Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Hernaður Pútíns fjármagnaður af ESB

Posted on 22/03/202222/10/2022 by Fullveldi

Helztu útflutningstekjur Rússlands koma til vegna sölu á olíu og gasi. Einkum til ríkja Evrópusambandsins. Ljóst má vera að ekki sízt vegna þessarra tekna hafi rússnesk stjórnvöld getað fjármagnað hernaðaruppbyggingu sína á liðnum árum, innlimun Krímskagans árið 2014 og loks innrás sína í Úkraínu í lok febrúar með öllum þeim miklu hörmungum sem hún hefur haft í för með sér fyrir íbúa landsins.

Ráðamenn Evrópusambandsins ákváðu að halda þessum viðskiptum við Rússland áfram eins og ekkert hefði í skorizt eftir innlimun Krímskagans og voru þau fyrir vikið ekki hluti af viðskiptaþvingunum sambandsins gagnvart landinu. Í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu hefur Evrópusambandið að sama skapi ekki viljað skrúfa fyrir kaup á olíu og gasi frá Rússlandi og ekki viljað að þvinganir næðu til þeirra.

Þegar til stóð að útiloka rússneska banka frá alþjóðlega millifærslukerfinu SWIFT mætti það verulegri andstöðu frá Evrópusambandinu. Skýringin er sú að kerfið er notað í olíu- og gasviðskiptum sambandsins við Rússland. Loks lét Evrópusambandið undan þrýstingi og lokaði á sjö rússneska banka en undanskildi hins vegar stærsta banka landsins, Sberbank, sem og fleiri banka sem koma að þessum viðskiptum.

Varnaðarorð hunzuð og gefið í

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lokað fyrir innflutning á rússneskri olíu og gasi og Bretar stefna að því að verða algerlega óháðir Rússlandi í þeim efnum síðar á þessu ári. Evrópusambandið kynnti upphaflega áform um að verða ekki lengur háð rússneskri olíu og gasi fyrir árið 2030. Vegna harðrar gagnrýni á þau áform tilkynnti sambandið að stefnt væri að því að draga úr notkun að miklu leyti fyrir næstu áramót.

Hvort þessi áform Evrópusambandsins eiga eftir að ganga eftir kemur í ljós en sambandið hefur ekki beinlínis verið þekkt fyrir það til þessa að setja sér raunhæfar tímaáætlanir. Ekki sízt í efnahagsmálum. Hins vegar er furðulegt að ekki hafi verið hlustað á ítrekuð varnaðarorð og fyrir löngu gripið til aðgerða til þess að gera ríki Evrópusambandsins minna háð rússneskri olíu og gasi. Áður en barnið datt í brunninn.

Hluti af ástæðunni fyrir því hversu háð ófá ríki Evrópusambandsins eru olíu og gasi frá Rússlandi er arfur frá árum kalda stríðsins þegar austurevrópsk ríki, sem nú eru í sambandinu, voru flest undir járnhæl Sovétríkjanna. Hins vegar hefur á liðnum árum, í stað þess að draga úr í þessum efnum, þvert á móti verið bætt verulega í og þannig meðal annars verið lagðar nýjar gasleiðslur frá Rússlandi til Þýzkalands.

Féllu kylliflatir í gildru Pútíns

Fjallað hefur verið um það í fjölmiðlum að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hafi markvisst unnið að því að gera Evrópusambandið meira háð rússneskri olíu og gasi til þess að verjast mögulegum viðskiptaþvingunum gegn helztu útflutningsgreinum landsins og um leið fjármagna hernaðaruppbyggingu hans og fyrirhuguð hernaðaráform. Forystumenn sambandsins hafi fallið kylliflatir í þá gildru hans.

Við þetta bætist síðan að ítök kínverskra stjórnvalda í efnahagsmálum Evrópusambandsins hafa aukizt verulega á liðnum árum og beinlínis fyrir hvatningu forystumanna sambandsins í kjölfar alþjóðlegu efnahagskrísunnar á sínum tíma. Er nú svo komið að ráðamönnum í Brussel er hætt að lítast á blikuna í þeim efnum. Þá hafa ríki Evrópusambandsins sem kunnugt er vanrækt alvarlega varnir sínar árum saman.

Fyrir vikið er ótrúlegt að hlýða á yfirlýsingar harðra stuðningsmanna inngöngu Íslands í Evrópusambandið þess efnis að innganga í sambandið sé til þess fallin að tryggja öryggi okkar gagnvart stjórnvöldum í Kína og Rússlandi. Gefur framganga forystumanna þess virkilega tilefni til þess að ætla að þeim sé treystandi fyrir öryggi okkar þegar þeir hafa svo berlega ekki kunnað sínum eigin fótum forráð í þeim efnum?

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 22. marz 2022)

(Ljósmynd: Vladimír Pútín, forseti Rússlands. Eigandi: Sergey Klimkin)


Tengt efni:
Meiri áherzla á Evrópusambandsher
Fær ESB sæti Frakka í öryggisráðinu?
Vilja að ESB fái eigin hersveitir
Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki
Sama gamla stefnan í grunninn

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb