Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Forsíða
  • Greinar
    • EES-samningurinn
      • Bókun 35
    • Evrópumál
    • Fríverzlun
    • Schengen
    • Stjórnarskrármál
    • Varnarmál
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Sviss hafnar samningi í anda EES

Posted on May 26, 2021 by Fullveldi

Viðræðum á milli Evrópusambandsins og Sviss, um nýjan heildarsamning í stað þeirra 120 tvíhliða samninga sem Svisslendingar hafa samið um við sambandið, hefur verið hætt að frumkvæði svissneskra stjórnvalda. Viðræðurnar höfðu staðið yfir í sjö ár þegar fulltrúar Sviss yfirgáfu loks samningaborðið.

Samið var um tvíhliða samningana í kjölfar þess að aðild að EES-samningnum var hafnað með meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss árið 1992. Var með samningnum byggt ofan á fríverzlunarsamning Svisslendinga við forvera sambandsins, Efnahagsbandalag Evrópu, sem tók gildi árið 1972.

Viðbrögð við viðvarandi andstöðu Sviss

Höfnun svissneskra kjósenda árið 1992 kom ekki í veg fyrir að Evrópusambandið þrýsti áfram á Sviss að samþykkja EES-samninginn. Heildarsamningurinn var hugsaður sem viðbrögð sambandsins við viðvarandi andstöðu Svisslendinga við EES-samninginn en samningarnir eru í grunninn hliðstæðir.

Þannig fól fyrirhugaður heildarsamningur til að mynda í sér líkt og EES-samningurinn einhliða upptöku Sviss á regluverki frá Evrópusambandinu sem og lögsögu dómstóls sambandsins en samkvæmt EES-samningnum ber EFTA-dómstólnum að taka mið af dómaframkvæmd dómstóls Evrópusambandsins.

Engin biðröð eftir samningum í anda EES

Svisslendingar eru ekki einir um að vera afhuga EES-samningnum eða samningum í anda hans. Þannig vildi Evrópusambandið að Bretland yrði áfram aðili að samningnum eftir að landið yfirgæfi sambandið. Hins vegar höfnuðu brezk stjórnvöld bæði EES-samningnum og í kjölfarið einnig samningi í anda hans.

Langur vegur er frá því að ríki heimsins standi í biðröð og óski eftir því að gera samninga við Evrópusambandið hliðstæða við EES-samninginn. Þvert á móti hafa ríki um heim allan verið að semja sín á milli um víðtæka fríverzlunarsamninga, þar á meðal við sambandið, líkt og niðurstaðan varð í tilfelli Bretlands.

HJG

(Ljósmynd: Svissnesku Alparnir. Eigandi: R D – Wikimedia Commons)

Vefsíðan er ekki lengur uppfærð og þjónar þess í stað hlutverki gagnasafns um utanríkis- og varnarmál. Hægt er að nota leitarvélina hér fyrir neðan til þess að leita í safninu. Hins vegar er vefurinn Stjórnmálin.is þess í stað uppfærður daglega með nýjum pistlaskrifum.
©2025 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb