Mjög athyglisverð grein birtist í Morgunblaðinu síðasta sumar eftir dr. Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, en þar kom meðal annars fram að dómstóll Evrópusambandsins hefði nánast hætt réttarfarslegu samtali við EFTA-dómstólinn við framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Þetta áréttaði hann síðan í annarri grein sem birtist í blaðinu 15. marz síðastliðinn.
Vísaði Baudenbacher þar til svonefnds tveggja stoða kerfis EES-samningsins þar sem annars vegar er um að ræða ríki Evrópusambandsins sem og framkvæmdastjórn sambandsins og dómstól þess, sem hafa eftirlit með framkvæmd samningsins gagnvart þeim, og hins vegar EFTA-ríkin Ísland, Noreg og Liechtenstein sem og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstólinn sem sjá um eftirlitið þeim megin.
Baudenbacher hefur talað fyrir því sjónarmiði að dómstóll Evrópusambandsins og EFTA-dómstóllinn standi jafnfætis og séu sjálfstæðir gagnvart hvorum öðrum þrátt fyrir að EES-samningurinn og samningur um stofnun EFTA-dómstólsins og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) segi í raun annað. Hefur hann haldið því fram, meðal annars í grein á vef London School of Economics árið 2017, að ástæða þess væri áðurnefnt samtal.
Dómstólarnir standa ekki jafnfætis
Ég gerði málið að umtalsefni í skýrslu um EES-samninginn sem ég ritaði fyrir brezka hugveitu sama ár þar sem ég benti á það með hliðsjón af grein Baudenbachers að hvað sem liði samtali á milli EFTA-dómstólsins og dómstóls Evrópusambandsins væri ekki hægt að hafa að engu það sem beinlínis stæði í áðurnefndum samningum. Þannig fælist nákvæmlega engin trygging í slíku samtali þegar samningarnir segðu annað.
Ég benti enn fremur á þá staðreynd að samkvæmt samningnum um stofnun EFTA-dómstólsins og ESA bæri dómstólnum að taka mið af dómaframkvæmd dómstóls Evrópusambandsins á meðan þeim síðarnefnda væri það í sjálfsvald sett hvort hann tæki slíkt tillit til EFTA-dómstólsins. Þá væri heimilt að skjóta deilumálum til dómstóls sambandsins ef samstaða væri um það en hið sama ætti ekki við um EFTA-dómstólinn.
Aukinheldur vakti ég athygli á því að við úrlausn á ágreiningsmálum, þar með talið ef upp kæmi ósamræmi á milli dómaframkvæmdar dómstólanna tveggja, væri sameiginlegu EES-nefndinni óheimilt samkvæmt bókun 48 við EES-samninginn að taka ákvarðanir á grundvelli 105. og 111. greinar hans sem hefðu áhrif á dómsúrlausnir dómstóls Evrópusambandsins en ekki er skírskotað með sama hætti til EFTA-dómstólsins.
Dómstóll ESB myndi verða ofan á
Ég vakti einnig máls á því í skýrslunni minni frá 2017 að það stæðist enga skoðun að bókun 48 ætti einnig við um EFTA-dómstólinn líkt og Baudenbacher heldur fram í grein sinni á vefsíðu London School of Economics. Vandséð væri hvernig hægt væri að taka tillit til úrlausnar beggja dómstóla ef þeir kæmust að ólíkri niðurstöðu enda væri ljóst að ef fara ætti milliveg í þeim efnum væri verið að hafa báðar niðurstöðurnar að engu.
Við þetta má bæta, eins og rætt er um í skýrslunni, að forseti dómstóls Evrópusambandsins, Koen Lenaerts, áréttaði í samtali við flæmska ríkisútvarpið VRT í ágúst 2017 að EFTA-dómstóllinn gæti ekki dæmt í ósamræmi við niðurstöðu dómstóls Evrópusambandsins. Sagði Lenaerts að í orði kveðnu væri um að ræða tvo sjálfstæða dómstóla en í raun og veru hefði vægi dómstóls sambandsins meiri áhrif í þeim efnum.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðiþjónustu ráðherraráðs Evrópusambandsins, Jean-Claude Piris, lýsti sömu afstöðu í grein í viðskiptablaðinu Financial Times í nóvember 2017 þar sem hann sagði að ef EFTA-dómstóllinn kæmist að annarri niðurstöðu en dómstóll sambandsins myndi sá síðarnefndi hafa betur. Ljóst er að þetta er í fullu samræmi við það sem beinlínis kemur fram í umræddum samningum.
Verri staða innan Evrópusambandsins
Vert er að hafa í huga að með inngöngu í Evrópusambandið myndi staðan versna til muna í þessum efnum enda yrði Ísland þá alfarið bundið af ákvörðunum dómstóls sambandsins sem er þekktur fyrir að dæma samruna þess í hag. Í dag hefur EFTA-dómstóllinn þó ákveðið svigrúm til þess að komast að sjálfstæðri niðurstöðu þegar ekki er fyrir að fara fordæmum frá dómstól Evrópusambandsins. Líkt og í Icesave-málinu.
Miðað við viðbrögð fulltrúa Evrópusambandsins í kjölfar úrskurðar EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu Íslandi í vil, og þá staðreynd að sambandið beitti sér formlega gegn landinu fyrir dómstólnum, eru taldar allar líkur á því að íslenzka ríkið hefði beðið ósigur hefði málið farið fyrir dómstól þess. Eins ef fordæmi hefði legið fyrir frá dómstóli Evrópusambandsins sem EFTA-dómstólinn hefði þá ekki getað hunzað.
Með inngöngu í Evrópusambandið yrði þannig farið úr öskunni í eldinn í þessum efnum líkt og á fleiri sviðum. Hins vegar liggur að sama skapi fyrir að EES-aðildin mun áfram fela í sér sífellt meira framsal valds þó enn vanti verulega upp á að það sé á pari við inngöngu í sambandið. Lausnin er víðtækur fríverzlunarsamningur sem er sú leið sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara þegar samið er um milliríkjaviðskipti.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 26. apríl 2022)
(Ljósmynd: Fánar aðildarrríkja EFTA ásamt fána Evrópusambandsins. Eigandi: EFTA)
Tengt efni:
Dýr aðgöngumiði að EES-samningnum
Meira regluverk og minna svigrúm
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir
Þegar Costco rakst á EES-samninginn
Sviss hafnar samningi í anda EES