Flest þykir benda til þess að næsta ríkisstjórn Noregs verði miðju-vinstristjórn undir forystu norska Verkamannaflokksins en Norðmenn kjósa sér nýtt þing 13. september. Þeir stjórnmálaflokkar sem flokkurinn mun þurfa að reiða sig á til þess að tryggja nýrri ríkisstjórn þingmeirihluta, innan eða utan stjórnar, eru Miðflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og annað hvort Rautt eða Umhverfisflokkurinn.
Þrír þessara flokka, Miðflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn, Rautt, eru hlynntir því að segja aðild Noregs að EES-samningnum upp. Þá vill Framfaraflokkurinn, sem telst til norskra hægriflokka, endurskoða samninginn. Flokkarnir þrír vilja enn fremur að norsk lög gangi framar reglum frá Evrópusambandinu sem teknar eru upp í Noregi í gegnum EES-samninginn. Vísa þeir þar til fordæmis Íslands.
Fjallað er um málið í frétt norska dagblaðsins Aftenposten í dag. Vísað er til áralangrar deilu íslenzkra stjórnvalda við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um það hvort regluverk sem tekið er upp í gegnum EES-samninginn hér á landi eigi að ganga framar þeim lögum sem sett eru af Alþingi og eiga ekki uppruna sinn hjá Evrópusambandinu. Telur ESA að íslenzk lagasetning eigi að víkja fyrir reglum sambandsins.
Hefur veitt íslenzkum stjórnvöldum lokaviðvörun
Málið snýst um bókun 35 við EES-samninginn en þar segir meðal annars: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“ ESA og Evrópusambandið líta svo á að í samræmi við bókunina gangi reglur sambandsins framar íslenzkum lögum.
Hins vegar segir eftirfarandi í 3. grein laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993: „Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.“ Með lögunum var aðild Íslands að samningnum lögfest. Þetta er orðalagið sem norsku stjórnmálaflokkarnir þrír byggja fyrrnefnda stefnu sína á og vilja að norsk stjórnvöld taki sér til fyrirmyndar.
ESA veitti Íslandi lokaviðvörun vegna málsins í október í fyrra. Næsta skref er að höfða samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum en ekki hefur verið tekin ákvörðun um það enn. Íslenzk stjórnvöld hafa í orði kveðnu í gegnum tíðina iðulega lagt áherzlu á það sjónarmið að íslenzk lagasetning gangi framar regluverki frá Evrópusambandinu en í framkvæmd hefur því í raun verið öfugt farið.
HJG
(Ljósmynd: Norska Stórþingið. Eigandi: Magnus Fröderberg/norden.org)
Tengt efni:
Hugvekja Styrmis Gunnarssonar
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir
Stuðningur við EES dregst saman í Noregi
Þegar Costco rakst á EES-samninginn
Svipað margir vilja í ESB án EES