Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, hitti naglann á höfðuð fyrr á þessu ári í viðleitni sinni til þess að útskýra seinagang sambandsins við bólusetningar við kórónuveirunni í samanburði við ýmis ríki utan þess. „Eitt og sér getur ríki verið eins og hraðbátur á meðan Evrópusambandið er meira eins og olíuskip,“ sagði von der Leyen við fjölmiðla í febrúar og vísaði til stjórnsýslu sambandsins.
Margir hafa klórað sér í kollinum undanfarna mánuði vegna þeirrar ákvörðunar íslenzkra stjórnvalda fyrir ári að leggja nokkurn veginn allt sitt traust á Evrópusambandið þegar kom að því að útvega þjóðinni bóluefni gegn kórónuveirunni. Ekki sízt vegna þess að viðvörunarbjöllur glumdu hátt löngu áður en sú ákvörðun var tekin enda ekki beinlínis í fyrsta skiptið sem sambandinu tekst illa til þegar krísuástand skapast.
Miklu betur hefur gengið við bólusetningar hér á landi síðustu vikur en mánuðina á undan en vel sést á vefnum Our World in Data hvernig Ísland fylgir ríkjum Evrópusambandsins þar til í lok apríl þegar leiðir skilja og landið rýkur upp fyrir þau að Möltu undanskilinni en þá höfðu íslenzk stjórnvöld, líkt og maltversk áður, ákveðið að verða sér úti um bóluefni sem aðrir höfðu ekki notað í stað þess að bíða eftir sambandinu.
Klúðraði samningum við lyfjaframleiðendur
Fleiri forystumenn Evrópusambandsins en von der Leyen hafa viðurkennt að sambandið hafi tekið alltof seint við sér. Þar á meðal Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sem sagði í samtali við fréttaveituna Reuters í lok marz að leiðtogar Evrópusambandsins hefðu ekki áttað sig á því að hægt yrði að þróa bóluefni eins hratt og raun bar vitni og fyrir vikið hefði sambandið dregizt aftur úr ýmsum ríkjum utan þess.
Sömuleiðis gagnrýndi Guy Verhofstadt, fyrrverandi forseti þings Evrópusambandsins, framkvæmdastjórn sambandsins harðlega fyrr á þessu ári fyrir að hafa klúðrað samningum við lyfjaframleiðendur. Samningarnir innihéldu þannig til að mynda mjög óljóst orðalag um afhendingartíma og magn bóluefnis og væru fyrir vikið á forsendum framleiðendanna ólíkt til að mynda þeim samningum sem Bretar hefðu gert.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sakað lyfjaframleiðendur um að standa ekki við gerða samninga en eins og Verhofstadt benti á stóð hún einfaldlega illa að samningsgerðinni. Þá hefur verið bent á að þrátt fyrir að sambandið hafi lagt umtalsverða fjármuni í þróun bóluefna hafi þær upphæðir hins vegar verið mun lægri en þær sem til að mynda Bandaríkjamenn og Bretar lögðu af mörkum í þeim efnum.
Mikilvægt að geta brugðist hratt og örugglega við
Með vísan í orð von der Leyen kusu íslenzk stjórnvöld, þar til fyrir nokkrum vikum síðan, að binda trúss sitt alfarið við hægfara og svifaseint olíuskip í stað þess að nýta að fullu þá möguleika sem felast í fullveldi landsins. Fyrir vikið ríkti lengst af veruleg óvissa um það hvenær bóluefni bærust til landsins og í hversu miklu magni. Var dagsetningum ítrekað frestað í þeim efnum rétt eins og innan Evrópusambandsins.
Framganga Evrópusambandsins vegna kórónuveirufaraldursins er því miður engan veginn einsdæmi þegar krísuástand er annars vegar. Þannig hafa viðbrögð sambandsins ítrekað mislukkast með hliðstæðum hætti þegar miklir erfiðleikar hafa knúið dyra á liðnum árum. Nægir þar að nefna, fyrir utan kórónuveirufaraldurinn, efnahagskrísuna fyrir rúmum áratug síðan og flóttamannakrísuna um miðjan síðasta áratug.
Mjög langur vegur er frá því að stærðin sé ótvíræður kostur líkt og von der Leyen benti á fyrr á árinu. Ljóst er að sífellt hraðari breytingar eiga sér stað í heiminum og skiptir miklu máli við þær aðstæður að geta brugðizt hratt og örugglega við. Ekki sízt þegar mikla erfiðleika ber skyndilega að garði. Við þær aðstæður er eðli málsins samkvæmt miklu farsælla hlutskipti að vera hraðbátur en farþegi í svifaseinu olíuskipi.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eigandi: Wikimedia Commons – EU2016 SK)