Verulega hefur munað um þau bóluefni sem íslenzk stjórnvöld fengu að láni frá Noregi og Svíþjóð þegar kemur að þeim góða árangri sem náðst hefur í bólusetningum hér á landi undanfarnar vikur. Greint var frá þessu í Morgunblaðinu í gær þar sem byggt var á gögnum frá Landlæknisembættinu. Ég fjallaði um málið á Fullveldi.is í lok júní þar sem ég benti á það að lánsbóluefnin hefðu ljóslega haft lykilhlutverki að gegna:
„Miklu betur hefur gengið við bólusetningar hér á landi síðustu vikur en mánuðina á undan en vel sést á vefnum Our World in Data hvernig Ísland fylgir ríkjum Evrópusambandsins þar til í lok apríl þegar leiðir skilja og landið rýkur upp fyrir þau að Möltu undanskilinni en þá höfðu íslenzk stjórnvöld, líkt og maltversk áður, ákveðið að verða sér úti um bóluefni sem aðrir höfðu ekki notað í stað þess að bíða eftir sambandinu.“
Fleira hefur einnig skipt máli í þessu sambandi eins og fjallað er um í frétt Morgunblaðsins. Þá ekki sízt mjög gott skipulag við framkvæmd bólusetninga hér á landi og almennt séð jákvæð afstaða landsmanna til þeirra. Lánsbóluefnin komu annars vegar frá Noregi og hins vegar frá Svíþjóð og var um að ræða samtals 40 þúsund skammta af bóluefnunum AstraZeneca og Janssen sem ríkin tvö höfðu ákveðið að nota ekki.
Stjórnvöld á Íslandi tóku ákvörðun um það fyrir um ári að treysta alfarið á Evrópusambandið þegar kom að því að útvega bóluefni fyrir landsmenn. Eins og fjallað var um í áðurnefndri grein minni hafa pólitískir forystumenn innan sambandsins harðlega gagnrýnt framgöngu þess í bóluefnamálum. Þá hefur Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, viðurkennt að gerð hafi verið mistök í þeim efnum.
Bóluefnin sem fengin voru að láni frá Noregi og Svíþjóð voru hluti af því magni sem ríkin tvö fengu í gegnum bóluefnaáætlun Evrópusambandsins. Þau voru þannig ekki hugsuð fyrir Ísland en íslenzk stjórnvöld tóku hins vegar loks af skarið í apríl sem fyrr segir og höfðu frumkvæði að því að fá bóluefnin lánuð til viðbótar við það sem landinu hafði verið úthlutað í gegnum áætlunina sem átt hefur verulegan þátt í árangri þess.
Full ástæða er til þess að ætla að Ísland væri á enn betri stað í dag í bólusetningarmálum ef stjórnvöld hefðu frá upphafi haft allar klær úti við að útvega þjóðinni bóluefni í krafti fullveldisins í stað þess að leggja öll egg hennar í körfu Evrópusambandsins og bíða einungis eftir því sem skilaði sér í gegnum áætlun þess. Það sem skipti mestu í þessu sambandi var að bregðast hratt við. Þar gilti einfaldlega lögmálið fyrstur kemur, fyrstur fær.
Vert er að hafa í huga að á fyrri hluta síðasta árs var þegar ljóst að Evrópusambandið væri að halda illa á þessum málum. Þannig höfðu þá ýmis ríki sambandsins gripið til þess ráðs að loka landamærum sínum í þeim tilgangi að reyna að hindra útbreiðslu kórónuveirunnar og enn fremur hafið undirbúning að kaupum á bóluefnum án aðkomu þess vegna þess að alls ekkert var að frétta af aðgerðum af hálfu ráðamanna í Brussel.
Það er ekki að ástæðulausu að forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kaus fyrr á þessu ári að líkja einstökum ríkjum utan sambandsins við hraðbáta en sambandinu við olíuskip í viðleitni sinni til þess að reyna að útskýra fyrir fjölmiðlum seinagang þess í bólusetningarmálum. Þegar mikið liggur við er í heimi hraðra breytinga svo sannarlega betra hlutskipti að vera hraðbátur en farþegi í hægfara og svifaseinu olíuskipi.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Bóluefni gegn kórónuveirunni. Eigandi: Navy Medicine)
Tengt efni:
Hraðbátarnir og olíuskipið