Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Verðbólga á evrusvæðinu veldur áhyggjum

Posted on 12/01/202222/10/2022 by Fullveldi

Mikilvægt er að Seðlabanki Evrópusambandsins nái tökum á viðvarandi verðbólgu á evrusvæðinu að sögn Joachims Nagel, nýs bankastjóra þýzka seðlabankans, en verðbólga fór í 5,3% í Þýzkalandi í desember og hefur ekki verið meiri frá því í júní 1992. Brezka dagblaðið Daily Telegraph fjallaði um málið í gær.

Fram kemur að vaxandi óánægju gæti í Þýzkalandi með neikvæða stýrivexta Seðlabanka Evrópusambandsins, sem verið hafi við líði á evrusvæðinu í hátt í áratug, sem og peningaprentunar bankans upp á 1,85 milljarða evra (um 273 milljarða króna) til þess að bregðast við afleiðingum kórónuveirufaraldursins.

Verðbólgan aukizt umfram spár hagfræðinga

Verðbólga á evrusvæðinu mælist 5% en verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópusambandsins er 2%. Fram kemur í fréttinni að bankinn hafi slakað á peningastefnu sinni á síðasta ári í því skyni að skapa sveigjanleika til þess að takast á við faraldurinn en verðbólgan hafi aukizt umfram spár hagfræðinga.

„Ég sé fram á vaxandi hættu á því að verðbólga verði áfram há og í lengri tíma en verið er að gera ráð fyrir. Í öllu falli verða þeir sem marka stefnuna að vera á varðbergi,“ segir Nagel. Seðlabanki Evrópusambandsins verði að gera það sem þurfi til þess að varðveita verðstöðugleika. Trúverðugleiki hans sé í húfi.

„Almenningur hefur mun minna fé á milli handanna. Margir eru skiljanlega áhyggjufullir yfir því að hafa orðið af þessum kaupmætti – mjög áhyggjufullir,“ er enn fremur haft eftir Nagel en um er að ræða fyrstu opinberu ummæli hans eftir að hann tók við embætti seðlabankastjóra að því er segir í fréttinni.

Vextir hækkaðir ofan í efnahagslega stöðnun?

Vaxandi verðbólga á evrusvæðinu stafar einkum af hækkandi verðlagi á orku, einkum gasi, og matvælum. Vonir Seðlabanka Evrópusambandsins standa til þess að verðbólgan hafi náð hámarki og ekki þurfi að hækka vexti sem verið hafa neikvæðir einkum vegna viðvarandi efnahagsstöðnunar í lykilríkjum evrusvæðisins.

Komi til þess að hækka verði stýrivexti seðlabankans til þess að slá á verðbólguna mun það að öllum líkindum hægja enn frekar á hjólum atvinnulífsins á evrusvæðinu ofan í þá efnahagslegu stöðnun sem ríkt hefur víða innan þess um árabil. Ekki sízt í Þýzkalandi. Þá sviðsmynd vill bankinn fyrir alla muni forðast.

HJG

(Ljósmynd: Evruseðlar og -mynt. Eigandi: Avij)

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb