Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Hefur augljósa yfirburðastöðu

Posted on 16/05/202222/10/2022 by Fullveldi

Fyrirkomulag dómstólamála við framvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) var viðfangsefni greinar eftir mig sem birtist í Morgunblaðinu 26. apríl síðastliðinn. Tilefni hennar var athyglisverð grein sem birzt hafði í blaðinu í júlí á síðasta ári eftir Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, þar sem hann vakti meðal annars athygli á því að dómstóll Evrópusambandsins væri nánast hættur að eiga í réttarfarslegu samtali við EFTA-dómstólinn í tengslum við framkvæmd samningsins.

Ég benti á það í greininni að dómstólarnir tveir gætu ljóslega engan veginn talizt sitja við sama borð þegar kæmi að framkvæmd EES-samningsins. Þannig bæri EFTA-dómstólnum til að mynda að taka mið af dómaframkvæmd dómstóls Evrópusambandsins en ekki á hinn veginn. Úrlausnir ágreiningsmála, þar á meðal vegna mögulegs ósamræmis á milli dómstólanna, mættu enn fremur ekki hafa áhrif á dómsúrlausnir dómstóls sambandsins. Þá væri heimilt að fela honum hlutverk gerðardóms en ekki EFTA-dómstólnum.

Komið hefur fram í fyrri skrifum Baudenbachers að umrætt réttarfarslegt samtal hafi að stóru leyti komið í stað þessa fyrirkomulags sem bundið er í EES-samninginn og samning um stofnun EFTA-dómstólsins og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Ég benti hins vegar á það í greininni, sem og í skýrslu sem ég ritaði 2017, að engin trygging fælist í slíku samtali þegar samningarnir segðu allt annað enda hefði það nú raungerzt með ákvörðun dómstóls Evrópusambandsins sem Baudenbacher hefði sjálfur vakið athygli á.

Tilfallandi verklag á engan hátt bindandi

Mér barst svargrein frá Baudenbacher í Morgunblaðinu 30. apríl þar sem fram kom að þó EFTA-dómstólnum bæri skylda til þess að fylgja dómaframkvæmd dómstóls Evrópusambandsins hefði hann ekki alltaf gert það. Þá hefði dómstóll sambandsins fylgt dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins í fjölmörgum málum í gegnum tíðina. Vegna ákvörðunar dómstóls Evrópusambandsins, um að svo gott sem hætta réttarfarslegu samtali sínu við EFTA-dómstólinn, stæðu dómstólarnir hins vegar ekki lengur jöfnum fótum.

Fyrir það fyrsta er vert að hafa það í huga að réttarfarslegt samtal getur eðli málsins samkvæmt aldrei fellt úr gildi það sem beinlínis er kveðið á um í umræddum samningum. Hvað sem líður tilfallandi verklagi á milli dómstólanna, sem notabene er á engan hátt bindandi fyrir þá og hvað þá þannig að það ógildi á einhvern hátt það sem fram kemur í samningunum, breytir það vitanlega engu um þá staðreynd að dómstóll Evrópusambandsins hefur augljósa yfirburðastöðu gagnvart EFTA-dómstólnum samkvæmt þeim.

Hvað dómaframkvæmd varðar hefur ávallt verið lögð áherzla á það af EFTA-dómstólnum að uppfylla skilyrðið um að fylgja fordæmum frá dómstól Evrópusambandsins. Hins vegar hefur í sumum tilfellum þurft að fara aðrar leiðir svo tryggja mætti að niðurstöður dómstólanna hefðu sömu áhrif í samræmi við kröfuna um einsleitni. Líkt og þegar dómstóll sambandsins hefur að hluta til byggt á regluverki sem ekki hefur heyrt undir EES-samninginn. Eins og í öðru breyta mögulegar undantekningar þó engu um meginregluna.

Dómstóll Evrópusambandsins hefur vissulega einnig fylgt dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins í ýmsum tilvikum. Það er hins vegar algerlega valkvætt í hans tilfelli ólíkt EFTA-dómstólnum. Dómstóll sambandsins getur þannig hvenær sem er tekið ákvörðun um að taka ekki slíkt tillit til EFTA-dómstólsins rétt eins og að hætta einhliða réttarfarslegu samtali við hann. Kæmi til ágreinings á milli dómstólanna er enn fremur ljóst að dómstóll Evrópusambandsins yrði ofan á í samræmi við bókun 48 við EES-samninginn.

Möguleg áhrif undir dómstól ESB komin

Við lok greinar Baudenbachers segir að ákvörðun dómstóls Evrópusambandsins, um að láta af réttarfarslega samtalinu, þýði að EFTA-dómstóllinn hafi misst þau áhrif sem hann hefði áður haft á hann. Með því undirstrikar Baudenbacher eðli málsins samkvæmt þá staðreynd að möguleikar EFTA-dómstólsins á því að hafa áhrif á dómstól Evrópusambandsins eru í reynd undir þeim síðarnefnda komnir. Það er hvort umrætt samtal eigi sér stað ofan á það að hvaða marki hann kýs að taka tillit til dóma EFTA-dómstólsins.

Við Baudenbacher erum þó sammála um mikilvægi þess að EFTA/EES-ríkin hafi sérstakan dómstól. Það er að segja í þeim tilfellum þar sem fordæmum frá dómstól Evrópusambandsins er ekki fyrir að fara líkt og raunin var í Icesave-málinu. Baudenbacher segir Icesave-málið réttilega til marks um þetta mikilvægi. Með þeim orðum sínum er hann hins vegar að taka undir það að dómstóll sambandsins hefði að öllum líkindum dæmt Íslandi í óhag. Annars væri jú engin þörf á að árétta mikilvægi EFTA-dómstólsins í þeim efnum.

Vert er að ítreka að lokum að leiðin út úr þessari stöðu er víðtækur fríverzlunarsamningur sem er sú leið sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara þegar samið er um milliríkjaviðskipti. Leið sem felur ekki í sér vaxandi framsal valds líkt og EES-samningurinn, er ekki ávísun á vaxandi viðskiptahindranir gagnvart öðrum heimshlutum í gegnum regluverk og sem felur ekki í sér hlutverk fyrir dómstól Evrópusambandsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 16. maí 2022 )

(Ljósmynd: Höfuðstöðvar dómstóls Evrópusambandsins í Lúxemborg. Eigandi: Laurent Verdier)


Tengt efni:
Tveir ójafnir dómstólar
Stjórnsýslan ekki nógu stór
Dýr aðgöngumiði að EES-samningnum
Meira regluverk og minna svigrúm
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb