Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Vilja refsiaðgerðir gegn Íslandi

Posted on 06/07/202122/10/2022 by Fullveldi

Makrílveiðar Íslendinga voru til umræðu á fundi í ráðherraráði Evrópusambandsins sem fram fór nýverið en á fundinum kallaði Charlie McConalogue, sjávarútvegsráðherra Írlands, eftir því að sambandið gripi til harðra aðgerða í kjölfar þess að stjórnvöld í Noregi, Færeyjum og á Íslandi tóku ákvörðun um að taka sér einhliða makrílkvóta. Þar á meðal viðskiptaþvingana yrðu ákvarðanirnar ekki dregnar til baka.

Haft er eftir McConalogue á fréttavefnum Donegal Live að hann hafi miklar áhyggjur af ákvörðun norskra stjórnvalda um að auka makrílkvóta sinn um 55% á þessu ári og ákvörðun færeyskra ráðamanna að fylgja í kjölfarið í ljósi þess hversu ríkra hagsmuna Írland ætti að gæta þegar kæmi að makrílveiðum. Stjórnvöld á Íslandi héldu síðan áfram að taka sér óásættanlega mikla hlutdeild í makrílstofninum.

„Ég gerði öðrum ráðherrum og sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins grein fyrir því að ef þessi ríki reynast ófáanleg til þess að snúa við einhliða ákvörðunum sínum þá yrði sambandið að grípa til harðra aðgerða og nýta til þess allar mögulegar leiðir, þar með taldar viðskiptaþvinganir, til þess að tryggja sjálfbærni makrílstofnsins og verja hlutdeild þess í honum,“ er enn fremur haft eftir ráðherranum á fréttavefnum.

Vilja að norskar sjávarafurðir verði sniðgengnar

Haft er eftir Chris MacManus, þingmanni írska stjórnmálaflokksins Sinn Fein á þingi Evrópusambandsins, á fréttavefnum The Fishing Daily að ákvarðanir stjórnvalda í Noregi, Færeyjum og á Íslandi kölluðu að hans mati á hörð viðbrögð. Hann hafi haft samband við framkvæmdastjórn sambandsins og innt hana eftir því hvort ekki væri til skoðunar að beita öllum mögulegum refsiaðgerðum ef það reyndist nauðsynlegt.

Hagsmunasamtök útgerðarmanna og sjómanna víða innan Evrópusambandsins hafa gagnrýnt einkum ákvörðun Norðmanna harðlega og hvatt framkvæmdastjórn sambandsins til þess að grípa til aðgerða vegna hennar. Meðal annars til þess að loka fyrir innflutning á norskum sjávarafurðum til ríkja þess. Þá hafa samtökin hvatt fyrirtæki og neytendur innan Evrópusambandsins til þess að sniðganga norskar sjávarafurðir.

Makríll hóf að ganga í miklum mæli inn í efnahagslögsögu Íslands árið 2008 í leit að átu. Íslenzk stjórnvöld gáfu í kjölfarið út einhliða makrílkvóta en um deilistofn er að ræða. Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar sömdu um makrílveiðar 2014 en ekki náðust samningar við Íslendinga. Framkvæmdastjórn sambandsins hafði þá hótað bæði Íslandi og Færeyjum refsiaðgerðum ef ekki næðust samningar um veiðarnar.

HJG

(Ljósmynd: Fiskiskip í höfninni í Killybegs á Írlandi: Eigandi: Jon Sullivan – Wikimedia Commons)

HELZTU GREINAR


Meira en heildartekjur ríkissjóðs

Tryggðar innistæður í fjármálastofnunum á Íslandi námu 1.228 milljörðum króna um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja (TVF) og jukust þær um eitt hundrað milljarða á síðasta ári. Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd á Íslandi vegna EES-samningsins mun það að öllum líkindum þýða ríkisábyrgð á tryggðum innistæðum.



Versnandi staða fámennari ríkja ESB

Meðal þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópusambandinu á undanförnum árum er að vægi fámennari ríkja sambandsins við ákvarðanatökur í ráðherraráði þess hefur minnkað stórlega. Einkum þeirra fámennustu. Krafa um einróma samþykki í ráðinu heyrir þannig í raun til algerra undantekninga í dag ólíkt því sem áður var og þess í stað er miðað við meirihlutasamþykki þar sem vægi ríkjanna fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Hvort tveggja hefur eðli málsins samkvæmt komið sér verst fyrir fámennustu ríkin.



Minna svigrúm til viðskiptasamninga

Með aðild Íslands að EES-samningnum hefur regluverk frá Evrópusambandinu, sem tekið hefur verið upp í gegnum samninginn, skapað viðskiptahindranir gagnvart nánustu viðskiptalöndum landsins utan Evrópskra efnahagssvæðisins (EES) og stuðlað að minna svigrúmi EFTA-ríkjanna sem aðild eiga að samningnum, Íslands, Noregs og Liechtensteins, til þess að semja um viðskipti við ríki utan svæðisins.


Færslur

  • Vissulega lítið vit í slíkum samningi
  • Hver á að framkvæma stefnu Viðreisnar?
  • „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“
  • Minnast ekki á lokamarkmiðið
  • Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB
  • Meira en heildartekjur ríkissjóðs
  • Þegar raunveruleikinn hentar ekki
  • Versnandi staða fámennari ríkja ESB
  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb