Kæmi til þess að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) heyrði sögunni til myndi þriðjungur Íslendinga vilja að Ísland gengi í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Þetta er svipað hlutfall og raunin er í dag en það sjónarmið hefur stundum heyrzt í gegnum tíðina að án samningsins myndi stuðningur við inngöngu í sambandið stóraukast.
Skoðanakönnunin var framkvæmd í tengslum við rannsókn Silju Báru Ómarsdóttur, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á afstöðu Íslendinga til alþjóðasamvinnu. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar myndu 33,4% vilja að Ísland gengi í Evrópusambandið kæmi til þess að EES-samningnum yrði ekki lengur fyrir að fara, 29,9% myndu vilja öðruvísi samning við sambandið og 10% engan. Þá tók rúmur fjórðungur ekki afstöðu.
Stuðningur við inngöngu Íslands í Evrópusambandið mælist til samanburðar 30,5% samkvæmt niðurstöðum nýjustu skoðanakönnunar MMR eða einungis 2,9 prósentustigum minni en hlutfall þeirra sem myndu vilja inngöngu ef EES-samningurinn heyrði sögunni til. Hlutfall þeirra sem taka ekki afstöðu er einnig hliðstætt eða 26,7% samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar og 22,1% samkvæmt könnun MMR.
Fríverzlunarsamningurinn frá 1972 í fullu gildi
Með öðrum orðum eru þeir, sem annað hvort vilja öðruvísi samning (þá væntanlega fríverzlunarsamning) við Evrópusambandið eða engan, fleiri en þeir sem vilja inngöngu í sambandið yrði EES-samningnum ekki lengur fyrir að fara eða 39,9%. Gera má fastlega ráð fyrir að þeir sem vilja engan samning myndu frekar vilja öðruvísi samning við Evrópusambandið en inngöngu í það stæðu þeir frammi fyrir þessum tveimur valkostum.
Vert er að hafa í huga í þessu sambandi að heyrði EES-samningurinn sögunni til yrði Ísland ekki án samninga við Evrópusambandið jafnvel þó ekki tækist að semja um nýjan samning við sambandið í hans stað. Þannig yrði fríverzlunarsamningur við Evrópusambandið frá 1972 áfram í fullu gildi (hliðstæður samningur er grundvöllur viðskipta Sviss við sambandið) og einnig samningur frá 2007 um viðskipti með landbúnaðarafurðir.
Það er ekki að ástæðulausu að ófáir Evrópusambandssinnar hafa brugðist harðlega við þegar EES-samningurinn hefur verið gagnrýndur á þeim forsendum að rétt sé að standa bæði fyrir utan sambandið og samninginn og semja þess í stað við það um fríverzlun en gagnrýnt hann þess utan á eigin forsendum. Þeim er væntanlega vel ljóst að ef EES-samningurinn heyrði sögunni til yrði það málstað þeirra sízt til framdráttar.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Fánar aðildarrríkja EFTA ásamt fána Evrópusambandsins. Eigandi: EFTA)
Tengt efni:
Spurningin sem enginn spurði
Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki
Fleiri andvígir inngöngu í ESB í tólf ár
„Vitanlega er ESB ekki lokaður pakki“