Þvert á spár ýmissra stjórnmálamanna í Bretlandi og forystumanna í brezku atvinnulífi, sem andvígir hafa verið útgöngu landsins úr Evrópusambandinu, um að hrun yrði í útflutningi á fjármálaþjónustu til sambandsins í kjölfar útgöngunnar jókst útflutningurinn á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.
Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu í lok janúar 2020 en yfirgáfu innri markað og tollabandalag sambandsins um síðustu áramót þegar víðtækur fríverzlunarsamningur við það tók gildi. Samningurinn nær ekki til þjónustuviðskipta en til stóð að semja um þau síðar sem þó hefur ekki skilað árangri. Fyrir vikið hafa brezk stjórnvöld lagt áherzlu á að nýta það frelsi frá regluverki Evrópusambandsins sem útgangan hefur skapað, auka samkeppnishæfni brezks atvinnulífs og sækja fram á öðrum mörkuðum.
Komið verst við fyrirtæki innan ESB
Fram kemur á fréttavef brezka dagblaðsins Daily Telegraph að þannig hafi útflutningur á þjónustu banka, tryggingafélaga og annarra fjármálafyrirtækja í Bretlandi til Evrópusambandsins aukizt um 1,4% á fyrstu þremur mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil árið 2019 samkvæmt tölum brezku hagstofunnar. Miðað er við 2019 vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á tölur síðasta árs.
„Tölurnar eru ekki í samræmi við fullyrðingar framkvæmdastjóra og stjórnmálamanna um að útgangan úr Evrópusambandinu myndi rústa möguleikum fjármálahverfisins í London til þess að eiga í viðskiptum við meginlandið,“ segir enn fremur i frétt blaðsins. Þykir þetta ekki sízt áhugavert í ljósi þess að fríverzlunarsamningurinn við sambandið nær ekki til þjónustuviðskipta sem fyrr segir.
Þess í stað virtust fyrirtæki innan Evrópusambandsins hafa orðið fyrir mestum skakkaföllum í kjölfar útgöngu Bretlands. Þannig hafi útflutningur á fjármálaþjónustu frá sambandinu til Bretlands dregizt saman um meira en þriðjung og komið verst niður á fyrirtækjum í Frakklandi, Hollandi og á Írlandi.
Aukinn útflutningur til ríkja utan ESB
Fram kemur í fréttinni að á sama tíma hafi útflutningur á lögfræði-, stjórnunar-, ráðgjafar- og almannatengslaþjónustu frá Bretlandi til ríkja utan Evrópusambandsins aukizt um rúman þriðjung. Þykja tölur hagstofunnar um útflutta fjármálaþjónustu til marks um að brezkt fjármálalíf sé með árangursríkum hætti að aðlagast breyttum aðstæðum í kjölfar útgöngu Breta úr sambandinu.
Verðmæti útfluttrar fjármálaþjónustu nemur 56 milljörðum punda (um 9.900 milljarðar íslenzkra króna) á ári og fer um þriðjungur þjónustunnar til ríkja innan Evrópusambandsins.
HJG
(Ljósmynd: Tower Bridge í London, höfuðborg Bretlands. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
„Mikill sigur fyrir unnendur vína“
Hægt að draga verulega úr regluverki
Mjótt á mununum eða ekki?
Vilja ekki ganga aftur í ESB