Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG ALÞJÓÐAMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Hvers vegna vilja Svíar og Finnar í NATO?

Posted on 07/08/202221/10/2022 by Fullveldi

Fyrr í sumar birtist mjög áhugaverð grein á fréttavef brezka dagblaðsins Guardian eftir dr. Jonathan Eyal, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Royal United Services Institute (RUSI), elztu hugveitu Bretlands á sviði öryggis- og varnarmála. Í greininni fjallar Eyal meðal annars um ástæður þess að stjórnvöld í Svíþjóð og Finnlandi tóku ákvörðun um það að óska eftir aðild að NATO í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu.

Tilefni greinarinnar var leiðtogafundur NATO sem fram fór í Madrid, höfuðborg Spánar, í lok júní þar sem leiðtogar aðildarrríkja bandalagsins tóku meðal annars ákvörðun um að 300 þúsund manna varnarlið á vegum þess yrði til taks til þess að bregðast við með skömmum fyrirvara í stað 40 þúsund manna liðs áður. Þá hétu leiðtogar aðildaríkja NATO því að auka verulega fjárframlög til varnarmála á komandi árum.

Til þessa hefur meirihluti aðildarríkja NATO ekki varið þeim fjármunum til varnarmála sem þau hafa skuldbundið sig til með aðild að bandalaginu, það er sem nemur 2% af landsframleiðslu, og kosið þess í stað að treysta fyrst og fremst á varnarmátt Bandaríkjanna í þeim efnum. Eyal vekur athygli á því að rúmlega 2/3 ríkjanna uppfylli ekki skilyrðið í dag og þar á meðal séu fjölmenn ríki eins og Frakkland, Þýzkaland, Ítalía og Spánn.

Munurinn á löngun ESB og getu NATO

Meðal þess sem undirstrikað var með leiðtogafundi NATO í Madrid að sögn Eyals var sú staðreynd að bandalagið hefur eitt burði til þess að tryggja sameiginlegar varnir Evrópuríkja. Meðal annars með ákvörðun leiðtoga aðildarríkja NATO um að samþykkja formlega aðild Svíþjóðar og Finnlands að bandalaginu í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórna landanna um að hverfa frá hlutleysisstefnu þeirra og óska eftir aðild:

„Það gleymist oft að Svíþjóð og Finnland nutu þegar í orði kveðnu afdráttarlausrar öryggistryggingar í gegnum aðild þeirra að Evrópusambandinu. Eftir sem áður töldu bæði ríkin skynsamlegt að sækjast eftir aðild að NATO á leiðtogafundinum í Madrid þar sem þau gerðu sér grein fyrir muninum á milli löngunar sambandsins [til þess að geta veitt slíka tryggingu] og getu bandalagsins studdri af hernaðarmætti Bandaríkjanna.“

Forystumenn Svíþjóðar og Finnlands hafa sagt að aðild að NATO sé nauðsynleg til þess að tryggja öryggis- og varnarhagsmuni landanna. Þó að 21 af 30 aðildarríkjum NATO, og brátt 23, séu einnig í Evrópusambandinu hafi það þannig ekki tryggt þá hagsmuni. Ekkert þeirra fjögurra ríkja sambandsins sem út af standa (Austurríki, Írland, Kýpur og Malta) býr yfir miklum hernaðarmætti. Það munar fyrst og fremst um Bandaríkin.

Vilja ekki bæta fyrir vanrækslu annarra

Fjölgun aðildarríkja NATO hefur ekki dregið úr því hversu háð þau eru framlagi Bandaríkjanna til sameiginlegra varna bandalagsins sem er langt umfram samanlagt framlag aðildarríkja þess í Evrópu eins og Eyal áréttar. Óvíst sé hversu öflug samstaða NATO hefði verið vegna stríðsins í Úkraínu ef ekki væri fyrir 100 þúsund manna bandarískt varnarlið í álfunni. Það fjölmennasta frá því skömmu eftir lok kalda stríðsins.

Fyrrnefnd tregða ófárra aðildarríkja NATO í Evrópu, við það að standa við skuldbindingar sínar í varnarmálum, hefur sætt réttmætri gagnrýni af hálfu bandarískra stjórnvalda á liðnum árum. Þó Bandaríkjamenn séu sem fyrr reiðubúnir til þess að leggja sitt að mörkum til sameiginlegra varna bandalagsins eru þeir eðli málsins samkvæmt lítt spenntir fyrir því að axla auknar birgðar vegna þess að aðrir standa ekki við sínar skuldbindingar.

Fyrir liggur að Bandaríkin verða áfram hryggjarstykkið í vörnum vestrænna ríkja enda eina ríkið í þeim hópi sem hefur í raun burði til þess að verja bæði sig sjálft og aðra. Fyrir utan þá staðreynd að NATO er varnarbandalag ólíkt Evrópusambandinu er aðild Bandaríkjanna að bandalaginu forsenda þess að það hafi getu til þess að tryggja sameiginlegar varnir þess og þar með talið nýrra aðildarríkja eins og Svíþjóðar og Finnlands.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 7. ágúst 2022)

(Ljósmynd: Fánar Svíþjóðar og Finnlands. Eigandi: Kotivalo)


Tengt efni:
Fjármagna áfram hernað Pútíns
Kuldinn sem fyrr bandamaður Rússlands
Hornsteinn NATO á norðurslóðum
Milljarður evra til Pútíns á hverjum degi
Vaxandi mikilvægi Íslands í varnarmálum

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
  • Stjórnsýslan kvartar undan flóknu regluverki
  • Háð bæði Kína og Rússlandi
  • Kvartað yfir klofinni ríkisstjórn
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb