Fyrir helgi voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar þar sem spurt var að því hvern fólk vildi sjá sem formann Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Könnunin, sem Prósent vann í samstarfi við hlaðvarpið Bakherbergið, náði þó ekki einungis til stuðningsmanna flokksins heldur fólks almennt. Með öðrum orðum í flestum tilfellum einstaklinga sem væntanlega eru pólitískir andstæðingar hans.
Fyrir vikið er viðbúið að margir hafi nefnt þann einstakling sem ólíklegastur væri að þeirra mati, af þeim sem nefndir voru til sögunnar, til þess að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í kosningunum í lok nóvember. Ekki sízt þar sem spurt var hvern þeir vildu sjá sem formann flokksins í aðdraganda þeirra sem fyrr segir en ekki hvern þeir teldu hæfastan í þeim efnum eða bezta kostinn með hagsmuni hans í huga.
Vilji pólitískra andstæðinga
Miðað við niðurstöður skoðanakönnunar Prósents vildu flestir sjá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, fara fyrir honum í kosningabaráttunni eða 21%, næstflestir Guðlaug Þór Þórðarson umhverfisráðherra (13%) og þá Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og formann flokksins og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskólaráðherra (11%).
Tvö neðstu sætin skipuðu Jón Gunnarsson, alþingismaður og fyrrverandi dómsmálaráðherra (8,9%) og Guðrún Hafsteinsdóttir núverandi ráðherra dómsmála (7,4%). Könnunin varpar sem fyrr segir eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst ljósi á það hvern pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins myndu vilja sjá leiða hann en segir hins vegar lítið um það hvern stuðningsmenn flokksins vildu sjá í því hlutverki.
Með þveröfugar niðurstöður
Fróðlegt er að bera niðurstöður skoðanakönnunarinnar saman við niðurstöður annarrar könnunar sem Maskína gerði í september þar sem spurt var að því hvaða ráðherra aðspurðir teldu hafa staðið sig bezt í embætti á kjörtímabilinu. Niðurstöðurnar voru í raun þveröfugar. Þar var Guðrún efst af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna í öðru sæti, þá Jón Gunnars, Bjarni, Þórdís og loks Guðlaugur Þór.
Fólk almennt hefur eðli málsins samkvæmt hag að því að þeir sem gegni ráðherradómi hverju sinni taki sem skynsamlegastar ákvarðanir. Þar spilar flokkapólitík miklu minna inn í, og jafnvel lítið sem ekkert, en þegar spurt er um forystumenn einstakra stjórnmálaflokka. Fyrir vikið má gera ráð fyrir því að könnun Maskínu varpi mun betra ljósi á það hvern kjósendur telji raunverulega bezta kostinn í þeim efnum.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 30. október 2024)
(Ljósmynd: Merki Sjálfstæðisflokksins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Hafa stjórn á sínu fólki?
Varði ekki viðsnúninginn
Fullkomlega óskiljanlegt
Hvað segir það um málstaðinn?
Fást engin svör