Fullveldið var ritstjóra Fréttablaðsins hugleikið í leiðara á dögunum. Hélt hann því fram að fullveldisafsal væri forsenda þess „að taka höndum saman við aðrar þjóðir í verslun og viðskiptum.“ Áherzlu okkar Íslendinga á að standa vörð um fullveldið okkar líkti hann við Norður-Kóreu, Kúbu og Venesúela. Markmiðið var ljóslega að draga upp þá mynd að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið, eða að minnsta kosti vera áfram aðilar að EES-samningnum, ef við vildum ekki vera dæmd til þess að deila bekk með ríkjunum þremur.
Stæði val okkar raunverulega á milli þessara kosta er ljóst að flest ríki heimsins væru í sömu stöðu og Norður-Kórea, Kúba og Venesúela enda utan Evrópusambandsins, líkt og Ísland, og að auki ekki aðilar að EES-samningnum eða hliðstæðum samningum. Ríkin þrjú verða þess utan seint talin sérlegir fulltrúar fullvalda ríkja en eiga það hins vegar sameiginlegt að til dæmis eignarréttur, einkaframtak og frjáls viðskipti eru ekki beinlínis hátt skrifuð þar á bæ sem skýrir einkum hörmulega efnahagslega stöðu þeirra.
Ekki ávísun á framsal valds
Vert er að hafa í huga í þessu sambandi að við Íslendingar erum á meðal þeirra þjóða sem eiga í hvað mestu alþjóðlegu samstarfi, óháð aðildinni að EES-samningnum. Það segir síðan ef til vill sína sögu um álit ritstjórans á Evrópusambandinu og EES-samningnum að hann hafi talið sig þurfa að stilla þessu tvennu upp við hliðina á umræddum ríkjum til þess að varpa á það jákvæðu ljósi. Sem aftur rifjar það óhjákvæmilega upp þegar Ísland átti að verða Kúba norðursins ef við samþykktum ekki að greiða fyrir Icesave.
Mjög langur vegur er frá því að frjáls viðskipti á milli ríkja séu ávísun á framsal valds. Hvað þá í þeim verulega og vaxandi mæli sem fylgir aðild að EES-samningnum og í enn ríkari mæli inngöngu í Evrópusambandið. Ríki sambandsins hafa þannig framselt vald yfir flestum málum sínum til stofnana þess sem sér ekki fyrir endann á. Þá tekur vægi ríkja innan þess fyrst og fremst mið af íbúafjölda þeirra auk þess sem einróma samþykki heyrir í dag nánast sögunni til sem eðli málsins samkvæmt kemur sér verst fyrir fámennari ríki.
Framtíðarmarkaðirnir annars staðar
Hvað EES-samninginn varðar er ástæða fyrir því að ríki heimsins standa ekki í röð og biðja Evrópusambandið um samninga í anda hans en hafa þess í stað lagt áherzlu á víðtæka fríverzlunarsamninga. Þar á meðal og ekki sízt stærstu efnahagsveldin með sína miklu viðskiptahagsmuni. Að sama skapi er ekki að ástæðulausu að Bretland og Sviss hafa ítrekað hafnað EES-samningnum og hliðstæðum samningum. Fyrst og fremst vegna þess mikla framsals valds sem honum fylgir og viðskiptahindrana í formi íþyngjandi regluverks.
Fyrir liggur að markaðir framtíðarinnar verða annars staðar en innan Evrópusambandsins. Þannig hefur til að mynda hlutdeild sambandsins í hagvexti á heimsvísu farið hratt minnkandi á undanförnum árum og fátt sem bendir til annars en að sú þróun muni halda áfram. Nokkuð sem forystumenn sambandsins hafa viðurkennt opinberlega. Lausn þeirra í þessum efnum, líkt og raunar á flestu öðru, er enn meiri samruni innan þess með tilheyrandi samþjöppun valds, aukinni miðstýringu og meira íþyngjandi regluverki.
Viðskipti við sem allra flesta
Miðstýrt skriffinskuveldi eins og Evrópusambandið er einfaldlega barn síns tíma og á í þeim efnum miklu fremur samleið með ríkjum eins og Norður-Kóreu, Venesúela og Kúbu, fyrst ritstjórinn kaus að gera þau að umtalsefni, þar sem hvers kyns miðstýring er einmitt í hávegum höfð. Full ástæða er þannig til þess að velta fyrir sér hversu mikla samleið frjáls viðskipti eiga með tollabandalagi eins og sambandinu og enn fremur hversu frjáls markaður raunverulega er sem býr við sífellt umfangsmeira og meira íþyngjandi regluverk.
Miklu skiptir fyrir okkar Íslendinga að geta átt í frjálsum viðskiptum við sem allra flesta. Helzt allan heiminn. Það gerum við þó ekki með því að loka okkur af innan verndarstefnu Evrópusambandsins, hvort sem það er innan regluverksmúra þess í gegnum EES-samninginn eða bæði regluverks- og tollamúra sambandsins með inngöngu í það. Við gerum það hins vegar með því að standa vörð um fullveldið, frelsið til þess að ráða okkar eigin málum og þar með talið frelsið til þess að gera viðskiptasamninga við aðrar þjóðir.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Forsíða Fréttablaðsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir
Þegar Costco rakst á EES-samninginn
„Mikill sigur fyrir unnendur vína“
Hægt að draga verulega úr regluverki
Sviss hafnar samningi í anda EES