Fleiri Norðmenn vilja fríverzlunarsamning við Evrópusambandið en vera áfram aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið Sentio vann fyrir norsku samtökin Nei til EU. Þannig eru 34% hlynnt því að EES-samningnum verði skipt út fyrir fríverzlunarsamning og 27% andvíg því. 38,8% tóku ekki afstöðu með eða á móti.
Skoðanakannanir í Noregi hafa ítrekað skilað hliðstæðum niðurstöðum á undanförnum árum. Síðast í febrúar á þessu ári. Hins vegar hafa aðrar kannanir á sama tíma sýnt fleiri hlynnta EES-samningnum þegar einungis hefur verið spurt um afstöðuna til hans og ekki boðið upp á fríverzlunarsamning sem valkost. Þarna virðist ákveðinni þverstæðu vera fyrir að fara en á því er að öllum líkindum ákveðin rökrétt skýring.
Fleiri hafa verið andvígir inngöngu í Evrópusambandið en hlynntir samkvæmt öllum skoðanakönnunum í Noregi undanfarin 17 ár en umræðan þar í landi hefur lengi verið á þá leið að valið stæði einungis á milli sambandsins og EES-samningsins. Fyrir vikið er viðbúið að ófáir hafi talið að andstaða við aðild að samningnum yrði túlkuð sem stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið þegar aðeins hefur verið spurt um hann.
Þegar boðið hefur verið upp á fríverzlunarsamning sem valkost hefur hins vegar öllum mátt vera ljóst að ekki væri unnt að túlka stuðning við hann sem vilja til þess að ganga í Evrópusambandið. Miðað við það má færa rök fyrir því að skoðanakannanir, þar sem spurt er um EES-samninginn annars vegar og fríverzlunarsamning hins vegar, gefi réttari mynd af raunverulegri afstöðu Norðmanna í þessum efnum.
Víðtækur fríverzlunarsamningur er sú leið sem ríki heimsins hafa allajafna kosið að fara þegar þau hafa samið um viðskipti sín á milli. Þar á meðal stærstu efnahagsveldin með sína miklu viðskiptahagsmuni. Að sama skapi er enginn biðröð ríkja eftir því að gera samning við Evrópusambandið í anda EES-samningsins. Þvert á móti hafa bæði Bretland og Sviss ítrekað hafnað því að gerast aðilar að samningnum.
HJG
(Ljósmynd: Norskir fánar fyrir utan konungshöllina í Ósló, höfuðborg Noregs. Eigandi: Maxxii)
Tengt efni:
Fullkominn aðstöðumunur
Hefur augljósa yfirburðastöðu
Tveir ójafnir dómstólar
Stjórnsýslan ekki nógu stór
Dýr aðgöngumiði að EES-samningnum