Margir eru vafalaust annað hvort að skipuleggja ferðalög til annarra landa um þessar mundir eða þegar komnir þangað. Rifja má upp af því tilefni að íslenzk vegabréf eru á meðal þeirra öflugustu í heiminum. Með íslenzkum vegabréfum er þannig hægt að ferðast til 182 ríkja án þess að þörf sé á vegabréfsáritunum og verma þau tólfta sætið á lista brezka ráðgjafafyrirtækisins Henley & Partners yfir öflugustu vegabréfin.
Fyrsta sætið á listanum skipa japönsk vegabréf en með þeim má ferðast til 193 ríkja án vegabréfsáritana. Að meðtöldum japönskum vegabréfum eru vegabréf 29 ríkja ofar á listanum en þau íslenzku. Með japönskum vegabréfum er hægt að ferðast til 13 ríkja án áritana umfram það sem hægt er með íslenzkum. Á sama tíma er hægt að ferðast til tveggja ríkja með íslenzkum vegabréfum umfram japönsk vegabréf.
Þannig er hægt að ferðast til Aserbaísjan, Esvatíní, Eþíópíu, Gabon, Gvæjana, Indlands, Íraks, Kína, Mjanmar, Mongólíu, Síerra Leóne, Súrínam og Víetnam með japönskum vegabréfum án áritana en til Búrkína Fasó og Gambíu með íslenzkum vegabréfum. Með öðrum orðum má ferðast með íslenzkum vegabréfum án áritana til 93% þeirra ríkja sem hægt er að ferðast til með japönskum vegabréfum án áritana.
HJG
(Ljósmynd: Íslenzk vegabréf. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)