Miklar líkur eru á því að raforkuverð í Noregi haldist áfram hátt út þetta ár samkvæmt spá NVE, norsku vatns- og orkustofnunarinnar, og að vetrarverð gildi yfir sumartímann. Verð á raforku í landinu hefur náð sögulegum hæðum í vetur einkum vegna mikilla verðhækkana á orkumarkaði Evrópusambandsins.
Tengslin á milli Noregs og Evrópusambandsins í þessum efnum byggjast annars vegar á aðild landsins að EES-samningnum og hins vegar sæstrengjum fyrir rafmagn sem liggja á milli þess og sambandsins. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins verður sama verðlagning fyrir vikið að gilda í Noregi og innan sambandsins.
Skynsamlegt að búast við hærra orkuverði
Haft er eftir Ingu Nordberg, deildarstjóra hjá NVE, á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK að Norðmenn verði að búa sig undir miklu hærra raforkuverð en þeir hafi vanizt hingað til. Venjulega lækki verð þegar vori og sú verði væntanlega að einhverju marki einnig raunin í ár en verðlag verði þó líklega áfram hátt.
Spurð hvort búast megi þar með við vetrarverðum í sumar segir Nordberg: „Já, ég held að það sé skynsamlegt að búa sig undir það. Að það verði nánast vetrarverð einnig í sumar.“ Spá stofnunarinnar sé þó háð talsverðri óvissu. Einkum varðandi þróun orkuverðs innan Evrópusambandsins og stöðu í miðlunarlónum.
ESB getur ekki tryggt orkuöryggi eigin ríkja
Deildarstjórinn segir jákvætt að tengjast orkumarkaði Evrópusambandsins þar sem það auki orkuöryggi Noregs. Vísar Nordberg til þess að bæði sé hægt að flytja raforku til ríkja þess sem og frá þeim til Noregs. Hins vegar séu Norðmenn fyrir vikið bundnir af því verðlagi sem gildi innan sambandsins hverju sinni.
Hækkandi verðlag á orku innan Evrópusambandsins hefur einkum stafað af tilfinnanlegum orkuskorti innan þess. Framboð hefur fyrir vikið ekki getað annað eftirspurn. Með öðrum orðum hefur sambandið ekki verið í aðstöðu til þess að tryggja orkuöryggi eigin ríkja og hvað þá orkuöryggi Norðmanna.
HJG
(Ljósmynd: Åndalsnes í Noregi. Eigandi: Eirik Hoem)(Ljósmynd: Frá Noregi. Eigandi: Yiannis Theologos Michellis)
Tengt efni:
Telja norræna vinnumarkaðsmódelinu ógnað
Reglur ESB víki fyrir norskum lögum
Stuðningur við EES dregst saman í Noregi
Svipað margir vilja í ESB án EES
Sviss hafnar samningi í anda EES