„Megi Guð draga ykkur til ábyrgðar, Hamas!“ hrópaði ungur Palestínumaður með sáraumbúðir vafðar um annan handlegginn að Iyad Bozum, talsmanni innanríkisráðuneytis hryðjuverkasamtakanna Hamas, á blaðamannafundi á Gazaströndinni þann 7. nóvember fyrir ári síðan. Veifaði hann handleggnum í áttina að Bozum til þess að leggja áherzlu á orð sín en fundinum var sjónvarpað og náðist atvikið fyrir vikið á upptöku. Hafði ungi maðurinn rutt sér leið í gegnum mannfjöldann á staðnum til þess að koma á framfæri skilaboðum sínum.
Mér varð hugsað til þessa atburðar sem fjallað var um í fjölmiðlum við lestur aðsendrar greinar á Vísir.is síðasta sumar sem Katrín Harðardóttir þýddi en var rituð af palestínskum hælisleitanda hér á landi. Inntakið í greininni var það að almennir borgarar á Gaza væru á milli steins og sleggju, á milli Ísraels og Hamas. Framganga Ísraelsstjórnar var þannig harðlega gagnrýnd en einnig samtakanna. Með árás Hamas á Ísrael 7. október í fyrra, sem kostaði fjölda óbreyttra borgara lífið, hafi samtökin sett íbúa Gaza í mikla hættu
Fram kom í greininni að nokkrum mánuðum eftir árásina á Ísrael hafi kröfugöngur farið fram á Gaza gegn stríðinu sem hófst með árásinni og þess krafizt að ísraelsk stjórnvöld og Hamas myndu binda enda á átökin. „Skilaboðin voru að ekki virða líf fólks að vettugi. Útspilið þann sjöunda var dýrkeypt. Engu að síður bældi Hamas mótmælin niður með valdi og sleppti óþokkum sínum lausum til að þagga niður í kröfum almennings. Fólkið á Gaza má ekki einu sinni öskra þrátt fyrir sársaukann sem það líður,“ sagði enn fremur í greininni.
„Stoltir af því að fórna píslarvottum“
Fórnarlömbin í yfirstandandi átökum hafa líkt og fyrri daginn verið almennir borgarar. Einkum á Gaza þar sem þeir eru sannarlega á milli steins og sleggju. Annars vegar eru hernaðaraðgerðir Ísraelshers og hins vegar Hamas sem ljóst er að leggur enga áherzlu á það að gæta öryggis þeirra. Fátt er sennilega meira til marks um það en þeir tugir kílómetra af göngum sem grafnir hafa verið á Gaza fyrir vígamenn samtakanna með ærnum tilkostnaði á sama tíma og þar finnast hvorki loftvarnarbyrgi fyrir almenning né loftvarnarflautur.
Forystumenn Hamas voru spurðir af arabískum sjónvarpsstöðvum í kjölfar árásarinnar á Ísrael hvers vegna þeir hefðu sett almenning á Gaza í þessa miklu hættu. Ghazi Hamad, háttsettur forystumaður innan Hamas, var þannig til að mynda spurður að því af sjónvarpsstöðinni LBC í Líbanon 24. október í fyrra hvort árásin yrði ekki dýru verði keypt fyrir Palestínumenn. Svaraði hann því játandi en samtökin væru reiðubúin að færa þær fórnir. „Við erum kölluð þjóð píslarvotta og við erum stolt af því að fórna píslarvottum.“
Hamad lýsti einnig þeirri afstöðu Hamas að fjarlægja yrði Ísrael með öllum ráðum og hótaði fleiri árásum á landið. Hernáminu yrði að ljúka. Spurður hvort hann ætti þar við Gaza sagðist hann eiga við allt palestínskt land. Spurður hvort það þýddi tortímingu Ísraels svaraði hann: „Já, að sjálfsögðu.“ Annar háttsettur forystumaður innan Hamas, Khaled Mashal, sagði við sádiarabíska fjölmiðilinn Al Arabiya um svipað leyti, aðspurður um þau palestínsku mannslíf sem árásin á Ísrael gæti kostað, að engin þjóð yrði frelsuð án fórna.
Hamas myrt fjölda Palestínumanna
Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa um langt árabil fordæmt ógnarstjórn og ofbeldi Hamas í garð Palestínumanna á Gaza. Fjöldi Palestínumanna hefur verið myrtur af öryggissveitum samtakanna á þeim tíma sem þau hafa farið með stjórn svæðisins samkvæmt fréttum mannréttindasamtakanna. Ekki sízt vegna ásakana um að hafa átt í samstarfi við ísraelsk stjórnvöld en einnig fyrir að styðja Fatah, hina helztu hreyfingu Palestínumanna. Þá hefur fjöldi Palestínumanna verið beittur pyntingum og hótunum.
Meðal annars hefur Amnesty International fordæmt þá framgöngu Hamas að nota tækifærið þegar Ísraelsher hefur gert loftárásir á Gaza til þess að myrða Palestínumenn sem samtökunum hefur verið í nöp við eða beita þá öðru ofbeldi. Ekki sízt stuðningsmenn Fatah. Öryggissveitum Hamas hafi verið gefinn laus taumurinn í þeim efnum. Ásakanir um samstarf við Ísrael hafi gjarnan einungis verið settar fram sem yfirskin. Margir ásakaðir um slíkt hafi verið myrtir á meðan þeir sátu í fangelsi og biðu eftir því að koma fyrir dómara.
Mannréttindasamtökin hafa einnig fordæmt til að mynda ofbeldi Hamas í garð Palestínumanna sem mótmælt hafa stjórnarstefnu samtakanna á Gaza. Ekki sízt hagstjórn þeirra. Skipuleggjendur mótmæla hafi til dæmis verið handteknir og pyntaðir og öryggissveitir Hamas ráðist á friðsama mótmælendur. Þá hafi öryggissveitirnar bæði beitt blaðamenn og starfsmenn mannréttindasamtaka grófu ofbeldi. Meðal annars fyrir þá sök að safna upplýsingum um ofbeldi samtakanna og öryggissveita þeirra í garð almennra borgara.
„Hamas er að drepa okkur, ekki Ísrael“
Mér er í þessum efnum einnig minnisstæð frétt sem ég las á fréttavef norska dagblaðsins Verdens Gang á meðan á átökum Ísraelshers og Hamas stóð sumarið 2014 og segir heilmikið um ástand mála á Gaza. Dagblaðið hafði sent blaðamenn á staðinn til þess að fjalla um átökin milliliðalaust og lýstu þeir í fréttinni meðal annars aðstæðum á sjúkrahúsi í Gazaborg í kjölfar loftárása Ísraelshers og ræddu við Palestínumenn sem leitað höfðu aðstoðar þangað og skjóls í kjölfar árásanna. Frétt blaðsins hófst á eftirfarandi orðum:
„Líkgeymslurnar eru fullar. Lík vafin í blóðug lök eru lögð beint á gólfið. Ringulreið ríkir og gríðarleg örvænting. Aðstandendur hinna látnu ýta hverjir við öðrum í örvæntingu sinni þar sem ekki er hægt að koma fleiri líkum fyrir. Í dyrunum stendur kona sem fengið hefur nóg. Yfirkomin af sorg og reiði hrópar hún: „Það er Hamas sem er að drepa okkur, ekki Ísrael.“ Fólkið í kringum hana þegir, aðrir reyna að róa hana niður. Hún hefur greinilega farið yfir ákveðið strik. Hryllingur og ótti eru hluti af stjórnarstefnu Hamas á Gaza.“
Margir viðmælendur VG á Gaza lýstu megnri óánægju sinni með stjórn Hamas en treystu sér þó ekki til þess að koma fram undir nafni. „Við hötum Ísrael […] en við höfum haft það verra eftir að Hamas tók völdin,“ sagði einn viðmælenda blaðsins. „Ísrael hefur alltaf mismunað og gert lífið erfiðara fyrir Palestínumenn. Hamas hyglir og mismunar á Gaza,“ sagði annar. „Við fáum ekki að lifa lífinu sem við viljum lifa. Hamas skiptir sér af öllu sem við gerum.“ Og enn annar sagði við blaðamennina: „Hamas hefur svipt okkur lífsánægjunni.“
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 5. október 2024)
(Ljósmynd: Frá Jerúsalem. Eigandi: Berthold Werner)