Full ástæða er til þess að fagna víðtækum fríverzlunarsamningi Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland sem undirritaður var fyrr í sumar. Með samningnum hafa viðskiptahagsmunir Íslands gagnvart einum mikilvægasta útflutningsmarkaði landsins verið tryggðir í það minnsta með ekki síðri hætti en raunin var áður í gegnum EES-samninginn án þess hins vegar að samþykkt hafi verið í staðinn verulegt og vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum til viðsemjandans líkt og í tilfelli síðarnefnda samningsins.
Fram kom í fréttatilkynningu ríkisstjórnar Bretlands í tilefni af undirrituninni að um væri að ræða framsæknasta viðskiptasamning sem ríkin þrjú hefðu gert. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði að sama skapi í Morgunblaðinu 8. júlí að samningurinn væri afar umfangsmikill í samanburði við aðra viðskiptasamninga Íslands en hann tekur ekki aðeins til gagnkvæmra vöru- og þjónustuviðskipta á milli landanna heldur einnig til opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, heilbrigðisreglna fyrir matvæli, tæknilegra reglna vegna ríkisstyrkja, samkeppnismála, starfsumhverfis lítilla og meðalstórra fyrirtækja og margs annars.
Viðskiptatengslin við Bretland efld
„Ég er afar ánægður með niðurstöðuna og sannfærður um að okkar sterku viðskiptatengsl muni eflast enn frekar með þessum samningi,“ sagði Guðlaugur Þór eftir undirritun fríverzlunarsamningsins en miðað við viðbrögðin við honum er ljóst að breið samstaða er um það að hann tryggi viðskiptahagsmuni Íslands að minnsta kosti jafnvel og EES-samningurinn áður sem fyrr segir þó vonir hafi verið uppi um að hann gæti skilað enn betri kjörum. Endurskoðunarákvæði er hins vegar að finna í samningnum og því opið á það síðar.
Til að mynda fagnaði Félag atvinnurekenda því að tekizt hefði „að varðveita til frambúðar þau viðskiptakjör sem giltu í viðskiptum Bretlands og Íslands þegar fyrrnefnda ríkið var enn aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið“ og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í grein á Vísir.is í byrjun júní að tekizt hefði „að tryggja nákvæmlega sama ástand“ og fyrir hendi hafi verið áður en Bretar yfirgáfu bæði Evrópusambandið og EES-samninginn. Staðan er þó vitanlega alls ekki nákvæmlega sú sama. Einkum þar sem ekki felst vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum í fríverzlunarsamningnum.
Höfnuðu EES-samningnum ítrekað
Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sögðu Bretar einnig skilið við EES-samninginn. Brezk stjórnvöld kusu þess í stað að semja um víðtækan fríverzlunarsamning við sambandið, líkt og ríki heimsins hafa almennt verið að gera og þá ekki sízt stærstu viðskiptaveldin, eftir að hafa áður ítrekað hafnað áframhaldandi aðild að EES-samningnum eftir útgönguna og samningum á hliðstæðum nótum. Ástæðan var einkum það framsal valds og tæknilegar viðskiptahindranir, og annað íþyngjandi regluverk, sem fylgir samningnum.
Það er ástæða fyrir því að ríki heimsins hafa ekki staðið í biðröð eftir því að gera samninga við Evrópusambandið í anda EES-samningsins og kjósa þess í stað víðtæka fríverzlunarsamninga. Það er að sama skapi ástæða fyrir því að ekki einungis brezk stjórnvöld heldur einnig svissnesk hafa hafnað aðild að EES-samningnum sem og samningum á hliðstæðum nótum. Það er einfaldlega langur vegur frá því að EES-samningurinn sé bezti kosturinn í stöðunni. Sérstaklega í ljósi þess sem krafizt er á móti í vaxandi mæli enda getur það hvorki talizt eðlilegt né ásættanlegt að vald yfir íslenzkum málum sé gert að hverri annarri verzlunarvöru.
Snýst um hagsmuni lands og þjóðar
Markmiðið, þegar kemur að viðskiptasamningum við önnur ríki, hlýtur ávallt að vera hagsmunir Íslands. Einstakir samningar geta aldrei verið markmið í sjálfu sér. Fyrir vikið þarf sífellt að vera í skoðun hvernig hagsmunir lands og þjóðar verða bezt tryggðir. Allt er breytingum háð. Hagsmunir Íslands taka breytingum, aðstæður á alþjóðavettvangi hafa tekið breytingum og EES-samningurinn hefur breytzt einkum með tilliti til þess með hvaða hætti staðið hefur verið að framkvæmd hans og vegna vaxandi framsals valds í gegnum hann.
Með fríverzlunarsamningnum við Bretland hafa viðskiptahagsmunir Íslands verið tryggðir án þess að nokkuð hafi farið á hliðina í þeim efnum og án þess að verulegt og vaxandi vald hafi í staðinn verið framselt til viðsemjandans. Markmiðið hlýtur að vera að semja á hliðstæðan hátt við Evrópusambandið. EES-samningurinn er í raun einfaldlega barn síns tíma. Þannig voru víðtækir fríverzlunarsamningar til að mynda ekki komnir til sögunnar þegar samið var um hann fyrir rúmum aldarfjórðugi. Mjög margt hefur vitanlega breytzt síðan og tímabært að skipta honum út fyrir nútímalegri nálgun í milliríkjaviðskiptum landsins.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 17. ágúst 2021)
(Ljósmynd: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Dominique Hasler, utanríkisráðherra Liechtenstein, og Ranil Jayawardena, ráðherra alþjóðaviðskipta í brezku ríkisstjórninni. Eigandi: UK Department for International Trade)
Tengt efni:
Þegar Costco rakst á EES-samninginn
Hægt að draga verulega úr regluverki
Hraðbátarnir og olíuskipið
Sviss hafnar samningi í anda EES