Fyrr á þessu ári lýsti Hans Leijtens, yfirmaður Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, því yfir að ómögulegt væri að koma í veg fyrir það að fólk kæmist með ólögmætum hætti inn á Schengen-svæðið. Þetta er í fyrsta sinn sem gengizt hefur verið við þessu opinberlega. Hafa ófá ríki innan svæðisins brugðist við þessum veruleika á liðnum árum með því að grípa til tímabundins hefðbundins landamæraeftirlits gagnvart öðrum aðildarríkjum þess sem þó dugir skammt enda úrræðið sem fyrr segir aðeins tímabundið.
Category: Schengen
Hvar liggja landamæri Íslands?
„Við verðum að taka stjórn á landamærum Íslands, það er númer eitt,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi sjálfstæðismanna á Nordica Hilton 9. apríl síðastliðinn. Ummælin voru ekki látin falla að tilefnislausu enda ljóst að landamæramálin hafa verið í miklum ólestri. Hins vegar er forsenda þess að hægt sé að ná stjórn á landamærunum að við höfum valdið til þess. Það vald hefur að stóru leyti verið framselt úr landi. Bæði í gegnum EES-samninginn en þó einkum aðildina að Schengen-svæðinu.
Hægt að nota hvaða nafn sem er
Vegna aðildar Íslands að Schengen-svæðinu er í raun hægt að koma hingað til lands undir hvaða nafni sem er þegar ferðast er til landsins frá öðrum aðildarríkjum svæðisins enda þarf í þeim tilfellum allajafna ekki að framvísa vegabréfum. Flestir koma til Íslands á heiðarlegum forsendum en vitanlega langt því frá allir. Þeir einstaklingar sem komizt hafa í kast við lögin og/eða hafa í hyggju að fremja lögbrot eru eðli málsins samkvæmt mun líklegri en aðrir til þess að gefa upp rangar upplýsingar þegar fjárfest er í flugmiðum.
Farþegalistarnir duga skammt
Kallað hefur verið eftir því að öll flugfélög sem fljúgi til Íslands afhendi hérlendum yfirvöldum farþegalista í þágu bættrar löggæzlu á Keflavíkurflugvelli en nokkuð hefur vantað upp á afhendingu þeirra. Hins vegar má ljóst vera að takmarkað gagn sé í reynd að slíkum farþegalistum þegar flogið er til landsins frá öðrum aðildarríkjum Schengen-svæðisins. Farþegalistar innihalda upplýsingar úr bókunarkerfum flugfélaga sem farþegar hafa látið þeim í té en innan svæðisins er ekki um að ræða upplýsingar staðfestar með vegabréfum.