Kosningar til þings Evrópusambandsins fóru fram á dögunum þar sem kosið var um 720 fulltrúa á þinginu en fjöldi þingmanna hvers ríkis sambandsins fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið fengi landið sex þingmenn. Sett í samhengi væri það sambærilegt við hálfan þingmann á Alþingi af þeim 63 sem þar sitja. Margfalt minna vægi en minnsti þingflokkurinn þar.
Hið sama á til að mynda við um ráðherraráð Evrópusambandsins sem gjarnan er talið valdamesta stofnun þess. Þar yrði vægi Íslands þó allajafna tíu sinnum minna en á þinginu eða á við 5% af þingmanni á Alþingi. Hvað varðar framkvæmdastjórn sambandsins eiga ríkin í raun ekki fulltrúa í henni. Þeir sem þar sitja eru fyrst og síðast embættismenn sambandsins enda óheimilt að draga taum heimalanda sinna.
Formaður þingflokks Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, hélt því fram í pistli í Morgunblaðinu 8. júní að engu skipti í raun hversu marga þingmenn hvert ríki Evrópusambandsins hefði á þingi sambandsins heldur einungis þingflokkarnir sem þeir tilheyrðu. Þar lægi „hin eiginlega pólitík og áhrif“ innan þess. Mjög langur vegur er hins vegar frá því að einstök ríki, einkum þau fámennari, hafi getað treyst á slíkt.
Dugði Írum og Dönum skammt
Til að mynda gagnaðist það Írlandi lítið þegar Evrópusambandið samdi um makrílveiðar við Færeyinga 2014 þvert á hagsmuni Íra að mati írskra stjórnvalda að stjórnmálaflokkurinn Fine Gael, sem myndaði ríkisstjórn landsins, ætti aðild að stærsta þingflokki þings sambandsins, The European People’s Party. Írsk stjórnvöld beittu sér af alefli gegn því að samið yrði með þeim hætti sem skilaði engum árangri.
Hið sama átti við um Dani þegar þeir neyddust til þess að taka þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins gegn Færeyjum, hluta af danska konungdæminu, 2013 fyrir veiðar Færeyinga í sinni eigin lögsögu að þáverandi ríkisstjórnarflokkar, Danski Íhaldsflokkurinn og Venstre, ættu annars vegar aðild að EPP og hins vegar þingflokki frjálslyndra flokka, þriðja stærsta þingflokknum á þingi Evrópusambandsins.
Vert er að hafa í huga í þessu sambandi að bæði Írland og Danmörk eru milljónaríki og fyrir vikið með margfalt það vægi á þingi Evrópusambandsins sem Ísland hefði innan þess. Þar á meðal innan þingflokkanna. Sama á til að mynda við um ráðherraráð þess. Milljónaríki hafa þannig ekki getað varið hagsmuni sína í mikilvægum málum innan sambandsins. Ljóst er að staða Íslands yrði margfalt verri í þeim efnum.
Það yrði sæti Íslands við borðið
Hitt er svo annað mál að vaxandi áherzla Evrópusambandsins á íbúafjölda, þegar vægi ríkja þess er annars vegar, er afar eðlileg í ljósi lokamarkmiðs samrunaþróunarinnar innan sambandsins að til verði að lokum sambandsríki. Þannig miðast til dæmis fjöldi þingmanna hvers ríkis Bandaríkjanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings við íbúafjölda þeirra og það sama á við um fjölda þingmanna hvers kjördæmis hér á landi.
Til að mynda kom fram í Schuman-ávarpinu 1950, sem markaði upphaf samrunans innan Evrópusambandsins og forvera þess, að fyrsta skrefið væri að koma kola- og stálframleiðslu Evrópuríkja undir eina stjórn en lokaskrefið evrópskt sambandsríki. Síðan þá hafa jafnt og þétt verið tekin fleiri skref í þá átt. Nú síðast var til dæmis lögð áherzla á áframhaldandi þróun í þá átt í stjórnsáttmála ríkisstjórnar Þýzkalands.
Hvatamenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið kölluðu hér áður fyrr eftir inngöngu í sambandið til þess að hafa áhrif innan þess. Í seinni tíð hafa þeir í staðinn farið að tala um að ganga þyrfti í Evrópusambandið til þess að fá „sæti við borðið“. Skiljanlega enda ljóst að möguleikar Íslands á því að hafa áhrif innan sambandsins yrðu litlir sem engir líkt og fjallað er um hér að framan. Það yrði sæti Íslands við borðið.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 19. júní 2024)
(Ljósmynd: Þinghús þings Evrópusambandsins í Strabourg. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Hver á að setja málið á dagskrá?
Hugmyndin sú sama í grunninn
Þegar þú vilt miklu meira bákn
Hvatt til pólitískrar tvöfeldni
Hvað eru mikilvægir hagsmunir?