Fleiri eru hlynntir því að vera áfram utan Evrópusambandsins en þeir sem vilja ganga aftur í sambandið samkvæmt niðurstöðum nýjustu skoðanakannana í Bretlandi. Fimm ár eru um þessar mundir liðin frá því að brezkir kjósendur samþykktu í þjóðaratkvæði að segja skilið við Evrópusambandið. Bretar gengu formlega úr sambandinu í lok janúar á síðasta ári eftir að hafa verið innan þess í 47 ár.
Miðað við nýjustu skoðanakönnun fyrirtækisins YouGov eru 51% andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 49% hlynnt miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti. Í nýjustu könnun fyrirtækisins Kantar eru 55% andvíg inngöngu í sambandið en 45% hlynnt. Aðrar kannanir undanfarna mánuði hafa einnig sýnt fleiri andvíga en hlynnta því að ganga aftur í það en útgangan var samþykkt 2016 með 52% gegn 48%.
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var af fyrirtækinu Opinium fyrir brezka dagblaðið Observer eru 27% Breta hlynnt því að ganga aftur í Evrópusambandið en 64% vilja vera áfram utan þess með einum eða öðrum hætti. Þar af vilja 22% vera áfram utan sambandsins en tengjast því nánari böndum en raunin er í dag, 20% vilja óbreytt tengsl utan þess og 22% vilja lausari tengsl utan þess.
Þó sumar aðrar skoðanakannanir hafi sýnt fleiri þeirrar skoðunar að útgangan úr Evrópusambandinu hafi fyrir ýmsar sakir ekki gengið nógu vel en þá sem eru því ósammála, enda ekki verið hlaupið þaðan út, eru fleiri á því samkvæmt könnun frá Opinium að þau vandamál sem fylgt hafi útgöngunni leysist með tímanum (42%) en þeir sem telja að svo verði ekki (35%). Þá telja 8% að útgöngunni hafi ekki fylgt vandamál.
Hvað sem öðru líður er í öllu falli ljóst þegar fimm ár eru liðin frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um veru Bretlands í Evrópusambandinu og eftir að Bretar hafa yfirgefið sambandið að fleiri eru á því að rétt sé að vera áfram utan þess ef marka má skoðanakannanir en þeir sem vilja ganga þar inn á nýjan leik. Jafnvel þó ýmsir telji samkvæmt könnunum að útgangan hefði að sumu leyti mátt ganga betur en raunin hefur verið.
HJG
(Ljósmynd: Tower Bridge í London, höfuðborg Bretlands. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)