Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Forsíða
  • Greinar
    • EES-samningurinn
      • Bókun 35
    • Evrópumál
    • Fríverzlun
    • Schengen
    • Stjórnarskrármál
    • Varnarmál
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Vaxandi samvinna í varnarmálum

Posted on January 26, 2022 by Fullveldi

Fundur Antonys J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra símleiðis fyrr í þessum mánuði, og fréttatilkynning bandaríska utanríkisráðuneytisins í kjölfarið, er enn ein birtingarmynd aukins áhuga bandarískra stjórnvalda á því að styrkja tengslin við Ísland þegar kemur að varnarmálum en í tilkynningunni segir að ráðherrarnir hafi meðal annars rætt um vaxandi samvinnu í varnarmálum eða eins og það er orðað í henni „deepening defense cooperation.“

Fram kemur að Blinken hafi óskað Þórdísi til hamingju með að hafa tekið við embætti utanríkisráðherra og lagt áherzlu á stuðning Bandaríkjastjórnar við sterkt tvíhliða samband Íslands og Bandaríkjanna. Ráðherrarnir hafi að öðru leyti rætt um sameiginlegar áherzlur ríkjanna. Þar á meðal öryggi Evrópuríkja með hliðsjón af hernaðaruppbyggingu rússneskra stjórnvalda og stuðning við fullveldi Úkraínu, loftlagsmál, efnahagsleg tengsl og fjárfestingar og mannréttindi og kynjajafnrétti á alþjóðavísu auk varnarmálanna.

Þverpólitískur áhugi á því að styrkja tengslin

Háttsettir bandarískir ráðamenn hafa í auknum mæli heimsótt Ísland síðustu ár samhliða því sem áherzla hefur verið lögð á endurbætur á aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli og aukna nýtingu hennar. Fyrir utan Blinken, sem heimsótti landið síðasta vor í tengslum við fund Norðurskautsráðsins, má nefna forvera hans Mike Pompeo, varaforsetann fyrrverandi Mike Pence og Robert S. Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama. Áhuginn á því að styrkja tengslin við Ísland er með öðrum orðum þverpólitískur.

Mikilvægi landfræðilegrar staðsetningar Íslands með tilliti til varnarmála hefur þannig farið vaxandi á nýjan leik á undanförnum árum en ljóst er að þeirri skoðun hefur vaxið ásmegin á meðal bandarískra stjórnmálamanna, embættismanna og sérfræðinga á sviði varnarmála að alvarleg mistök hafi verið gerð þegar bandarísk stjórnvöld tóku ákvörðun um það árið 2006 að loka varnarstöðinni í Keflavík. Engin áform eru þó uppi að sögn ráðamanna í Washington um að óska eftir varanlegri aðstöðu fyrir bandarískt herlið hér á landi.

HJG

(Ljósmynd: Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Eigandi: Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna)


Tengt efni:
Fær ESB sæti Frakka í öryggisráðinu?
Vilja að ESB fái eigin hersveitir
Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki
Sama gamla stefnan í grunninn

Vefsíðan er ekki lengur uppfærð og þjónar þess í stað hlutverki gagnasafns um utanríkis- og varnarmál. Hægt er að nota leitarvélina hér fyrir neðan til þess að leita í safninu. Hins vegar er vefurinn Stjórnmálin.is þess í stað uppfærður daglega með nýjum pistlaskrifum.
©2025 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb