Fjöldi þeirra mála sem stafa af regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum hefur farið vaxandi á liðnum árum á sama tíma og gildissvið samningsins hefur verið að teygjast út til fleiri málaflokka. Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis og þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í þættinum Í leit að sannleikanum á Útvarpi Sögu fyrr í vikunni um þær breytingar sem orðið hefðu á EES-samningnum á þeim tæplega tuttugu árum sem hann hefur setið á þingi.
Verið að víkka út ytri rammann
„Breytingarnar eru tvíþættar, annars vegar er það það að fjöldi þeirra mála sem stafa frá evrópskri löggjöf er vaxandi. Það var auðvitað mikil holskefla sem gekk hér yfir á árunum eftir að við urðum aðilar 1994. Þá var margra ára lagasetningarvinna sem fólst í því að laga íslenzka löggjöf á mörgum sviðum að sameiginlegri löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins,“ sagði Birgir þannig í þættinum og bætti enn fremur við:
„Svo er það þannig að á vettvangi Evrópusambandsins þá hefur kannski tvennt gerst. Stundum hægfara þróun en það hefur verið þróun í þá átt að það er verið að teygja út gildissviðið. Það er að segja þau mál sem eru skilgreind sem málefni innri markaðarins, og þar af leiðandi mál sem eiga heima á EES-svæðinu öllu, þeim fjölgar. Það er verið að víkka út sem sagt þennan ytri ramma.“ Þá væri regluverkið orðið ósveigjanlegra.
Fleiri reglugerðir og færri tilskipanir
„Svo er hin breytingin sem felst í því að svigrúmið sem aðildarlöndin hafa til þess að útfæra reglurnar, eða meginsjónarmiðin, eftir eigin hentugleikum, það minnkar. Til að einfalda það má segja að við fáum meira af reglugerðum frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samstarfið sem hafa minni sveigjanleika heldur en tilskipanirnar sem voru að koma hér áður og fólu að jafnaði í sér meira svigrúm einstakra landa til að móta inntak reglnanna að eigin vilja.“ Þróunin hefði þannig farið versnandi í þessum efnum.
Mikilvægt væri einnig að skýrt væri betur í lagafrumvörpum hvaða reglur væru að koma frá Evrópusambandinu i gegnum EES-samninginn og hvað frá ráðuneytunum sjálfum. Þannig væri ekki verið að blanda saman innleiðingu á löggjöf frá sambandinu og öðrum breytingum. Áherzla hefði verið lögð á þetta af hálfu þingsins.
HJG
(Ljósmynd: Fánar aðildarrríkja EFTA sem aðild eiga að EES-samningnum ásamt fána Evrópusambandsins. Eigandi: EFTA)
Tengt efni:
Fullveldi og lýðræði haldast í hendur
Reglur ESB víki fyrir norskum lögum
Hugvekja Styrmis Gunnarssonar
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir
Svipað margir vilja í ESB án EES