Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Fjármagn streymir til Bretlands

Posted on 04/01/202222/10/2022 by Fullveldi

Meira fjármagn hefur skilað sér inn í vaxtafyrirtæki í Bretlandi en nokkurn tímann áður í kjölfar þess að landið yfirgaf Evrópusambandið. Þetta hefur brezka dagblaðið Daily Telegraph eftir Sam Smith, framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækisins FinnCap. Útgangan hafi haft mjög jákvæð áhrif á fjármálalíf Bretlands. Einkum þar sem mögulegt hafi verið að draga úr íþyngjandi regluverki sem komið hafi frá sambandinu.

„Frá mínum bæjardyrum séð hefur útgangan úr Evrópusambandinu ekki verið annað en jákvæð,“ segir Smith enn fremur í viðtalinu. „Við höfum búið við frábært fjárfestingaumhverfi, það er mjög mikið af fjármagni að koma inn í Bretland, meðal annars fjármagn til þess að styðja við nýsköpunarfyrirtæki og auka umsvif fyrirtækja. Og fjármagn hefur haldið áfram að koma erlendis frá og stóraukizt í kjölfar útgöngunnar.“

Höfnuðu ítrekað aðild að EES-samningnum

Fjölmiðlar greindu frá því síðasta haust að London, höfuðborg Bretlands, hefði haldið stöðu sinni sem öflugasta fjármálamiðstöð Evrópu í kjölfar útgöngunnar úr Evrópusambandinu samkvæmt Global Financial Centres Index sem hugveitan Z/Yen heldur utan um. Þá hefur einnig verið greint frá því að þvert á ýmsar spár hafi útflutningur á fjármálaþjónustu frá Bretlandi aukizt í kjölfar þess að landið yfirgaf sambandið.

Brezk stjórnvöld höfnuðu því ítrekað að Bretland yrði áfram aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eftir útgöngu landsins úr Evrópusambandinu en sömdu þess í stað um víðtækan fríverzlunarsamning við það. Ástæða þess að EES-samningnum var hafnað var einkum sú að áframhaldandi aðild að honum þýddi framsal valds yfir brezkum málum og upptaka íþyngjandi regluverks frá sambandinu.

Yfirlýst markmið Evrópusambandsins í viðræðum um fríverzlunarsamning við brezk stjórnvöld var að sjá til þess að Bretland yrði ekki samkeppnishæfara en ríki þess. Í þeim tilgangi reyndu ráðamenn í Brussel að fá Breta til þess að samþykkja að vera áfram sem mest bundnir af regluverki sambandsins. Var í því skyni meðal annars lagt að brezkum ráðamönnum að fallast á áframhaldandi aðild að EES-samningnum.

Ísland innan regluverksmúra Evrópusambandsins

Ólíkt Bretlandi er Ísland sem kunnugt er aðili að EES-samningnum og þar með skuldbundið til þess að taka upp regluverk frá Evrópusambandinu sem snýr að innri markaði þess og farið hefur vaxandi á undanförnum árum. Þá hefur regluverkið kallað á vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum og oft á tíðum hentað hérlendum aðstæðum og hagsmunum illa enda hannað með aðstæður á meginlandi Evrópu í huga.

Fyrir vikið er Ísland í vaxandi mæli innan þess sem kalla mætti regluverksmúra Evrópusambandsins en regluverk hefur í seinni tíð tekið við af tollum sem helzta verkfæri ríkja og ríkjasambanda til þess að viðhalda verndarstefnu í milliríkjaviðskiptum þar sem regluverki er markvisst beitt til þess að vernda innlenda framleiðslu gegn utanaðkomandi samkeppni. Þetta hefur ekki sízt átt við um sambandið.

HJG

(Ljósmynd: Tower Bridge í London, höfuðborg Bretlands. Eigandi: SvG)


Tengt efni:
Höfuðstöðvar Shell til Bretlands
Vilja refsa Bretum fyrir Brexit
„Þetta er ekki vandamál tengt Brexit“
Fjármálahverfi London heldur stöðu sinni
Meiri útflutt fjármálaþjónusta þvert á spár

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb