Fimm ár eru liðin frá því að samþykkt var í þjóðaratkvæði í Bretlandi að segja skilið við Evrópusambandið. Við tók langt og strangt ferli sem að lokum leiddi til þess að landið yfirgaf sambandið formlega í byrjun síðasta árs. Bretar höfðu þá verið hluti af Evrópusambandinu í tæplega hálfa öld eða allt frá árinu 1973.
Talsvert hefur verið rætt um það í röðum þeirra sem ósáttir eru við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins að mjótt hafi verið á mununum en útgangan var samþykkt með 52% atkvæða gegn 48%. Hefur það verið notað til þess að reyna að gera lítið úr niðurstöðunni og sem rök fyrir því að rétt hefði verið að kjósa aftur.
Fjölmörg önnur dæmi um lítinn mun
Hins vegar er talsvert langur vegur frá því að þjóðaratkvæðið í Bretlandi sé það eina þar sem mjótt hefur verið á mununum. Þannig má nefna að samþykkt var í Svíþjóð árið 1994 með 52% gegn 47% að ganga í Evrópusambandið. Stuðningsmenn inngöngunnar töldu þó alls enga þörf á því að kjósa aftur.
Fleiri dæmi má nefna í þessum efnum. Til dæmis þjóðaratkvæðið um Maastricht-sáttmála Evrópusambandsins í Frakklandi 1992 þar sem 51% samþykkti sáttmálann á meðan 49% höfnuðu honum. Aftur töldu stuðningsmenn þessa samrunaskrefs innan sambandsins alls enga þörf á því að endurtaka kosninguna.
Sömuleiðis má til að mynda nefna þjóðaratkvæðið um inngöngu Möltu í Evrópusambandið 2003 þar sem 53% samþykktu inngönguna og 46% voru á móti. Í öllum þeim tilfellum sem nefnd eru hér að ofan var vitanlega um skýran meirihluta að ræða rétt eins og í þjóðaratkvæðinu í Bretlandi sumarið 2016.
Kosið þar til niðurstaðan verður “rétt”
Hefði verið kosið aftur í Bretlandi og niðurstaðan orðið sú sama var þegar komin fram krafa um að kosið yrði í þriðja skiptið og jafnvel fjórða þar til útkoman yrði ásættanleg. Málið snerist þannig ekki um það hvort mjótt hafi verið á mununum í þjóðaratkvæðinu eða ekki heldur að það fengist “rétt” niðurstaða.
Vert er að hafa í huga að þekkt er að kosið hefur verið aftur þegar samrunaskrefum innan Evrópusambandsins hefur verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum. Til að mynda um Maastrichts-sáttmálann í Danmörku og Nice-sáttmálann á Írlandi. Þegar “rétt” niðurstaða fæst er hins vegar aldrei kosið aftur.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Tower Bridge í London, höfuðborg Bretlands. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Vilja ekki ganga aftur í ESB
Hraðbátarnir og olíuskipið