Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Forsíða
  • Greinar
    • EES-samningurinn
      • Bókun 35
    • Evrópumál
    • Fríverzlun
    • Schengen
    • Stjórnarskrármál
    • Varnarmál
  • Skýrslur
  • Hlaðvarp
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Fjármagna enn hernað Rússlands

Posted on August 18, 2024October 29, 2024 by Fullveldi

Tveimur og hálfu ári eftir að rússneski herinn réðist inn í Úkraínu flæða enn tugir milljarða evra í ríkissjóð Rússlands frá ríkjum Evrópusambandsins vegna kaupa á rússneskri orku. Einkum gasi. Þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðgerða til þess að draga úr slíkum kaupum eru þau enn í dag umtalsverð. Þá er rússneskt gas í ófáum tilfellum flutt til ríkja sambandsins í gegnum önnur ríki sem þarlend framleiðsla.

Fram kom til að mynda í frétt þýzka ríkissjónvarpsins DW 29. apríl að samkvæmt tölum frá Evrópusambandinu hefðu 15% innflutts gass til ríkja þess á síðasta ári verið rússneskt. Vissulega mun minna en 2021 þegar hlutfallið var yfir 40% en eftir sem áður eins og fyrr segir umtalsvert. Þannig flæðir enn gas til ríkja sambandsins um gasleiðslur frá Rússlandi en einnig hefur innflutningur á fljótandi gasi þaðan aukizt.

Hins vegar segja opinberar tölur ekki alla söguna. Töluvert af bæði innfluttu gasi og olíu til Evrópusambandsins kemur þannig upphaflega frá Rússlandi en fer í gegnum önnur ríki og skráð sem þarlend framleiðsla, til dæmis Indland, Tyrkland og Aserbaísjan, eða ríkin selja eigin orku til sambandsins og kaupa rússneska í staðinn. Þá hefur tekjutap rússneskra stjórnvalda orðið mun minna en ella vegna hærra orkuverðs.

Meira til Rússa en Úkraínumanna

Frá innrás rússneska hersins í Úkraínu í lok febrúar 2022 hafa ríki Evrópusambandsins greitt um 200 milljarða evra (um 30.600 milljarða króna) fyrir rússneska olíu og gas samkvæmt frétt fréttavefsins Euractiv 14. ágúst. Á sama tíma hefur sambandið og ríki þess stutt Úkraínu um 88 milljarða evra samkvæmt gögnum á vefsíðu þess. Talið er að á þessu ári muni ríkin kaupa rússneska orku fyrir um 30 milljarða evra.

Fram kemur í frétt Euractiv að samanlagður stuðningur Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og ríkja þess við Úkraínu hafi numið 185 milljörðum evra frá innrásinni í landið eða lægri upphæð en greiðslur ríkja sambandsins fyrir rússneska orku á sama tíma. Þá segir í fréttinni að þó dregið hafi verulega úr innflutningi á rússneskri orku til ríkjanna séu þau eftir sem áður stærsti viðskiptavinur Rússlands í þeim efnum.

Talsverður hluti ríkja Evrópusambandsins er enn afar háður innfluttu gasi frá Rússlandi. Þar á meðal Austurríki, Ungverjaland, Búlgaría, Ítalía og Frakkland. Rétt er annars að árétta það að tölurnar hér að framan taka einungis tillit til kaupa ríkja sambandsins á orku frá Rússlandi eftir innrásina í Úkraínu en ekki þeirra mörg hundruð milljarða evra sem ríkin greiddu fyrir rússneska orku árum saman fyrir hana.

Refsiaðgerðir ESB ná ekki til gass

Frá upphafi þessa mánaðar hefur ríkjum Evrópusambandsins verið heimilt í samræmi við nýja löggjöf þess um viðskipti með gas sem samþykkt var fyrr á þessu ári að stöðva einhliða innflutning á fljótandi gasi frá Rússlandi. Fram kemur í frétt Euractiv að ekkert þeirra hafi þó enn nýtt sér það þrátt fyrir að stjórnvöld í Litháen hafi til að mynda kallað eftir því í júlí að tafarlaust yrði skrúfað fyrir allan slíkan innflutning.

Þrátt fyrir að Evrópusambandið hafi ítrekað gripið til ýmissra refsiaðgerða gegn Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og þó kallað hafi verið eftir því hafa þær ekki ennþá náð til innflutnings á rússnesku gasi. Einungis á olíu og kolum. Enn er þó engu að síður flutt inn talsvert magn af rússneskri olíu í gegnum olíuhreinsistöðvar víða um heim og þá skilgreind sem framleiðsla þess ríkis þar sem stöðvarnar eru staðsettar.

Kaup ríkja Evrópusambandsins á rússnesku gasi í kjölfar innrásarinnar hafa einkum verið réttlætt af þeim með því að um bindandi samninga til margra ára sé að ræða. Eins hvers vegna ekki hafi verið samþykkt á vettvangi sambandsins að refsiaðgerðir þess nái til rússnesks gass. Hins vegar er einnig um að ræða afar hagstæða samninga fyrir ríkin sem miklu fremur er talin ástæðan fyrir aðgerðaleysi þeirra.

Velmegun reist á rússneskri orku

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Charles Michel, viðurkenndi á Twitter-síðu sinni 30. maí 2022 að ríki þess hefðu að miklu leyti fjármagnað hernaðaruppbyggingu og stríðsrekstur Rússa með kaupum á rússneskri orku. Með áformuðum aðgerðum sambandsins til þess að draga úr því hversu háð það væri rússneskri olíu hefði þannig verið „skrúfað fyrir gríðarlega uppsprettu fjármögnunar fyrir stríðsvél þess.“

Hið sama gerði til að mynda Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, í ræðu sem hann flutti á þingi þess 9. marz sama ár. Þrátt fyrir varnaðarorð hefði ekki verið dregið úr kaupunum í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu. „Þegar Rússar réðust inn á Krímskaga töluðum við um að við þyrftum að draga úr því hversu háð við værum rússnesku gasi. Síðan þá höfum við aukið það í stað þess að draga úr því.“

Fram kom í annarri ræðu Borrells 1. marz 2022 að rætt hefði verið um það að draga þyrfti úr kaupum á orku frá Rússlandi í að minnsta kosti tuttugu ár en þess í stað hefði Evrópusambandið sífellt orðið háðara henni. Þá sagði hann í ræðu 10. október sama ár að sambandið hefði reitt sig á Bandaríkin í öryggismálum og reist efnahagslega velmegun sína á kaupum á ódýrri rússneskri orku og ódýrum kínverskum vörum.

Stefna ESB beðið algert skipbrot

„Við héldum að með þessu yrði komið í veg fyrir stríð,“ sagði Sanna Marin, þáverandi forsætisráðherra Finnlands, á fundi sem skipulagður var af hugveitunni Lowy Institute í Sydney í Ástralíu 2. desember 2022 og vísaði þar til þeirrar stefnu að nánari efnahagsleg tengsl við Rússland væru til þess fallin að varðveita friðinn. Sú stefna hefði hins vegar beðið algert skipbrot. Rússneskum stjórnvöldum væri í raun sama um slíkt.

„Ég verð að vera algerlega hreinskilin við ykkur, Evrópusambandið er ekki nógu sterkt eins og staðan er í dag. Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna,“ sagði Marin einnig en ljóst er að ríki þess hafa vegna áratuga vanrækslu hvorki burði til þess að verja sjálf sig né önnur ríki. Finnsk og sænsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hafi sótt um inngöngu í NATO þar sem ekki væri hægt að treysta á sambandið í varnarmálum.

Meðal þess sem stríðið í Úkraínu hefur þannig leitt af sér er að varpa enn betra ljósi en áður á það hversu illa að vígi Evrópusambandið stendur í öryggis- og varnarmálum. Ekki sízt þegar kemur að efnahagsöryggi. Fullyrðingar sem heyrzt hafa, þess efnis að Ísland þurfi að ganga í sambandið til þess að tryggja öryggis- og varnarhagsmuni landsins og þar á meðal efnahagsöryggi þess, standast þannig alls enga skoðun.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 18. ágúst 2024)

(Ljósmynd: Rússneskur heiðursvörður. Eigandi: Bandaríski sjóherinn)


Tengt efni:
Mikilvægt að ræða varnarmálin
Hvar liggja landamæri Íslands?
„Kaninn kæmi hvort sem er til bjargar“
Hægt að nota hvaða nafn sem er
Óáreiðanleg Evrópuríki

HELZTU GREINAR


Mýtan um sætið við borðið

Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið tæki vægi landsins fyrst og fremst mið af íbúafjölda þess. Til að mynda þegar teknar væru ákvarðanir varðandi sjávarútvegs- og orkumál sem skipta okkur Íslendinga miklu máli. Ekki sízt í ráðherraráði sambandsins sem gjarnan er skilgreint sem valdamesta stofnun þess. Vægi Íslands þar yrði þannig í langflestum tilfellum aðeins um 0,08% eða á við 5% hlut í alþingismanni.



Verður það sama gert aftur?

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagði í kappræðum formanna stjórnmálafokkanna á Stöð 2 á dögunum, aðspurður af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, hvort til þess gæti komið að hann gæfi eitthvað eftir varðandi inngöngu í Evrópusambandið kæmi til ríkisstjórnarsamstarfs flokks hans við Viðreisn og Samfylkinguna eftir þingkosningarnar, að hann gæti ekki og myndi ekki taka þátt í ríkisstjórn sem berðist fyrir því að Ísland gengi í sambandið. Hann sæi engin rök fyrir inngöngu í það.



Vilja miklu stærra bákn

Mjög sérstakt er að sjá forystumenn Viðreisnar og aðra frambjóðendur flokksins gagnrýna umfang íslenzku stjórnsýslunnar og segjast vilja minnka báknið á sama tíma og helzta stefnumál flokksins, sem öll önnur stefnumál hans taka í raun mið af, er að Ísland gangi í Evrópusambandið sem telur stjórnsýsluna hér á landi þvert á móti allt of litla til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem fylgja inngöngu í sambandið.



Fámennt ríki á jaðrinum

Versta staða sem ríki getur verið í innan Evrópusambandsins, þegar kemur að möguleikum á því að hafa áhrif á ákvarðanatökur innan þess, er að vera fámennt ríki á jaðri sambandsins. Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið yrði landið bæði það fámennasta innan sambandsins og á yzta jaðri þess.



Hegðaði sér eins og einræðisherra

„Ég vissi að ég gæti aldrei unnið þjóðaratkvæði hér í Þýzkalandi. Við hefðum tapað sérhverri atkvæðagreiðslu um evruna. Það er alveg ljóst,“ sagði Helmut Kohl, fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, í samtali við þýzka blaðamanninn Jens Peter Paul árið 2002. Viðtalið er að finna í doktorsritgerð Pauls sem gerð var opinber um áratug síðar en Kohl gegndi kanzlaraembættinu þegar grunnur var lagður að Evrópusambandinu eins og við þekkjum það í dag og evrusvæðinu með Maastricht-sáttmálanum á tíunda áratug síðustu aldar.



Mjög skiljanleg umræða um EES

Vaxandi umræða um það hvort rétt sé fyrir okkur Íslendinga að vera áfram aðilar að EES-samningnum er afar skiljanleg þó Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, telji hana óskiljanlega samanber pistill hennar í Morgunblaðinu á dögunum þar sem hún hélt því enn fremur meðal annars fram að án samningsins færum við aftur í torfkofana. Eða eins og hún kaus að orða það: „Eins og það sé einhver glóra í því fyrir þjóð sem á allt sitt undir viðskiptum við önnur lönd að forða sér aftur inn í torfkofana.“



Varði ekki viðsnúninginn

Fróðlegur fundur var haldinn í húsakynnum okkar sjálfstæðismanna í Kópavogi á laugardaginn þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, flutti erindi og sat síðan fyrir svörum. Meðal þeirra mála sem voru helzt til umræðu var frumvarp Þórdísar um bókun 35 við EES-samninginn sem mun þýða, nái það fram að ganga, að fest verði í lög að regluverk frá Evrópusambandinu sem innleitt hefur verið í gegnum samninginn gangi framar innlendri lagasetningu.



Við erum á allt öðrum stað

Verðbólga á evrusvæðinu náði hámarki í október 2022 miðað við samræmda vísitölu neyzluverðs á Evrópska efnahagssvæðinu og mældist þá 10,6%. Á sama tíma var verðbólga á Íslandi á sama mælikvarða 6,4%. Eftir það fór verðbólga á evrusvæðinu minnkandi en byrjaði ekki að minnka hér á landi fyrr en í febrúar 2023. Ástæðan er sú að verðbólgan hér hefur verið nokkrum mánuðum á eftir stöðu mála innan svæðisins. Verðbólgan fór með öðrum orðum fyrr upp á evrusvæðinu en hér á landi og fyrir vikið er hún seinni niður hér.



Treystandi fyrir stjórn landsins?

Formanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hefur orðið nokkuð tíðrætt á kjörtímabilinu um að það þurfi „einfaldlega að fara að stjórna þessu landi“ eins og hún til að mynda orðaði það í grein á Vísir.is fyrr á árinu. Þar beindi formaðurinn spjótum sínum að ríkisstjórninni sem sannarlega er hægt að gagnrýna fyrir ýmislegt. Hins vegar er vandséð að Þorgerði og flokki hennar væri betur treystandi fyrir stjórn landsins.

  • Með vægi í samræmi við það
  • Tölum endilega um staðreyndir
  • Skjól fyrir spillta stjórnmálamenn
  • Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki
  • „Þetta er algerlega galið“
©2025 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb