Vaxandi áhugi hefur verið á því hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum á undanförnum árum að styrkja tengslin við Ísland á sviði varnarmála. Ljóst er að þessi áhugi er þverpólitískur enda hefur honum verið fyrir að fara óháð því hvort repúblikanar eða demókratar hafa farið með völdin í landinu. Í samræmi við það hefur á undanförnum árum verið lögð áherzla á endurbætur á aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli og aukna nýtingu hennar. Þá hefur Ísland í vaxandi mæli verið vettvangur varnaræfinga á vegum NATO og bandamanna þess.
Fundur Antonys J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra símleiðis fyrr á þessu ári og fréttatilkynning bandaríska utanríkisráðuneytisins í kjölfarið, var til að mynda mjög í anda þessa aukna áhuga bandarískra stjórnvalda á því að styrkja tengslin við Ísland þegar kemur að varnarmálum en í tilkynningunni sagði að ráðherrarnir hefðu meðal annars rætt um vaxandi samvinnu í varnarmálum eða eins og það var orðað í henni: „deepening defense cooperation.“
Háttsettir bandarískir ráðamenn hafa í samræmi við þetta heimsótt Ísland í vaxandi mæli síðustu ár og þá iðulega kynnt sér aðstæður á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Fyrir utan Blinken, sem heimsótti landið fyrir tæpu ári í tengslum við fund Norðurskautsráðsins og fundaði við það tækifæri með íslenzkum ráðamönnum, má nefna forvera hans í embætti Mike Pompeo, varaforsetann fyrrverandi Mike Pence og Robert S. Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta.
Mikilvæg landfræðileg staðsetning líkt og áður
Meginástæðan fyrir auknum áhuga bandarískra stjórnvalda er líkt og á árum bæði síðari heimsstyrjaldarinnar og kalda stríðsins landfræðileg staðsetning Íslands með tilliti til varnarmála en fyrir liggur að mikilvægi hennar hefur farið vaxandi á undanförnum árum á nýjan leik. Þá er ljóst að þeirri skoðun hefur jafnt og þétt vaxið ásmegin á meðal bandarískra stjórnmálamanna, embættismanna og sérfræðinga á sviði varnarmála að mistök hafi verið gerð þegar bandarísk stjórnvöld ákváðu árið 2006 að loka varnarstöðinni í Keflavík.
Til að mynda mátti þannig ljóslega greina umrætt sjónarmið í skýrslu á vegum bandarísku hugveitunnar Center for Strategic and International Studies (CSIS) sem kom út árið 2016 þar sem hvatt var til þess að varnarstöðin á Íslandi yrði tekin í notkun á nýjan leik. Þá einkum í þeim tilgangi að auðvelda eftirlit með rússneskum kafbátum. Verkefnastjóri skýrslunnar og einn höfunda efnis hennar var dr. Kathleen H. Hicks, þáverandi framkvæmdastjóri alþjóðaöryggismála hjá CSIS og núverandi aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Hliðstæð sjónarmið hafa enn fremur komið fram á vegum bandarísku hugveitunnar Center for a New American Security (CNAS) en dr. Jerry Hendrix, fyrrverandi skipherra í bandaríska sjóhernum og sérfræðingur á vegum hennar, hefur til að mynda látið þau orð falla að Bandaríkin hefðu aldrei átt að draga úr viðveru sinni hér á landi. Þá hefur vaxandi áherzla verið lögð á mikilvægi þess að auka eftirlit með ferðum rússneskra kafbáta um Norður-Atlantshaf í skýrslum á vegum brezka varnarmálaráðuneytisins. Nú síðast í marzmánuði.
Bandaríkin hyggjarstykkið í vestrænum vörnum
Fullyrðingar sem heyrzt hafa í umræðum um varnarmál hér á landi þess efnis að Ísland skipti litlu og jafnvel engu máli lengur í þeim efnum standast þannig einfaldlega ekki skoðun. Kalda stríðið getur ekki talizt mjög gagnlegur mælikvarði í því sambandi. Rússland þarf ekki að hafa sömu hernaðargetu og Sovétríkin sálugu til þess að geta skapað raunverulega hættu sem full ástæða sé til þess að taka alvarlega og bregðast við með viðeigandi hætti. Þróun mála undanfarnar vikur hefur rækilega áréttað þá staðreynd sem þó þurfti ekki til.
Hugmyndir um að Íslendingar ættu að horfa annað en til Bandaríkjanna með varnir landsins standast að sama skapi illa skoðun. Hvort sem horft er til hinna Norðurlandanna, Evrópusambandsins eða Bretlands liggur fyrir að umrædd ríki reiða sig sjálf að miklu leyti á Bandaríkjamenn þegar kemur að varnarmálum. Flest eða öll ríkin hafa á liðnum árum vanrækt eigin varnir og treyst þess í stað á það að Bandaríkin kæmu þeim til aðstoðar ef á þau yrði ráðist. Fyrir vikið eru flest þeirra vart fær um að sinna eigin vörnum og hvað þá annarra.
Fyrir liggur að Bandaríkin hafa verið, eru og verða áfram um ókomin ár hryggjarstykkið í vestrænum vörnum. Jákvætt er að Evrópuríki hafi loksins tekið við sér og hafi í hyggju að efla eigin varnargetu. Ljóst er hins vegar að taka mun mörg ár að bæta upp vanræksluna til þessa og jafnvel þó það takist muni samanlögð varnargeta þeirra eftir sem áður verða miklu minni en Bandaríkjanna einna. Ljóst má því vera að varnarhagsmunir Íslands séu sem fyrr bezt tryggðir með áframhaldandi aðild að NATO og varnarsamstarfinu við Bandaríkin.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 19. apríl 2022)
(Ljósmynd: Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðast við í maí 2021. Eigandi: Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna)
Tengt efni:
Sjálfskaparvíti og dómgreindarleysi
Hernaður Pútíns fjármagnaður af ESB
Varnarstöðin yrði opnuð á nýjan leik
Meiri áherzla á Evrópusambandsher
Vaxandi samvinna í varnarmálum