Full ástæða er til þess að fagna þeim áhuga sem komið hefur fram á meðal stjórnmálamanna í Bandaríkjunum undanfarin ár á því að teknar verði upp viðræður um gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við Ísland þrátt fyrir að ólíklegt verði að telja að af slíkum samningi verði á meðan Ísland á aðild að EES-samningnum.
Tveir bandarískir öldungadeildarþingmenn, þau Lisa Murkowski og Angus King, lögðu nú síðast fram frumvarp að lögum í öldungadeild Bandaríkjaþings sem fjallar um bandarísk forgangsmál á norðurslóðum þar sem meðal annars er kveðið á um það að teknar verði upp fríverzlunarviðræður við íslenzk stjórnvöld.
Með aðildinni að EES-samningnum samþykktu íslenzk stjórnvöld að innleiða þá löggjöf Evrópusambandsins sem gildir um innri markað þess. Þar er ekki sízt um að ræða löggjöf sem fjallar um viðskipti eðli málsins samkvæmt og þar með talin skilyrði sem vörur þurfa að uppfylla svo heimilt sé að flytja þær til landsins.
Tæknilegar viðskiptahindranir vandinn
Kæmi til þess að samið yrði um fríverzlun á milli Íslands og Bandaríkjanna yrðu stjórnvöld í Washington þannig að vera reiðubúin til þess að fallast á það að bandarískar vörur, sem fluttar væru hingað til lands, þyrftu að uppfylla regluverk Evrópusambandsins sem gildir hér á landi vegna EES-samningsins.
Telja verður afar ólíklegt að bandarískir ráðamenn yrðu reiðubúnir til þess að samþykkja slíkt fyrirkomulag enda ljóst að regluverk Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um vöruframleiðslu er oft á tíðum afar ólíkt. Svo ólíkt að oft svarar það hreinlega ekki kostnaði að flytja inn bandarískar vörur til ríkja sambandsins.
Misheppnaðar fríverzlunarviðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins, sem náðu í raun aldrei flugi, snerust enda fyrst og fremst um tæknilegar viðskiptahindranir í formi regluverks sem hafa að miklu leyti tekið við af tollum sem helzta verkfærið til þess að viðhalda verndarhyggju í milliríkjaviðskiptum.
Markar svigrúm Íslands til fríverzlunar
Við Íslendingar stöndum utan tollamúra Evrópusambandsins með aðildinni að EES-samningnum en erum hins vegar innan regluverksmúra þess. Formlega séð höfum við fullt frelsi til þess að semja um fríverzlun við önnur ríki en í raun markar EES-samningurinn þann ramma sem við getum samið innan.
Fyrir vikið eru íslenzk stjórnvöld í þeirri stöðu að þurfa að gera viðsemjendum sínum um mögulega fríverzlun grein fyrir því, áður en formlegar viðræður hefjast, að vegna aðildarinnar að EES-samningnum þurfi Ísland að taka upp umfangsmikla löggjöf sem sé ekki þeirra og þau geti því ekki samið um.
Verulegur hluti regluverks Evrópusambandsins í viðskiptamálum er hugsaður sem tæknilegar viðskiptahindranir til þess að vernda framleiðslu sem fram fer innan vébanda sambandsins gegn utanaðkomandi samkeppni. Þar er allajafna um að ræða framleiðslu sem tengist á engan hátt íslenzkum hagsmunum.
Þegar Costco rak sig á EES-samninginn
Til stóð upphaflega að Costco á Íslandi yrði útibú frá starfsemi fyrirtækisins í Kanada. Að sögn forsvarsmanna Costco var hins vegar ákveðið að um útibú frá starfseminni í Evrópu yrði að ræða eftir að þeir ráku sig á EES-samninginn. Fyrir vikið væri framboðið af amerískum vörum mun minna en til hafi staðið.
Hlutdeild vöruinnflutnings frá Bandaríkjunum í veltu heildsölufyrirtækisins Innnes hefur dregizt verulega saman á liðnum árum. Ástæðan er einkum regluverk Evrópusambandsins og mikill tilkostnaður vegna þess. Til dæmis hætti Innnes að flytja inn bandarískt kex fyrir nokkrum árum af þeim sökum.
Fjölmörg fleiri dæmi eru um það hvernig regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn hefur þvælist fyrir viðskiptum við aðra heimshluta. Þá ekki sízt Bandaríkin. Samningurinn, sem átti að greiða fyrir viðskiptum við Evrópusambandið, hefur þannig í vaxandi mæli orðið að viðskiptahindrun.
Víðtækur fríverzlunarsamningur við ESB
Verði lagafrumvarp Murkowskis og Kings samþykkt í öldungadeild Bandaríkjaþings tekur væntanlega í framhaldinu við tæknileg vinna við undirbúning mögulegra fríverzlunarviðræðna. Viðbúið er að í þeirri vinnu muni bandarískir embættismenn reka sig á EES-samninginn líkt og Costco gerði um árið.
Vitanlega gætu bandarísk stjórnvöld kosið af pólitískum ástæðum að horfa framhjá þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd til sögunnar en ólíklegt verður hins vegar að teljast að þarlendir hagsmunaaðilar muni verða sáttir við það að þurfa áfram að standa og sitja samkvæmt regluverki Evrópusambandsins.
Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum, víðtækur fríverzlunarsamningur við Evrópusambandið. Leið sem ríki heimsins fara allajafna þegar samið er um milliríkjaviðskipti og felur, ólíkt EES-samningnum, ekki í sér vaxandi framsal valds yfir eigin málum og vaxandi hindranir í vegi viðskipta við aðra heimshluta.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 11. október 2022)
(Ljósmynd: Bandaríska þinghúsið í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Eigandi: Balon Greyjoy)
Tengt efni:
Vilja frekar fríverzlunarsamning en EES
Frjáls viðskipti við allan heiminn
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir
Þegar Costco rakst á EES-samninginn
Sviss hafnar samningi í anda EES