Fjármálahverfið í London, höfuðborg Bretlands, hefur haldið stöðu sinni sem öflugasta fjármálamiðstöð Evrópu í kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu þrátt fyrir spár ýmissra stjórnmálamanna og framkvæmdastjóra, sem andsnúnir eru útgöngunni úr sambandinu, um að hún myndi skaða stöðu hverfisins.
Fjallað er um málið á fréttavef brezka dagblaðsins Daily Telegraph en þar er byggt á nýjustu upplýsingum um stöðu alþjóðlegra fjármálamiðstöðva (Global Financial Centres Index) sem viðskiptahugveitan Z/Yen heldur utan um. London er þar í öðru sæti á eftir New York og með öruggt forskot á fjármálamiðstöðvar annarra Evrópuríkja. Þannig er París í tíunda sæti á listanum, Frankfurt í 14. sæti og Amsterdam í 17. sæti.
Fram kemur í skýrslu Z/Yen að sterk staða London endurspegli traust gagnvart stöðu fjármálahverfisins til lengri tíma litið. Enn fremur kemur fram að sterk staða bæði London og New York bendi til þess að þessum tveimur fjármálamiðstöðvum hafi tekizt að halda sjó þrátt fyrir miklar breytingar í starfsumhverfi þeirra undanfarna 18 mánuði. London hafi með árangursríkum hætti tekizt að aðlagast breyttum aðstæðum.
Þá er rifjað upp í fréttinni að útflutningur á fjármálaþjónustu frá Bretlandi til ríkja Evrópusambandsins hafi aukizt undanfarna þrjá mánuði þvert á spár um að hann myndi dragast saman vegna útgöngunnar úr sambandinu. Enn fremur er rifjað upp að spár um að útgangan myndi þýða að gríðarlegur fjöldi starfa í fjármálahverfinu myndi flytjast úr landi til meginlandsins hafi að sama skapi ekki gengið eftir.
HJG
(Ljósmynd: Fjármálahverfið í London, höfuðborg Bretlands. Eigandi: Pierre Blaché)
Tengt efni:
Meiri útflutt fjármálaþjónusta þvert á spár
„Mikill sigur fyrir unnendur vína“
Hægt að draga verulega úr regluverki
Mjótt á mununum eða ekki?
Vilja ekki ganga aftur í ESB