Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?

Posted on 16/11/202216/11/2022 by Fullveldi

Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd á Íslandi vegna aðildar landsins að EES-samningnum mun það að öllum líkindum þýða að ríkisábyrgð verði sett á bankainnistæður upp á um eitt þúsund milljarða króna. Málið snýst í raun um kjarna Icesave-málsins enda ljóst að hefði umrædd löggjöf verið í gildi hér á landi þegar málið kom upp á sínum tíma hefði það tapast.

Deilan um Icesave snerist sem kunnugt er um það hvort íslenzk ríkisábyrgð væri á bankainnistæðum í útibúum viðskiptabankanna þriggja, sem féllu haustið 2008, í Bretlandi og Hollandi á grundvelli eldri tilskipunar Evrópusambandsins um innistæðutryggingar. Fór svo að lokum að EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í byrjun árs 2013 að slík ábyrgð væri ekki fyrir hendi og sýknaði íslenzka ríkið.

Viðbrögð Evrópusambandsins við alþjóðlegu fjármálakrísunni fyrir rúmum áratug, og um leið Icesave-málinu, voru meðal annars þau að endurskoða löggjöf þess um innistæðutryggingar. Trygging vegna innistæðna var færð úr 20.000 evrum upp í 100.000 evrur (um 15 milljónir króna) á hvern einstakling í hverri fjármálastofnun og stjórnvöldum gert að tryggja að tryggingasjóðir stæðu við skuldbindingar sínar.

Telja ólíklegt að undanþága verði veitt

Hérlend stjórnvöld hafa hafnað ríkisábyrgð á innistæðum og upphaflega var einnig lagzt gegn því að tryggingin væri færð upp í 100.000 evrur. Árið 2020 var sú fjárhæð hins vegar innleidd í íslenzk lög. Greint var frá því í frétt Innherja í janúar á þessu ári að tryggðar innistæður hér á landi væru um eitt þúsund milljarðar króna, miðað við 100.000 evra trygginguna, sem samsvaraði um þriðjungi af landsframleiðslu.

Fram kom í ræðu sem Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi utanríkisráðherra, flutti á Alþingi í október 2019 að Íslendingar ættu eftir að tapa Icesave-málum framtíðarinnar yrði tilskipunin innleidd hér á landi. Greindi hann þinginu frá því að sérfræðingar Evrópusambandsins hefðu staðfest í svari við fyrirspurn íslenzkra stjórnvalda að þar á bæ væri litið svo á að tilskipunin fæli í sér ríkisábyrgð á innistæðum.

Fyrir vikið sagði Guðlaugur Þór að brýnt væri að Ísland fengi undanþágu frá tilskipuninni þar sem kerfislæg áhætta væri meiri hér á landi en í fjölmennari ríkjum. Sagðist hann hafa ítrekað lagt áherzlu á það á vettvangi EES-samstarfsins. Hins vegar kom fram í frétt mbl.is í janúar 2020 að samkvæmt sameiginlegu svari utanríkis- og fjármálaráðuneytisins væri ólíklegt að undanþága fengist vegna eðlis málsins.

Tekur ekki mið af íslenzkum hagsmunum

Tilskipunin hefur ekki enn verið tekin fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni þar sem löggjöf frá Evrópusambandinu er formlega tekin upp í EES-samninginn. Takmarkaðar upplýsingar hafa fengizt frá stjórnvöldum um nánari stöðu málsins og þar með talið hvort engu að síður verði látið reyna á undanþágu frá tilskipuninni eða hvort til greina komi að beita svonefndu neitunarvaldi í samningnum í ljósi alvarleika málsins.

Málið er annars ágætlega lýsandi fyrir þann veruleika að Evrópusambandið er í raun alls staðar við stjórnvölinn þegar EES-samningurinn er annars vegar. Þannig er til að mynda undir sambandinu komið hvaða löggjöf þess fellur undir hann og enn fremur hvort veittar verði einhverjar undanþágur í þeim efnum. Þá getur einungis Evrópusambandið breytt þeirri löggjöf sem tekin hefur verið upp í samninginn.

Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara í dag þegar þau semja um milliríkjaviðskipti. Víðtækur fríverzlunarsamningur. Leið sem, ólíkt EES-samningnum og í enn ríkari mæli inngöngu í Evrópusambandið, felur ekki í sér vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum regluverk sem er ekki okkar, tekur ekki mið af okkar hagsmunum og við getum ekki breytt.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 16. nóvember 2022)

(Ljósmynd: Vefsíða Icesave-netbankans. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)


Tengt efni:
Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
Stjórnsýslan kvartar undan flóknu regluverki
Vilja frekar fríverzlunarsamning en EES
Tveir ójafnir dómstólar
Hagsmunir Íslands miklu betur tryggðir

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb