Til stóð upphaflega af hálfu bandarísku verzlunarkeðjunnar Costco að opna verzlun hér á landi út frá starfsemi fyrirtækisins í Norður-Ameríku og að uppistaðan í vöruúrvalinu yrðu amerískar vörur, þá bæði frá Kanada en ekki sízt Bandaríkjunum. Þau áform urðu hins vegar að engu eftir að stjórnendur Costco áttuðu sig á því hvaða áhrif aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefði í þeim efnum.
Haft var eftir Guðmundi Ingva Sigurðssyni, lögmanni Costco á Íslandi, í frétt mbl.is í lok janúar 2015, þegar unnið var að undirbúningi fyrir opnun verzlunarinnar hér á landi, að þegar stjórnendum fyrirtækisins hefði orðið ljóst að erfitt yrði að flytja inn matvæli frá Bandaríkjunum hefði sú ákvörðun verið tekin að flytja verkefnið til Bretlands. Fyrir vikið yrðu brezkar vörur frekar seldar í verzluninni á Íslandi en bandarískar.
Matvælamerkingar samkvæmt regluverki frá Evrópusambandinu, sem gilda hér á landi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum, voru einkum til þess fallnar að gera áform Costco um opnun verzlunar hér á landi flóknari en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að sögn Guðmundar. Stjórnendur útibús fyrirtækisins í Bretlandi þekktu hins vegar regluverk sambandsins. Eitthvað yrði þó flutt inn af amerískum vörum til Íslands.
Hefði verið meira úrval af amerískum vörum
Meðal helztu ástæðna þess að ákveðið var að opna verzlun hér á landi út frá starfsemi Costco í Bretlandi frekar en Kanada voru færri hömlur á innflutningi á vörum til Íslands frá Evrópuríkjum en Bandaríkjunum og Kanada að sögn Steve Pappas, framkvæmdastjóra Costco í Bretlandi, í samtali við mbl.is í lok júní 2017. Vísaði hann þar ljóslega einkum til regluverks Evrópusambandsins í gegnum aðildina að EES-samningnum.
„Hugmyndin að opnun Costco á Íslandi var fyrst sett fram af kanadísku deildinni okkar. Forsvarsmenn okkar í Kanada höfðu tekið eftir því að töluvert var pantað af vörum frá þeim til Íslands og sáu tækifæri í því að setja upp hliðstæða starfsemi þar og þeir höfðu þróað á Nýfundnalandi. Ef við hefðum haldið okkur við þessi áform hefðum við líklega opnað á Íslandi með meira úrval af kanadískum matvörum í hillunum okkar.“
Þannig má ljóst vera að vöruúrval í verzlun Costco væri að öllum líkindum mun fjölbreyttara en raunin er í dag ef ekki væri fyrir EES-samninginn og þá mögulega á hagstæðara verði en hliðstæðar vörur sem eru á boðstólum í dag. Þess má geta að fleiri fyrirtæki sem flutt hafa inn vörur frá Ameríku hafa dregið verulega úr þeim innflutningi á liðnum árum vegna mikils kostnaðar út af regluverki í boði EES-samningsins.
HJG
(Ljósmynd: Vöruhús Costco. Eigandi: Raysonho – Wikimedia Commons)
Tengt efni:
Svipað margir vilja í ESB án EES
Hægt að draga verulega úr regluverki
Hraðbátarnir og olíuskipið
Sviss hafnar samningi í anda EES