Fjórum dögum eftir þingkosningarnar 2017 sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, að flokkur hans myndi ekki setja það sem skilyrði í stjórnarmyndunarviðræðum að tekin yrðu skref í áttina að inngöngu í Evrópusambandið þrátt fyrir að hafa lagt áherzlu á það í aðdraganda kosninganna. Fjórum dögum síðar lýsti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, því sama yfir.
Formlegar viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar voru þá enn ekki hafnar og einungis þreifingar í gangi. Formenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar hafa hins vegar ljóslega strax gert sér grein fyrir því að um pólitískan ómöguleika væri að ræða. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Vinstrihreyfingin – grænt framboð væru þannig líkleg til þess að taka skref í áttina að Evrópusambandinu þvert á eigin stefnu.
Hvað VG varðar hefur flokkurinn þegar brennt sig illa á því að samþykkja að tekin yrðu skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið og afar ólíklegt að hann sé til í það að taka slíkan snúning aftur. Reynt var á sínum tíma að gera Framsóknarflokkinn að flokki hlynntum inngöngu í sambandið sem kostaði hann mikið af landsbyggðarfylgi hans. Yrði opnað á slíkt aftur yrði það að öllum líkindum vatn á myllu Miðflokksins.
Kvartað yfir klofinni ríkisstjórn
Með öðrum orðum er pólitíska ómöguleikann víða að finna. Sjálft hefur Evrópusambandið áréttað mikilvægi þess að ríkistjórn, sem stendur að umsókn um inngöngu í sambandið, sé samstíga um það að halda í þá vegferð en ekki klofin gagnvart málinu. Líkt og til dæmis kom ítrekað fram í gögnum á vegum utanríkismálanefndar þings Evrópusambandsins um umsókn Samfylkingarinnar og VG á sínum tíma.
Til að mynda segir þannig í þingsályktunartillögu dagsettri 13. nóvember 2012 sem þingmaðurinn Cristian Dan Preda ritaði sem fulltrúi utanríkismálanefndarinnar um framvindu umsóknarinnar og samþykkt var með 56 atkvæðum gegn einungis tveimur: „Þing Evrópusambandsins ítrekar áhyggjur sínar af pólitískum ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar og stjórnmálaflokkanna varðandi inngönguna í það“.
Vísað er í þingsályktunartillögunni einkum til þeirrar staðreyndar að á meðan Samfylkingin var hlynnt inngöngu í Evrópusambandið var VG það ekki. Fyrir vikið var engin samstaða um það á meðal ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar til dæmis þurfti að samþykkja lokun einstakra kafla umsóknarferlisins að sambandinu. Voru til að mynda ítrekað gerðir ýmsir fyrirvarar í þeim efnum af hálfu einstakra ráðherra.
Hafa ekki umboð frá kjósendum
Viðreisn og Samfylkingin fengu samanlagt minna fylgi í þingkosningunum síðasta haust en Sjálfstæðisflokkurinn einn. Sú staða hefur ekki breytzt mikið miðað við niðurstöður skoðanakannana þó að vart þurfi að taka það fram að kannanir eru ekki það sama og kosningar. Þó Pírötum sé bætt við, hvort sem miðað er við kosningarnar eða kannanir, vantar mikið upp á það að flokkarnir njóti meirihlutafylgis.
Flokkarnir þrír vilja nú að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi að engu það sem þeir sögðu við kjósendur í aðdraganda þingkosninganna og setji inngöngu í Evrópusambandið á dagskrá með þjóðaratkvæðagreiðslu. Markmið Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata er ljóslega að reyna að komast þannig í kringum þá staðreynd að þá sjálfa skortir umboð frá kjósendum til þess að setja málið á dagskrá.
Hins vegar hafa stjórnarflokkarnir skýrt umboð frá kjósendum sínum til þess að framfylgja þeirri stefnu sinni að Ísland standi áfram utan Evrópusambandsins. Hvort sem Viðreisn, Samfylkingunni og Pírötum líkar betur eða verr er ríkisstjórn samstíga um að ganga þar inn, með þingmeirihluta að baki sér kjörinn af íslenzkum kjósendum, grundvallarforsenda í þeim efnum og það að mati sambandsins sjálfs.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 27. september 2022)
(Ljósmynd: Alþingishúsið. Eigandi: Ypsilon from Finland)
Tengt efni:
Kvartað yfir klofinni ríkisstjórn
Stefnt að einu ríki frá upphafi
Vægi ríkja ESB fer eftir íbúafjölda
Stjórnsýslan ekki nógu stór
Ríkisstjórn Þýzkalands vill evrópskt sambandsríki