Fyrir fjórum árum síðan samþykktu ríki Evrópusambandsins að komið yrði á viðamiklu styrktarkerfi vegna kórónuveirufaraldursins. Danmörk, Austurríki, Holland og Svíþjóð höfðu barizt gegn kerfinu en drógu síðan í land og beittu sér einkum gegn því með stuðningi Þýzkalands og síðar Finnlands að það byggði á sameiginlegri skuldaábyrgð ríkjanna. Hins vegar rann andstaða þeirra alfarið út í sandinn eftir að þýzk stjórnvöld ákváðu vorið 2020 að styðja kerfið og skuldaábyrgðina í kjölfar samkomulags við franska ráðamenn.
Með öðrum orðum er það ekki rétt að fámennari ríki, en engu að síður margfalt fjölmennari en Ísland, hafi komið í veg fyrir að styrkjakerfið yrði að veruleika líkt og fullyrt var í grein Ingólfs Sverrissonar á Vísir.is síðastliðinn föstudag. Ingólfur tók málið sem dæmi um það þegar barátta fámennari ríkja innan Evrópusambandsins hefði skilað árangri og þau fjölmennari látið í minni pokann. Hefur hann ítrekað sagt fjölmörg dæmi um slíkt en hins vegar ekki nefnt nein fyrr en nú, það er styrkjakerfið og sagði nægjanlegt að nefna það.
Ég hef á hinn bóginn nefnt ýmis dæmi þar sem fámennari ríki hafa orðið undir á vettvangi Evrópusambandsins þegar ákvarðanir hafa verið teknar eins og Ingólfur hefur viðurkennt. Dæmi hans er ágætis viðbót við þau. Vitanlega hefur andstaða fámennari ríkja einhverju skilað en það hefur heyrt meira til undantekninga og allajafna verið háð stuðningi fjölmennustu ríkjanna, eins eða fleiri. Til að mynda þarf 17 fámennustu ríkin af 27 ríkjum sambandsins til þess að hafa sama vægi og Þýzkaland eitt í ráðherraráði þess.
Frakkar og Þjóðverjar við stjórnvölinn
Hins vegar þarf niðurstaðan varðandi styrkjakerfið ekki að koma mjög á óvart í ljósi þess að Þýzkaland og Frakkland hafa í áratugi samið sín á milli um einstök mál áður en þau hafa verið tekin fyrir á vettvangi Evrópusambandsins og þar með allajafna ráðið örlögum þeirra. Um þetta má til dæmis lesa á vefsíðu þess. Staða þeirra hefur jafnt og þétt styrkst í þeim efnum samhliða aukinni áherzlu á það að vægi ríkja sambandsins taki einkum mið af íbúafjölda þeirra og einróma samþykki í vaxandi mæli heyrt sögunni til.
Ég hef áður fjallað um það hvert vægi Íslands yrði innan Evrópusambandsins samkvæmt reglum þess ef til þess kæmi að landið færi þar inn á einhverjum tímapunkti í framtíðinni. Þannig fengi Ísland sex þingmenn af um 720 á þingi sambandsins, sem væri á við það að hafa hálfan þingmann á Alþingi, og í ráðherraráði þess yrði vægið um 0,08% eða á við það að hafa einungis 5% hlutdeild í alþingismanni. Þá yrði fulltrúi tilnefndur af íslenzkum stjórnvöldum í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins einungis embættismaður þess.
Hitt er annað mál að jafnvel þegar ákvarðanir hafa verið teknar á vettvangi Evrópusambandsins varðandi þá fáu málaflokka sem einróma samþykki á enn við um hafa fámennari ríki ekki síður haft ríka tilhneigingu til þess að láta í minni pokann. Málið með styrktarkerfið er einmitt gott dæmi um það. Með inngöngu í Evrópusambandið myndum við einfaldlega framselja valdið yfir flestum okkar málum til stofnana þess og yrðum eftirleiðis allajafna að vona að hlustað yrði á rök okkar og ákvarðanir teknar sem hentuðu okkar hagsmunum.
Hugsuð sem tímabundið fyrirkomulag
Hvað reglu Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika varðar er, eins og ég hef áður nefnt í orðaskiptum okkar Ingólfs, í raun einungis um að ræða vinnureglu ráðherraráðs sambandsins þegar kemur að skiptingu hennar á aflaheimildum innan þess. Reglan byggir einungis á reglugerð 1380/2013 og á sér enga stoð í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins, grundvallarlöggjöf þess. Ekki þarf einróma samþykkti til þess að breyta henni eða afnema og væri því hæglega hægt án aðkomu Íslands þó landið væri innan sambandsins.
Fram kemur meðal annars í gögnum Evrópusambandsins að reglan hafi alltaf verið hugsuð sem tímabundið fyrirkomulag. Um hafi verið að ræða málamiðlun á sínum tíma sem ekki hafi verið uppfærð síðan. Reglan hafi stuðlað að kvótahoppi, ofveiði og brottkasti og tryggi ekki lengur að aflaheimildir sem úthlutað hafi verið til einstakra ríkja sambandsins haldist þar. Þá segir að sú nálgun sé úreld að úthluta aflaheimildum til ríkja á grundvelli sögulegrar veiðireynslu og brýn þörf á því að leita annarra leiða í þeim efnum.
Með öðrum orðum er ekki nóg með að hægt yrði hæglega að breyta reglunni án aðkomu Íslands þó landið væri innan Evrópusambandsins heldur er beinlínis stefnt að því. Ingólfur segir að ef til þess kæmi að reglan yrði afnumin með okkur innanborðs yrði „sjálfhætt því við viljum sjálf hafa stjórn á okkar fiskveiðum.“ Fyrir það fyrsta er ekki beinlínis hlaupið út úr sambandinu eins og reynsla Breta sýnir og í annan stað breytir reglan alls engu um það að stjórn sjávarútvegsmála er í höndum þess samkvæmt Lissabon-sáttmálanum.
„Það er það bezta sem þið getið gert“
Hvað annars sjávarútveginn varðar sér framkvæmdastjórn Evrópusambandsins enn fremur um að semja um veiðar úr deilistofnum við ríki utan þess. Fulltrúar ríkja sambandsins sem hagsmuna eiga að gæta í þeim efnum eiga ekki sæti við það borð heldur húka frammi á gangi, svo notað sé orðalag Ingólfs, á meðan viðræðufundir fara fram. Þegar þeim lýkur stökkva þeir iðulega á fulltrúa viðsemjenda Evrópusambandsins, til dæmis Íslands, og leita frétta þar sem þeir fá engar upplýsingar frá fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar.
Meira að segja Færeyjar eiga sæti við samningaborðið þegar samið er um skiptingu deilistofna með sama vægi og atkvæðisrétt og Evrópusambandið þrátt fyrir að vera ekki fullvalda ríki enda fara Færeyingar með stjórn eigin sjávarútvegsmála ólíkt ríkjum sambandsins. Hefði Ísland verið innan Evrópusambandsins þegar makríll fór að leita í miklum mæli inn í efnahagslögsögu landsins er til að mynda ljóst að við hefðum ekki veitt svo mikið sem einn makrílsporð enda alls engan rétt haft til slíkra veiða samkvæmt regluverki þess.
Málið snýst einfaldlega um það að taka mið af Evrópusambandinu eins og það er í stað þess að hafna staðreyndum málsins vegna þess að þær henta ekki. Eða eins og hinn mikli áhugamaður um inngöngu Íslands í sambandið, Uffe Ellemann-Jensen heitinn, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, sagði um árið: „Vitanlega er Evrópusambandið ekki lokaður pakki. Þið vitið hvað þið væruð að fara út í. Og ef þið eruð ekki reiðubúin til þess, haldið ykkur þá fyrir utan sambandið. Það er það bezta sem þið getið gert.“
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður á Vísir.is 8. júlí 2024)
(Ljósmynd: Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Kaupin á eyrinni
Málað sig út í horn
Verst fyrir fámennustu ríkin
Dugði Írum og Dönum skammt
Hafa ekki hug á inngöngu í ESB