Meirihluti norskra kjósenda myndi greiða atkvæði með áframhaldandi aðild Noregs að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í þjóðaratkvæðagreiðslu færi slík kosning fram samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið Sentio vann fyrir stofnunina Norsk Utenrikspolitisk Institutt (NUPI). Hins vegar hefur stuðningur við aðildina dregizt verulega saman frá því fyrir tveimur árum.
Þannig eru 44% hlynnt áframhaldandi aðild Noregs að EES-samningnum samkvæmt skoðanakönnuninni fyrir NUPI en 32% henni andvíg. Í hliðstæðri könnun sem Sentio gerði árið 2019 fyrir norsku dagblöðin Nationen og Klassekampen sagðist 61% hlynnt áframhaldandi aðild að samningnum en 20% andvíg. Skoðanakönnunin nú sýnir svipaðar niðurstöður og sambærileg könnun á síðasta ári og þykir því staðfesta hana.
Meiri efasemdir um EES en áður var talið?
Haft er eftir Øyvind Svendsen, sérfræðingi hjá NUPI sem er rannsóknastofnun um utanríkismál á vegum norskra stjórnvalda, í frétt Nationen að skoðanakönnunin nú bendi til þess að meiri efasemdir séu um EES-samninginn á meðal Norðmanna en áður hafi verið gert ráð fyrir. Stjórnmálaflokkar hlynntir samningnum hafi til þessa iðulega hafnað umræðu um málið á þeim forsendum að yfir 60% stuðningur væri við aðildina að honum.
Svendsen telur að einstök mál tengd EES-samningnum, eins og til að mynda orkupakkar Evrópusambandsins, hafi meðal annars stuðlað að auknum efasemdum um samninginn á meðal norsks almennings. Þá hafi útganga Bretlands úr sambandinu einnig haft áhrif. „Bretland kom betur út úr því en margir gerðu ráð fyrir og það kann að leiða til þess að fólk telji að það væri ekki svo hættulegt að segja líka upp EES-samningnum.“
Norðmenn gætu yfirgefið EES-samninginn
Með útgöngunni úr Evrópusambandinu sagði Bretland einnig skilið við EES-samninginn. Þess í stað kusu brezk stjórnvöld að semja við sambandið um víðtækan fríverzlunarsamning eftir að hafa ítrekað hafnað því að Bretar yrðu áfram aðilar að EES-samningnum utan þess. Vaxandi umræða hefur átt sér stað í Noregi um að rétt sé að skoða þann möguleika að skipta samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning.
Haft er enn fremur eftir Svendsen í frétt Nationen að hann telji að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu og fríverzlunarsamningur brezkra stjórnvalda við sambandið kunni að leiða til enn frekari umræðu í Noregi um EES-samninginn sem aftur gæti orðið til þess að Norðmenn fylgi í fótspor Breta og segi einnig skilið við samninginn. „Það er ekki ólíklegt að slík umræða í Noregi muni leiða til þess að við yfirgefum EES.“
(Uppfært: Höfundur rakst á aðra skoðanakönnun eftir að þessi umfjöllun var rituð frá því fyrr á þessu ári sem sýndi 65,9% stuðning við EES-samninginn og 22,2% á móti honum. Könnunin var einnig gerð af Sentio en er ekki getið í frétt Nationen sem umfjöllunin hér að ofan er byggð á. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu í þessum efnum en ljóst er að mikil gerjun er í umræðum um samninginn í Noregi.)
HJG
(Ljósmynd: Norskir fánar fyrir utan konungshöllina í Ósló, höfuðborg Noregs. Eigandi: Maxxii – Wikimedia Commons)
Tengt efni:
Svipað margir vilja í ESB án EES
Vilja ekki ganga aftur í ESB
Sviss hafnar samningi í anda EES