Full ástæða er til þess að fagna því þegar vakin er athygli á umfangi stjórnsýslunnar hér á landi og hvatt til umbóta í þeim efnum líkt og Thomas Möller, varaþingmaður Viðreisnar, gerði í ræðu á Alþingi fyrir ekki alls löngu. Því miður kemur það þó óhjákvæmilega mjög niður á trúverðugleika slíkrar gagnrýni þegar talað er á sama tíma fyrir stefnumálum sem eru ávísun á stóraukið umfang stjórnsýslunnar. Þar á ég einkum við þá stefnu Viðreisnar að Ísland skuli ganga í Evrópusambandið en einnig stuðning flokksins, sem og fleiri stjórnmálaflokka og -manna, við áframhaldandi aðild landsins að EES-samningnum.
Telur íslenzku stjórnsýsluna allt of litla
Með inngöngu í Evrópusambandið þyrfti að fara í umfangsmikla stofnanauppbyggingu, eins og útþenzla hins opinbera kallast á stjórnsýslumáli, til þess að Ísland gæti staðið undir þeim viðamiklu skuldbindingum sem fylgja veru í sambandinu. Til að mynda er fjallað um þetta í skjali á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2011 í tengslum við umsókn þáverandi vinstristjórnar um inngöngu í sambandið sem nefnist „Commission decision of 08.04.2011 on a Multi-annual Indicative Planning Document (MIPD) 2011-2013 for Iceland“ og unnið var í kjölfar ítarlegrar úttektar á íslenzku stjórnsýslunni:
„Heilt á litið er [íslenzka] stjórnsýslan lítil og býr við takmarkaðar fjárveitingar. Verulegur niðurskurður á opinberum útgjöldum hefur enn fremur átt sér stað til þess að takast á við fjárhagserfiðleikana í kjölfar efnahagskrísunnar árið 2008. Niðurskurðurinn hefur dregið enn frekar úr getu stjórnsýslu Íslands til þess að sinna undirbúningi fyrir inngöngu í Evrópusambandið sem þó var takmörkuð að stærð fyrir. […] Ísland mun þurfa að byggja upp getu stjórnsýslunnar til þess að taka upp, þýða og innleiða löggjöf sambandsins og koma á laggirnar öllum þeim nauðsynlegu innviðum sem vera innan þess gerir kröfu um.“
Tekur mið af þörfum tugmilljónaþjóða
Thomas tók meðal annars sem dæmi um of mikla yfirbyggingu hins opinbera á Íslandi að 800 manns störfuðu fyrir stjórnarráðið. Komið er einmitt inn á það sama í áðurnefndu skjali Evrópusambandsins frá 2011 þar sem segir: „Stjórnsýsla Íslands er lítil. Hjá stjórnarráðinu starfa um 700 opinberir starfsmenn og það samanstendur af tíu ráðuneytum. Undir hvert þeirra heyrir nokkur fjöldi opinberra stofnana. Ráðuneytin eru lítil og hafa á bilinu 26 til 214 starfsmenn. Að meðaltali 58 starfsmenn. Stofnanirnar hafa á bilinu 2 til 4.000 starfsmenn. Um 12% íbúafjölda landsins starfa á vegum ríkisins.“
Víðar er fjallað í skjalinu um nauðsyn þess að stórauka umfang stjórnsýslunnar hér á landi að mati Evrópusambandsins og leynir sér ekki það sjónarmið að hún sé vegna smæðar engan veginn í stakk búin til þess að ráða við veru innan þess. Með öðrum orðum telur sambandið það allt of lítið sem Thomas telur réttilega allt of stórt. Þetta þarf þó ekki að koma á óvart enda taka kröfur Evrópusambandsins um stjórnsýslu eðli málsins samkvæmt mið af milljóna- og tugmilljónaþjóðum. Stjórnsýsla sambandsins bætist síðan allajafna við sem yfirbygging ofan á þá yfirbyggingu sem fyrir er í ríkjum þess.
Regluverkið flóknara en góðu hófi gegnir
Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af þessari þróun vegna aðildarinnar að EES-samningnum enda fylgir samningurinn samrunaþróuninni innan Evrópusambandsins á því sviði sem hann nær til, innri markaði þess, sem síðan er bæði sífellt að dýpka með auknum samruna og að þenjast út til fleiri málaflokka. Þannig kallar EES-samningurinn á vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum til stofnana Evrópusambandsins, bæði óbeint en í auknum mæli beint, í gegnum sífellt meira regluverk frá sambandinu og vaxandi fjölda stofnana sem setja þarf á laggirnar eða auka umsvifin hjá.
Fjallað hefur verið ítrekað um erfiðleika stjórnsýslunnar við það að ná utan um framkvæmd EES-samningsins í skýrslum á vegum stjórnvalda á liðnum árum. Regluverk um fjármálamarkaðinn er ágætlega lýsandi fyrir þá stöðu sem iðulega er fyrir að fara en fram kom í viðtali við Unni Gunnarsdóttur, forstjóra fjármálaeftirlits Seðlabankans, í Innherja um áramótin að regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn væri orðið flóknara en góðu hófi gegndi. Tilefnið var sú gagnrýni starfsbræðra hennar í Noregi og Danmörku í Financial Times að flækjustig þess gerði stofnunum þeirra erfitt fyrir að sinna hlutverki sínu.
Verði bæði utan við Evrópusambandið og EES
Halda mætti miklu lengur áfram á þessum nótum en hægt er í stuttri blaðagrein. Hvernig sem á málið er litið er einfaldlega ljóst að gagnrýni á umfang stjórnsýslunnar á Íslandi á engan veginn samleið með stuðningi við inngöngu landsins í Evrópusambandið. Það sama á við um áframhaldandi aðild að EES-samningnum. Sé raunverulegur vilji fyrir því að draga úr yfirbyggingunni hér á landi er ekki aðeins mikilvægt að standa áfram utan sambandsins heldur einnig að skipta EES-samningnum út fyrir nútímalegan víðtækan fríverzlunarsamning sem er sú leið sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara þegar samið er um milliríkjaviðskipti.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 10. marz 2022)
(Ljósmynd: Stjórnarráðshúsið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Dýr aðgöngumiði að EES-samningnum
Meira regluverk og minna svigrúm
Hagstæðara að sigla undir brezkum fána
Fjármálahverfi London heldur stöðu sinni
Frjáls viðskipti við allan heiminn