Hvort hefur stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið farið dvínandi að undanförnu eða vaxandi? Á dögunum birtist grein eftir mig á Vísir.is þar sem ég dró þá ályktun af niðurstöðum skoðanakannana sem þá höfðu verið birtar að stuðningur við inngöngu í sambandið hefði dvínað eftir að hafa áður aukist í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu fyrir rúmu ári síðan. Fjölmiðlar eins og til að mynda Ríkisútvarpið og Heimildin drógu þessa sömu ályktun enda var ekki annað að sjá en að niðurstöður umræddra kannana, sem gerðar voru af þremur mismunandi fyrirtækjum, bentu til sömu þróunar. Það er að segja dvínandi stuðnings.
Formaður Evrópuhreyfingarinnar og fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, Jón Steindór Valdimarsson, ritaði í kjölfar þessara greinarskrifa minna grein á Vísir.is þar sem hann sagði ekki hægt að bera saman skoðanakannanir mismunandi fyrirtækja enda styddust þau ekki við sömu aðferðafræði og niðurstöður þeirra fyrir vikið ólíkar. Með því væri verið að bera saman epli og appelsínur. Hafnaði hann þeirri ályktun minni að stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið hefði farið dvínandi og hélt því þvert á móti fram að hann færi vaxandi. Vísaði hann þar til kannana fyrirtækisins Maskínu sem að hluta til höfðu ekki verið birtar áður.
Vitanlega er ekki alltaf hægt að bera saman niðurstöður skoðanakannana mismunandi fyrirtækja. Hins vegar er það velþekkt þegar talið er tilefni til þess. Til að mynda þegar þær virðast benda til sömu þróunar sem fyrr segir. Það hafa ekki einungis fjölmiðlar gert í gegnum tíðina heldur einnig ýmsir samherjar Jóns Steindórs. Til dæmis í byrjun marz á síðasta ári þegar niðurstöður könnunar á vegum Gallups sýndu fleiri hlynnta inngöngu í Evrópusambandið í fyrsta sinn í 13 ár. Var könnunin ítrekað borin saman við könnun sem MMR (nú Maskína) hafði gert í desember árið á undan. Engar athugasemdir bárust frá Jóni Steindóri við það.
Hins vegar fylgdu grein Jóns Steindórs meðal annars áður óbirtar niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu frá því í júní sem sýna, ólíkt því sem áður mátti ætla, að ekki er samhljómur á milli kannana í þessum efnum. Á meðan kannanir Maskínu benda til þess að stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið hafi aukizt benda kannanir Prósents til þess að hann hafi dvínað. Samkvæmt Maskínu var fyrst meirihluti fyrir inngöngu í sambandið nú í febrúar en samkvæmt Gallup fyrir ári og þá mun meiri. Andvígir inngöngu voru enn eilítið fleiri en hlynntir í júní samkvæmt Maskínu en samkvæmt Prósenti voru þá 14 prósentustigum fleiri hlynntir en andvígir.
Með öðrum orðum er ljóst í kjölfar greinar Jóns Steindórs að hvorki er hægt að gefa sér það að stuðningur við inngöngu í Evrópusambandið hafi farið vaxandi að undanförnu, líkt og hann hefur gert og þá einungis kosið að horfa til kannana Maskínu, eða dvínandi eftir að hafa fyrst í stað aukizt í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Niðurstöðum skoðanakannana ber einfaldlega ekki saman um það ólíkt því sem ætla mátti áður en Jón Steindór vakti athygli á umræddum áður óbirtum upplýsingum. Hvert framhaldið hins vegar verður á eftir að koma í ljós og verður fróðlegt að sjá hver þróun mála á eftir að verða í þeim efnum á næstu mánuðum.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Ljósmynd: Þinghús þings Evrópusambandsins í Strabourg. Eigandi Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
Með hálfan þingmann á Alþingi
Frelsið til þess að ráða eigin málum
Pólitíski ómöguleikinn