Vaxandi umræða um það hvort rétt sé fyrir okkur Íslendinga að vera áfram aðilar að EES-samningnum er afar skiljanleg þó Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, telji hana óskiljanlega samanber pistill hennar í Morgunblaðinu á dögunum þar sem hún hélt því enn fremur meðal annars fram að án samningsins færum við aftur í torfkofana. Eða eins og hún kaus að orða það: „Eins og það sé einhver glóra í því fyrir þjóð sem á allt sitt undir viðskiptum við önnur lönd að forða sér aftur inn í torfkofana.“
Væri aðild að EES-samningnum forsenda þess að ríki væru ekki í torfkofunum, eins og Hanna Katrín orðaði það, ætti það væntanlega við um mikinn meirihluta ríkja heimsins. Heimurinn telur þannig tæplega tvö hundruð ríki og þar af eiga um 160 ekki aðild að samningnum. Þess í stað kjósa þessi ríki víðtæka fríverzlunarsamninga þegar þau semja um milliríkjaviðskipti. Þar á meðal og ekki sízt stærstu efnahagsveldin með sína miklu viðskiptahagsmuni. Væntanlega vegna einhvers konar sjálfseyðingarhvatar.
Veruleikinn er sá að við erum miklu fremur á leiðinni í torfkofana vegna aðildar Íslands að EES-samningnum eins og lesa má til dæmis um í skýrslum sem birtar hafa verið á árinu og unnar fyrir Evrópusambandið, annars vegar af Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra þess, og hins vegar Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, þar sem dregin er upp virkilega dökk mynd af stöðu sambandsins og innri markaðar þess og hvernig það hafi dregizt aftur úr öðrum mörkuðum. Ekki sízt vegna íþyngjandi regluverks.
Hnignun ESB aðeins haldið áfram
Fyrr í mánuðinum mættu þau Hanna Katrín og Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Bítið á Bylgjunni og ræddu þar meðal annars um EES-samninginn. Sagði Jón sjálfsagt að skoða það hvort tryggja mætti hagsmuni Íslands betur með víðtækum fríverzlunarsamningi en EES-samningnum og tíundaði ýmis rök fyrir því. Vísaði hann meðal annars í skýrslu Draghis. Svar Hönnu Katrínar var aðeins á þá leið að alltaf væri verið að gera einhverjar skýrslur og nú myndi Evrópusambandið taka sig á í þessum efnum.
Fjöldi tilrauna hefur hins vegar verið gerður á liðnum árum og áratugum til þess að bæta samkeppnisstöðu Evrópusambandsins en eftir sem áður hefur hnignun þess sem markaðssvæðis einungis haldið áfram. Mjög litlar líkur geta talizt á því að eitthvað breytist með skýrslum Draghis og Lettas. Lausn sambandsins hefur til þessa verið meiri samruni, meiri miðstýring, meira íþyngjandi regluverk og meira framsal valds af hálfu ríkja þess. Tillögur þeirra félaga ganga út á það sama. Til að mynda segir í skýrslu Letta:
„Hlutdeild Evrópusambandsins í heimsbúskapnum hefur dregizt saman undanfarna þrjá áratugi þar sem staða þess á meðal stærstu hagkerfa heimsins hefur versnað hratt samhliða uppgangi asískra hagkerfa. […] Jafnvel þó asísk hagkerfi séu ekki tekin inn í myndina hefur innri markaður Evrópusambandsins einnig dregizt aftur úr Bandaríkjunum. Hagkerfin tvö voru svipuð að stærð árið 1993. Hins vegar jókst landsframleiðsla á mann um 60% í Bandaríkjunum á milli 1993-2022 en innan við 30% innan sambandsins.“
Hefur skapað viðskiptahindranir
Með aðildinni að EES-samningnum höfum við Íslendingar einfaldlega bundið okkur á klafa hnignandi markaðar miðað við önnur markaðssvæði. Evrópusambandið mun áfram skipta máli sem markaður en í sífellt minna mæli. Framtíðarmarkaðirnir verða og eru þegar annars staðar. Þá skapar samningurinn hindranir í viðskiptum við slík markaðssvæði. Þannig bendir til að mynda flest til þess að við munum ekki geta gert fríverzlunarsamning við Bandaríkin á meðan við erum aðilar að honum vegna regluverks sambandsins.
Fram kemur til að mynda í greinargerð matvælaráðuneytisins með drögum að reglugerð, sem breyta átti reglum um matvælamerkingar í frjálsræðisátt en náðu ekki fram að ganga vegna EES-samningsins, að regluverk frá Evrópusambandinu sem tekið hafi verið upp í gegnum samninginn hafi „skapað viðskiptahindrun við nánustu viðskiptalönd Íslands utan EES og minnkað svigrúm EFTA-EES ríkjanna til að gera viðskiptasamninga við ríki utan EES.“ Regluverkið myndar þannig rammann sem hægt er að semja innan.
Fullyrðing Hönnu Katrínar um að EES-samningurinn tryggi okkur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins stenzt annars ekki skoðun. Öll ríki heimsins hafa vitanlega aðgang að honum nema þau sem sæta einhvers konar viðskiptaþvingunum. Hins vegar er aðgangurinn misgreiður en færa má gild rök fyrir því byggt á gögnum frá utanríkisráðuneytinu að fríverzlunarsamningur myndi tryggja hagstæðara aðgengi í þeim efnum. Ekki sízt þegar kemur að útfluttum sjávarafurðum. Okkar mikilvægustu útflutningsvörum.
Vilja ekki þurfa að verja EES
Hvað annars varðar til að mynda frjálst flæði fólks og greiðari aðgang að háskólum má semja um slíkt og fleira til í víðtækum fríverzlunarsamningum eins og dæmin sýna. Varðandi nýsköpun sem Hanna Katrín nefndi einnig EES-samningnum til bóta er fjallað um það í skýrslu Draghis að Evrópusambandið hafi einkum dregizt mjög aftur úr í þeim efnum á liðnum árum. Hvað síðan varðar neytendavernd er þar oft um að ræða regluverk sem sett er til þess að vernda framleiðslu innan sambandsins undir yfirskini slíkrar verndar.
Forystumenn Viðreisnar snúast annars iðulega til varnar ef EES-samningurinn er gagnrýndur út frá sjónarhóli fullveldisins. Skiljanlegt er að stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandið vilji ógjarnan vera settir í þá stöðu að þurfa að eyða tíma sínum og orku í það að verja samninginn í stað þess að geta einbeitt sér alfarið að því að vinna að því markmiði sínu að Íslendingar gangi í sambandið. Eðlilega vilja þeir geta treyst því að Ísland muni aldrei verða minna undir vald Evrópusambandsins sett en sem nemur samningnum.
Markmiðið er ljóslega um leið að fá andstæðinga inngöngu Íslands í Evrópusambandið til þess að sjá um það að verja aðildina að EES-samningnum svo stuðningsmenn þess að gengið verði í sambandið geti einbeitt sér að því að gagnrýna hann á sínum forsendum. Það er að segja að ekki sé gengið nógu langt undir vald stofnana þess með samningnum og fyrir vikið þurfi að fara alla leið í þeim efnum. Það er því skiljanlegt að þeir bregðist ókvæða við þegar þeir sjá fram á það að þurfa sjálfir að sjá um það að reyna að verja hann.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 22. október 2024)
(Ljósmynd: Fánar aðildarrríkja EFTA ásamt fána Evrópusambandsins. Eigandi: EFTA)
Tengt efni:
Hvar er torfkofinn?
Varði ekki viðsnúninginn
Fullkomlega óskiljanlegt
Stenzt ekki stjórnarskrána
Stærra mál en Icesave og þriðji orkupakkinn