Málið sem kennt er við bókun 35 við EES-samninginn er miklu stærra en bæði Icesave-málið og þriðji orkupakki Evrópusambandsins. Miklir fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi í Icesave-málinu sem snerist þó einungis um eina tiltekna lagagerð sambandsins. Tilskipun þess um innistæðutryggingar. Þriðji orkupakkinn varðar að sama skapi mikla hagsmuni í orkumálum en snýst þó að sama skapi um afmarkað regluverk.
Frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um bókun 35 varðar hins vegar allt regluverk frá Evrópusambandinu sem hefur verið og mun verða tekið upp hér á landi í gegnum EES-samninginn og gerir hana í reynd æðri innlendri lagasetningu. Þar á meðal allt regluverk sem hefur verið og verður tekið upp varðandi innistæðutryggingar og orkumál.
Verði frumvarp Þórdísar að lögum verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem þegar eru fyrir hendi hér á landi þegar almenn lagasetning er annars vegar, þar sem yngri lög ganga fyrir þeim sem eldri eru og sértækari lög fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt og aðeins eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn.
Hvers vegna alger viðsnúningur?
Málið kom upp árið 2012 þegar Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fór fram á það að íslenzk stjórnvöld útskýrðu hvernig bókun 35 hefði verið innleidd á Íslandi. Fimm árum síðar lýsti stofnunin yfir þeirri afstöðu sinni að ekki hefði verið staðið rétt að þeim málum við lögtekningu EES-samningsins 1993 þrátt fyrir að hafa ekki gert athugasemd við það í tæpa tvo áratugi en hún á að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins.
Mikil samskipti áttu sér stað við ESA á þeim rúma áratug sem liðinn er síðan málið kom upp þar sem stjórnvöld vörðu þá leið sem farin var í upphafi vegna bókunar 35 og höfnuðu alfarið og ítrekað kröfu ESA þegar hún kom fram. Meðal annars með þeim rökum að stofnunin hefði ekki gert nokkra athugasemd vegna málsins í tæplega tvo áratugi og að óásættanlegt hefði verið að standa að því með öðrum hætti.
Frumvarp Þórdísar var síðan lagt fram í marz 2023 þvert á fyrri málflutning stjórnvalda. Enn hefur engin skýring verið veitt á þeim viðsnúningi þrátt fyrir að ítrekað hafi verið kallað eftir henni. Ekki sízt af fjölmiðlum. Skilaboðin hafa einungis verið þau að um formsatriði væri að ræða og jafnvel sigur. Hvers vegna haldið var þá uppi vörnum í málinu árum saman í stað þess að fallast strax á kröfu ESA er með öllu óútskýrt.
Málið fari fyrir EFTA-dómstólinn
Versta mögulega staðan sem gæti komið upp, næði frumvarp Þórdísar ekki fram að ganga og málið færi í kjölfarið mögulega fyrir EFTA-dómstólinn, væri sú að komizt yrði að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum bæri samkvæmt EES-samningnum að verða við kröfu ESA. Með öðrum orðum það sem frumvarpið felur í sér! Um fyrirfram uppgjöf er að ræða án þess að látið sé í það minnsta reyna á málið fyrst fyrir dómi.
Málið minnir fyrir vikið að ýmsu leyti óþægilega á Icesave-málið. Þannig hafði ESA til að mynda í því máli líkt og nú ekki gert nokkra athugasemd við innleiðingu á viðkomandi regluverki Evrópusambandsins hér á landi um langt árabil þegar stofnunin ákvað að gera mál út af því. Þá átti líkt og nú að gefast upp fyrirfram í stað þess að láta fyrst reyna á málið fyrir EFTA-dómstólnum þar sem Ísland hafði að lokum sigur.
Dómstólaleiðin þýddi að möguleiki væri á því að dæmt yrði okkur í vil. Hins vegar er sá möguleiki að engu gerður ef gefast á upp fyrir fram. Staðan verður ekki verri en sem nemur frumvarpinu. Væri svo ekki kallaði það eðli málsins samkvæmt á frekari aðgerðir af hálfu ESA þar til krafa stofnunarinnar yrði uppfyllt. Hvers vegna fórna á Sjálfstæðisflokknum og hinum stjórnarflokkunum á altari þessa máls er óskiljanlegt.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 1. október 2024)
(Ljósmynd: Utanríkisráðuneytið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)
Tengt efni:
Hljómar kunnuglega ekki satt?
Hvað segir það um málstaðinn?
Fást engin svör
Tvöfalt fleiri andvígir en hlynntir
Milljarðatugir Jóns Baldvins