestræna leiðtoga um tvo sólarhringa að bregðast með afgerandi hætti við innrás rússneska hersins í Úkraínu.
Kínversk stjórnvöld hafa fylgt grannt með stríðinu í Úkraínu frá því að það hófst í lok febrúar með það fyrir augum að gera ekki sömu mistök og Rússar og forðast þannig langdregin stríðsátök samkvæmt fréttinni sem byggð er á upplýsingum frá heimildarmönnum innan brezku utanríkisþjónustunnar.
Talið hefur verið til þessa að kínverskir ráðamenn kynnu að láta til skarar skríða gegn Taívan, sem þeir líta á sem óaðskiljanlegan hluta af Kína, á einhverjum tímapunkti á næstu fimm til tíu árum en nú ganga margar vestrænar ríkisstjórnir út frá því, samkvæmt því sem segir í fréttinni, að til þess gæti komið mun fyrr.
Þá segir einnig í fréttinni að sérfræðingar á Vesturlöndum á sviði varnarmála hafi varað við því að kæmi til þess að kínverska hernum tækist að hernema Taívan áður en vestræn ríki gætu brugðist við með viðeigandi hætti yrði loku fyrir það skotið að hægt yrði að bjarga landinu úr klóm kínverskra stjórnvalda.
HJG
(Ljósmynd: Kínverskir hermenn á hersýningu. Eigandi: Wikimedia Commons)
Tengt efni:
Fjármagna áfram hernað Pútíns
Kuldinn sem fyrr bandamaður Rússlands
Hornsteinn NATO á norðurslóðum
Milljarður evra til Pútíns á hverjum degi
Vaxandi mikilvægi Íslands í varnarmálum