Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagði í kappræðum formanna stjórnmálafokkanna á Stöð 2 á dögunum, aðspurður af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, hvort til þess gæti komið að hann gæfi eitthvað eftir varðandi inngöngu í Evrópusambandið kæmi til ríkisstjórnarsamstarfs flokks hans við Viðreisn og Samfylkinguna eftir þingkosningarnar, að hann gæti ekki og myndi ekki taka þátt í ríkisstjórn sem berðist fyrir því að Ísland gengi í sambandið. Hann sæi engin rök fyrir inngöngu í það.
Fagna ber vitanlega þeim orðum Bjarna að hann væri ekki reiðubúinn að taka þátt í ríkisstjórn sem myndi berjast fyrir inngöngu í Evrópusambandið sem reyndar eru einfaldlega í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar var fyrirspurnin því miður ekki úr lausu lofti gripin. Þannig myndaði Bjarni sem kunnugt er ríkisstjórn í byrjun árs 2017 með Viðreisn og Bjartri framtíð þar sem samþykkt var að tekin yrðu ákveðin skref í átt að inngöngu í sambandið. Hins vegar reyndi aldrei á það vegna skammlífis stjórnarinnar.
Fram kom þannig í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar flokkanna: „Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.“ Með öðrum orðum að opnað yrði á það að þessu stefnumáli einkum Viðreisnar yrði ýtt úr vör. Markmiðið var ljóslega að reyna að komast í kringum stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Minnir óþægilega á framgöngu VG
Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, stærði sig enda af því í grein í Fréttablaðinu þann 10. nóvember 2022 að tekist hefði í samstarfi við Bjarta framtíð að fá forystu Sjálfstæðisflokksins til þess að opna á málið. Nýverið lýsti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sig síðan reiðubúna til þess að ræða slíkt í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum í hlaðvarpinu Bakherberginu þar sem hún sat fyrir svörum ásamt Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmanni Viðreisnar.
Forsenda þess að tekin verði slík skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið er eðli málsins samkvæmt ríkisstjórn hlynnt því og með þingmeirihluta að baki sér sama sinnis með umboð til þess frá kjósendum sínum. Slíkt umboð hefur forysta Sjálfstæðisflokksins vitanlega ekki. Áslaug sagðist ekki telja að samþykkt yrði að stefnt yrði að inngöngu í sambandið í þjóðaratkvæði. Hvað ef það yrði hins vegar samþykkt og líklega af öðrum en flestum kjósendum flokksins? Væntanlega þyrfti þá að slíta stjórnarsamstarfinu. Yrði það gert?
Mjög óþægileg líkindi eru þannig með því sem forysta Sjálfstæðisflokksins féllst á 2017 og því sem fram kom í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs árið 2009 þar sem sagði að þingmál um umsókn um inngöngu í Evrópusambandið yrði lagt fram af þáverandi utanríkisráðherra, ekki í nafni ríkisstjórnarinnar, og að flokkarnir virtu ólíkar áherslur hvors annars gagnvart málinu. Hins vegar gerðist það síðan að meirihluti þingmanna VG studdi það að sótt yrði um inngöngu í sambandið.
Verði ekki tekin skref í átt að ESB
Með öðrum orðum myndi fylgja því vægast sagt gríðarleg pólitísk áhætta að opna á inngöngu í Evrópusambandið með slíkum hætti fyrir utan þá staðreynd að slíkt gæti ekki á nokkurn hátt samrýmst stefnu Sjálfstæðisflokksins í málaflokknum. Eðli málsins samkvæmt getur flokkur sem andvígur er inngöngu í sambandið ekki stutt það að tekin yrðu skref sem ljóslega snerust um það að færa landið nær því að ganga þar inn. Þá má ljóst vera að slíkt yrði miklu fremur til þess fallið að draga frekar úr fylgi Sjálfstæðisflokksins en auka það.
Fyrir liggur að framganga forystumanna innan Sjálfstæðisflokksins vegna mála tengdum EES-samningnum hefur þegar vakið mikla reiði í röðum okkar sjálfstæðismanna og átt sinn þátt í minna fylgi hans. Þá ekki sízt frumvarp varaformannsins Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur sem, ef samþykkt, mun fela í sér að innleidd löggjöf frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn muni lögum samkvæmt ganga framar innlendri lagasetningu. Áður höfðu stjórnvöld um langt árabil varizt í þeim efnum áður en fullkomin uppgjöf átti sér stað.
Mikilvægt er þannig að forystumenn Sjálfstæðisflokksins og aðrir frambjóðendur hans verði afdráttarlausir í málflutningi sínum um það að þeir séu ekki einungis andvígir því að flokkurinn taki þátt í ríkisstjórnarsamstarfi sem berjist fyrir inngöngu í Evrópusambandið heldur muni að sama skapi ekki styðja það að tekin verði skref í þá átt. Til að mynda að ekki verði staðið að málum með sama eða hliðstæðum hætti og í stjórnarsáttmálanum við Viðreisn og Bjarta framtíð. Og það sem er auðvitað enn mikilvægara, standi við það.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 11. nóvember 2024)
(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Vilja miklu stærra bákn
Fámennt ríki á jaðrinum
Hegðaði sér eins og einræðisherra
Við erum á allt öðrum stað
Treystandi fyrir stjórn landsins?