Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Telja norræna vinnumarkaðsmódelinu ógnað

Posted on 21/11/202113/12/2022 by Fullveldi

Stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð hafa undanfarin misseri barizt gegn áformum Evrópusambandsins um að koma á samræmdum, lögbundnum lágmarkslaunum innan sambandsins. Hafa þarlendir ráðamenn sagt að slík löggjöf muni grafa undan norræna vinnumarkaðsmódelinu sem snýst sem kunnugt er um það að aðilar vinnumarkaðarins semja um kaup og kjör án pólitískra afskipta og þar með talin lágmarkslaun.

Fjallað var um málið á fréttavefnum Thelocal.dk 18. nóvember síðastliðinn þar sem kemur meðal annars fram að danska þingið hafi hafnað fyrirhugaðri tilskipun Evrópusambandsins um lögbundin lágmarkslaun. Haft er eftir Mattias Tesfaye, starfandi atvinnumálaráðherra Danmerkur, að hann fagnaði stuðningi þingsins við stefnu ríkisstjórnarinnar en við völd í landinu er minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins.

Fram kemur einnig að þrátt fyrir að fyrirhuguð löggjöf Evrópusambandsins eigi samkvæmt orðanna hljóðan einungis að ná til ríkja þar sem lögbundin lágmarkslaun séu þegar fyrir hendi, og bæði Danmörk og Svíþjóð séu þar sem undanþegin henni, óttist þarlendir stjórnmálamenn engu að síður að það fyrirkomulag kunni að verða ofan á að lokum komi til þess að látið verði reyna á málið fyrir dómstól sambandsins.

Óttast að norræna fyrirkomulagið hverfi

Fréttavefurinn Euractiv.com greinir frá því að skýrsla um samræmd lágmarkslaun hafi verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í félagsmálanefnd þings Evrópusambandsins á dögunum en málið sé eitt helzta markmið jafnaðarmanna innan sambandsins. Að mati jafnaðarmanna í Danmörku og Svíþjóð hafi hins vegar verið um sorgardag að ræða og hið sama eigi við um verkalýðshreyfingar landanna.

„Við óttumst að [vinnumarkaðs-]módelið okkar á Norðurlöndunum muni hverfa,“ hefur fréttavefurinn eftir Marianne Vind, þingmanni danska Jafnaðarmannaflokksins. Johan Danielsson, þingmaður sænskra jafnaðarmanna, tekur undir þetta: „Þetta samrýmist ekki norræna fyrirkomulaginu um launaákvarðanir sem byggist á því að aðilar vinnumarkaðarins semji sjálftstætt án pólitískra afskipta.“

Fram kemur í frétt Euractiv.com að gert sé ráð fyrir því að ráðherraráð Evrópusambandsins fjalli um fyrirhugaða tilskipun um lágmarkslaun í desember og að viðræður þings sambandsins og ráðsins um hana kunni að fara fram á fyrri hluta næsta árs. Danskir og sænskir fulltrúar á þinginu bindi hins vegar vonir við atkvæðagreiðslu sem fyrirhuguð sé innan þess um það hvort leyfðar verði breytingartillögur við skýrsluna.

Forsenda fyrir veru Danmerkur í ESB

Fréttaveitan Bloomberg hafði eftir Peter Hummelgaard Thomsen, atvinnumálaráðherra Danmerkur í ríkisstjórn jafnaðarmanna, í marz að fullveldi yfir vinnumarkaðsmálum hefði alltaf verið skilyrði fyrir veru landsins í Evrópusambandinu. Dönsk verkalýðsfélög hefðu samþykkt inngöngu í forvera sambandsins árið 1972 á þeim forsendum að framsal valds til þess myndi ekki ógna danska vinnumarkaðsmódelinu.

Thomsen sagði enn fremur að áherzla framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á lögbundin lágmarkslaun innan sambandsins hafi valdið „gremju og áhyggjum“ í Danmörku. Danir hafi áttað sig á því að ráðamenn í Brussel „gætu mögulega gripið inn í eitthvað mjög, mjög heilagt fyrir okkur.“ Með öðrum orðum er ljóst að Evrópusambandið hefur í hyggju að fara gegn mikilvægum hagsmunum Dana og Svía.

Taki tilskipun Evrópusambandsins gildi innan þess verður að telja líklegt að sambandið muni telja hana falla undir innri markað þess og þar með EES-samninginn. Málið gæti fyrir vikið hæglega komið til kasta íslenzkra stjórnvalda, þingmanna og verkalýðshreyfingarinnar hér á landi innan tíðar.

HJG

(Ljósmynd: Frá Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)


Tengt efni:
Fullveldi og lýðræði haldast í hendur
Stærstu ríkin í algerri yfirburðastöðu

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb