Makrílveiðar Íslendinga voru til umræðu á fundi í ráðherraráði Evrópusambandsins sem fram fór nýverið en á fundinum kallaði Charlie McConalogue, sjávarútvegsráðherra Írlands, eftir því að sambandið gripi til harðra aðgerða í kjölfar þess að stjórnvöld í Noregi, Færeyjum og á Íslandi tóku ákvörðun um að taka sér einhliða makrílkvóta. Þar á meðal viðskiptaþvingana yrðu ákvarðanirnar ekki dregnar til baka.
Haft er eftir McConalogue á fréttavefnum Donegal Live að hann hafi miklar áhyggjur af ákvörðun norskra stjórnvalda um að auka makrílkvóta sinn um 55% á þessu ári og ákvörðun færeyskra ráðamanna að fylgja í kjölfarið í ljósi þess hversu ríkra hagsmuna Írland ætti að gæta þegar kæmi að makrílveiðum. Stjórnvöld á Íslandi héldu síðan áfram að taka sér óásættanlega mikla hlutdeild í makrílstofninum.
„Ég gerði öðrum ráðherrum og sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins grein fyrir því að ef þessi ríki reynast ófáanleg til þess að snúa við einhliða ákvörðunum sínum þá yrði sambandið að grípa til harðra aðgerða og nýta til þess allar mögulegar leiðir, þar með taldar viðskiptaþvinganir, til þess að tryggja sjálfbærni makrílstofnsins og verja hlutdeild þess í honum,“ er enn fremur haft eftir ráðherranum á fréttavefnum.
Vilja að norskar sjávarafurðir verði sniðgengnar
Haft er eftir Chris MacManus, þingmanni írska stjórnmálaflokksins Sinn Fein á þingi Evrópusambandsins, á fréttavefnum The Fishing Daily að ákvarðanir stjórnvalda í Noregi, Færeyjum og á Íslandi kölluðu að hans mati á hörð viðbrögð. Hann hafi haft samband við framkvæmdastjórn sambandsins og innt hana eftir því hvort ekki væri til skoðunar að beita öllum mögulegum refsiaðgerðum ef það reyndist nauðsynlegt.
Hagsmunasamtök útgerðarmanna og sjómanna víða innan Evrópusambandsins hafa gagnrýnt einkum ákvörðun Norðmanna harðlega og hvatt framkvæmdastjórn sambandsins til þess að grípa til aðgerða vegna hennar. Meðal annars til þess að loka fyrir innflutning á norskum sjávarafurðum til ríkja þess. Þá hafa samtökin hvatt fyrirtæki og neytendur innan Evrópusambandsins til þess að sniðganga norskar sjávarafurðir.
Makríll hóf að ganga í miklum mæli inn í efnahagslögsögu Íslands árið 2008 í leit að átu. Íslenzk stjórnvöld gáfu í kjölfarið út einhliða makrílkvóta en um deilistofn er að ræða. Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar sömdu um makrílveiðar 2014 en ekki náðust samningar við Íslendinga. Framkvæmdastjórn sambandsins hafði þá hótað bæði Íslandi og Færeyjum refsiaðgerðum ef ekki næðust samningar um veiðarnar.
HJG
(Ljósmynd: Fiskiskip í höfninni í Killybegs á Írlandi: Eigandi: Jon Sullivan – Wikimedia Commons)