Sjómenn á Írlandi hafa gagnrýnt harðlega fríverzlunarsaminginn sem Evrópusambandið samdi um við Bretland í kjölfar þess að Bretar yfirgáfu það. Hluti samningsins fjallar um skiptingu aflaheimilda í deilistofnum næstu fimm árin og segja írskir sjómenn að þar halli mjög á Írland umfram önnur ríki sambandsins.
Fram kemur í frétt Reuters að samkvæmt upplýsingum frá írskum stjórnvöldum muni Írland missa 15% af aflaheimildum sínum næstu fimm árin vegna samningsins en Írland er sem kunnugt er hluti Evrópusambandsins. Írar missi þannig nærri tvöfalt meiri aflaheimildir en Frakkar með tilliti til aflaverðmætis.
„Við höfum verið rændir,“ sagði Patrick Murphy, framvæmdastjóri samtaka fiskframleiðenda í suður- og vesturhluta Írlands, í lok síðasta mánaðar samkvæmt fréttinni í tengslum við fjölmenn mótmæli þar sem sjómenn sigldu hátt í eitt hundrað fiskiskipum upp að miðborg Dyflinnar, höfuðborgar landsins.
Forsvarsmenn írskra sjómanna segja að fríverzlunarsamningurinn við Breta muni kosta mörg þúsund störf samkvæmt frétt írska dagblaðsins Irish Examiner og enn fremur fela í sér gríðarlegt fjárhagslegt tap fyrir írskan sjávarútveg. Hreinlega sé í húfi hvort greinin, sem velti einum milljarði evra á ári, lifi af.
Segir írska sjómenn upp á náð Evrópusambandsins komna
Haft er eftir forsætisráðherra Írlands, Micheál Martin, í frétt Irish Examiner að ríkisstjórn hans teldi að ósanngjörn byrði hefði verið lögð á írskan sjávarútveg með fríverzlunarsamningnum við Bretland og að írskir ráðamenn hefðu fyrir vikið tekið málið upp við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
„Við þurfum að endurskoða tengsl okkar við Evrópusambandið í sjávarútvegsmálum,“ sagði Martin í írska þinginu samkvæmt frétt Reuters og vísaði þar til úthlutunar sambandsins á aflaheimildum. Stjórn sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins er alfarið í höndum þess samkvæmt sáttmálum sambandsins.
Ráðherrann hét því að rétta hlut írsks sjávarútvegar og reyna að sannfæra Evrópusambandið um að leyfa Írum að veiða meira af þeirra eigin fiski eins og það er orðað í frétt Irish Examiner. Írskir sjómenn segja hins vegar ráðamenn Írlands ekki gera nóg til þess að verja írskan sjávarútveg fyrir Evrópusambandinu.
Haft er eftir Hugh Byrne, fyrrverandi umhverfisráðherra Írlands, í frétt blaðsins að írskir sjómenn séu upp á náð Evrópusambandsins komnir og að kominn sé tími til þess að þeir standi í lappirnar gagnvart því. Eina leiðin til þess að eitthvað muni breytast sé hreinlega að loka írskum miðum fyrir erlendum fiskiskipum.
HJG
(Ljósmynd: Höfnin í borginni Galway á Írlandi. Eigandi: Sulmac – Wikimedia Commons)
Tengt efni:
Vilja refsiaðgerðir gegn Íslandi
„Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“