Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Að virða niðurstöður kosninga

Posted on 14/09/202229/11/2022 by Fullveldi

Talsvert hefur verið rætt um mikilvægi þess að virða niðurstöður lýðræðislegra kosninga af hálfu þeirra sem vilja skipta lýðveldisstjórnarskránni út fyrir tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hefur þar verið skírskotað til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar sem fram fór haustið 2012.

Hins vegar hafa kjósendur gengið talsvert oftar að kjörborðinu síðan. Þannig hefur fjórum sinnum verið kosið til þings frá því að þjóðaratkvæðið fór fram og er óhætt að segja að stjórnmálaflokkar, hlynntir því að skipta um stjórnarskrá, hafi ekki riðið sérlega feitum hesti frá umræddum kosningum.

Framboð hlynnt því að skipta út lýðveldisstjórnarskránni fyrir aðra fengu þannig mest um þriðjung atkvæða samanlagt í þingkosningum 2013 en tekizt var harkalega á um málið á Alþingi í aðdraganda kosninganna sem lauk loks með því að frumvarp að nýrri stjórnarskrá náði ekki fram að ganga.

Hins vegar skiluðu þingkosningarnar, sem fram fóru einungis sex mánuðum eftir þjóðaratkvæðið, þeim tveimur stjórnmálaflokkum sem börðust gegn samþykkt frumvarpsins, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, meirihluta þingsæta sem gerði þeim í framhaldinu kleift að mynda ríkisstjórn.

Minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn einn

Fylgi framboða hlynntum því að skipta um stjórnarskrá hefur síðan þá allajafna farið minnkandi og var þannig einungis um 22% samanlagt í þingkosningunum á síðasta ári þrátt fyrir auglýsingaherferð Stjórnarskrárfélagsins í aðdraganda þeirra þar sem kjósendur voru hvattir til þess að styðja slík framboð.

Framboð hlynnt því að skipta um stjórnarskrá, Píratar, Samfylkingin og Sósíalistaflokkurinn, fengu þannig ekki aðeins samanlagt mikinn minnihluta atkvæða heldur minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn einn. Framboð hlynnt umbótum á stjórnarskrá lýðveldisins fengu hins vegar mikinn meirihluta atkvæða.

Með öðrum orðum er ljóst að meintur vilji þjóðarinnar til þess að skipta um stjórnarskrá hefur alls ekki birzt í niðurstöðum þingkosninga þrátt fyrir að fyrir liggi að stjórnarskrárbreytingar séu háðar aðkomu Alþingis hvort sem tekið er mið af gildandi stjórnarskrá lýðveldisins eða tillögum stjórnlagaráðs.

Vert er þó að hafa í huga í þessu sambandi að stjórnlagaráði var aldrei falið að semja nýja stjórnarskrá heldur einungis að koma með ráðgefandi tillögur að breytingum á lýðveldisstjórnarskránni eins og kemur skýrt fram í þingsályktun Alþingis um skipun ráðsins. Hið sama er áréttað á vefsíðu ráðsins.

Fyrst og fremst áhugamál afmarkaðs hóps

Viðbrögðin úr röðum þeirra sem vilja skipta um stjórnarskrá, þegar bent er á þingkosningar í þessum efnum, hafa verið þau að segja þær ekki snúast um stjórnarskrármálið. Þingkosningar snúast þó yfirleitt um það sem brennur á fólki en ljóst er, eins og forseti lýðveldisins hefur bent á, að það á ekki við um umrætt mál.

Talað hefur einnig verið um það í áðurnefndum röðum að íslenzkir kjósendur hafi svikið íslenzku þjóðina í þingkosningum, það er svikið sig sjálfa, og jafnvel verið gengið svo langt að ræða um valdarán gegn lýðræðislega kjörnu Alþingi láti það ekki undan kröfum þeirra sem vilja skipta um stjórnarskrá.

Full ástæða er til þess að velta fyrir sér hversu lýðræðislegur þessi málflutningur er. Flest bendir enda til þess að fyrst og fremst sé einungis um að ræða áhugamál frekar afmarkaðs en háværs hóps en valdarán hafa einmitt iðulega verið framin af afmörkuðum hópum gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum.

Vonandi þarf annars ekki að deila um mikilvægi þess að virða niðurstöður lýðræðislegra kosninga. Sé lýðræðið hins vegar raunverulega útgangspunkturinn hlýtur að vera rétt að horfa til lýðræðislegra kosninga almennt í því sambandi en ekki einungis þeirra sem henta tilteknum pólitískum málstað.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 14. september 2022)

(Ljósmynd: Stjórnarskrá Íslands. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)


Tengt efni:
„Þetta vill meirihluti þjóðarinnar!“
„Skynsamlegar umbætur á stjórnarskrá Íslands“
Var aldrei falið að semja nýja stjórnarskrá

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb