Fróðleg skýrsla var gefin út af bandarísku hugveitunni Center for Strategic and International Studies (CSIS) sumarið 2016 þar sem fjallað er um umferð rússneskra kafbáta um Norður-Atlantshafið. Er í skýrslunni lagt mat á áform stjórnvalda í Rússlandi í þeim efnum, getu rússneska sjóhersins sem og möguleika og getu Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins (NATO) í heild til þess að bregðast við.
Lagðar eru fram tillögur í skýrslunni að því með hvaða hætti NATO og bandamenn þess geti brugðist við þessari áskorun og var ein tillagan á þá leið að rétt væri að opna aftur varnarstöðina á Íslandi, sem lokað var einhliða af bandarískum stjórnvöldum árið 2006, til þess að hægt væri að hafa betra eftirlit með umferð rússneskra kafbáta í kringum landið. Hentugast væri að sinna slíku eftirliti frá Íslandi.
„NATO getur bætt aðstöðu sína í kafbátavörnum með því að tryggja að réttur viðbúnaður sé á réttum stöðum á réttum tíma með því að opna á nýjan leik varnarstöðina í Keflavík á Íslandi og hvetja norsk stjórnvöld til þess að endurheimta og opna á ný kafbátaþjónustustöðina í Olavsbern í Noregi,“ segir þannig í tillögum CSIS um það hvernig rétt væri að bregðast við aukinni umferð rússneskra kafbáta.
Verkefnastjóri skýrslunnar og einn höfunda efnis hennar var dr. Kathleen H. Hicks sem starfaði þá sem framkvæmdastjóri alþjóðaöryggismála hjá CSIS en gegnir í dag embætti aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Josephs R. Biden Bandaríkjaforseta. Hicks hafði áður gegnt ýmsum háttsettum stöðum í varnarmálaráðuneytinu í forsetatíð Baracks Obama.
HJG
(Ljósmynd: Kathleen H: Hicks, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Eigandi: Zachary Wheeler/Defense Business Board)
Tengt efni:
Vaxandi samvinna í varnarmálum
Fær ESB sæti Frakka í öryggisráðinu?
Vilja að ESB fái eigin hersveitir
Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki
Sama gamla stefnan í grunninn