Tæplega tvöfalt fleiri eru andvígir því að Noregur gangi í Evrópusambandið en hlynntir samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar fyrirtækisins Opinion fyrir vefsetrið Altinget sem birtar voru um miðjan ágúst eða 56% á móti 30%. Dregið hefur úr stuðningi við inngöngu samkvæmt könnuninni en afgerandi meirihluti hefur verið andvígur henni í öllum könnunum sem birtar hafa verið frá árinu 2005 eða samfellt í yfir 19 ár.
Mjög ólíklegt er að Noregur sæki um inngöngu í Evrópusambandið í kjölfar þingkosninganna á næsta ári. Hægriflokkurinn er hlynntur því líkt og undanfarna áratugi en Erna Solberg, formaður flokksins, segir forsendu þess vera að meirihluti sé fyrir því á meðal almennings. Til að mynda ríkisstjórn með þingmeirihluta að baki sér þarf flokkurinn ennfremur að vinna með flokkum andvígum inngöngu í sambandið.
Hægriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, tveir stærstu flokkar Noregs, hafa aldrei getað myndað ríkisstjórn vegna málefnaágreinings þrátt fyrir að hafa báðir stutt inngöngu í Evrópusambandið sögulega séð og hafa fyrir vikið þurft að starfa með flokkum í ríkisstjórn andvígum henni. Hins vegar felur stefnuskrá Verkamannaflokksins ekki lengur í sér afdráttarlausan stuðning við það að gengið verði í sambandið.
Vilja frekar fríverzlunarsamning
Meiri líkur verða að teljast á því að Noregur segi skilið við EES-samninginn en gangi í Evrópusambandið. Í það minnsta sé horft til niðurstaðna skoðanakannana þar í landi. Til dæmis voru þannig fleiri hlynntir því að skipta samningnum út fyrir víðtækan fríverzlunarsamning í könnun fyrirtækisins Sentio fyrr á þessu ári eða 35% á móti 23%. Aðrir voru óvissir. Fleiri kannanir hafa skilað sömu niðurstöðu undanfarin ár.
Meirihluti Norðmanna taldi enn fremur til að mynda að Evrópusambandið hefði of mikil völd yfir norskum málum í gegnum aðild Noregs að EES-samningnum samkvæmt niðurstöðum annarrar könnunar sem Sentio gerði fyrr á árinu eða 57% á móti 27%. Þar af meirihluti stuðningsmanna nær allra flokka. Þá hafa kannanir í Noregi einnig sýnt mun fleiri hlynnta þjóðaratkvæði um aðildina að samningnum en andvíga.
Fátt ef eitthvað bendir þannig til þess að Norðmenn séu á leiðinni í Evrópusambandið á komandi árum hvað sem annars líður mögulegri óskhyggju einhverra Evrópusambandssinna hér á landi um annað. Raunar má færa rök fyrir því að sjaldan ef nokkurn tímann hafi verið minni líkur á því að til inngöngu Noregs í sambandið komi Þá bæði með tilliti til afstöðu landsmanna til málsins sem og stjórnmálalandslagsins.
Telja ESB skárri kost en Rússland
Hliðstæða sögu er að segja af öðrum ríkjum í vesturhluta Evrópu sem standa líkt og Ísland og Noregur utan Evrópusambandsins. Bretland sagði formlega skilið við sambandið árið 2020 og eru ljóslega ekki á leiðinni þangað inn aftur. Raunar höfnuðu þeir einnig áframhaldandi aðild að EES-samningnum eftir að út væri komið. Sviss er eins ekki á leið þar inn og hefur einnig ítrekað afþakkað EES-samninginn.
Með öðrum orðum er ekkert ríki í vestanverðri Evrópu sem stendur utan Evrópusambandsins með áform um að ganga þar inn. Þau ríki sem sækjast eftir inngöngu eru öll staðsett í Austur-Evrópu. Einkum vegna þess að þau eru landfræðilega í þerri stöðu að telja sig annað hvort þurfa að halla sér að Rússlandi eða sambandinu. Mjög skiljanlegt er að þau telji það mun skárri kost að halla sér að Brussel en Moskvu.
Mjög langur vegur er þannig frá því að Ísland hafi einhverja sérstöðu þegar kemur að því að ganga ekki í Evrópusambandið. Hérlendir Evrópusambandssinnar hafa að undanförnu vísað til Færeyinga sem fyrirmyndar meðal annars þegar kemur að efnahagsmálum sem er óneitanlega áhugavert í ljósi þess að þeir hafa ekki aðeins kosið að standa utan sambandsins heldur einnig Evrópska efnahagssvæðisins.
Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 16. september 2024)
(Ljósmynd: Norskir fánar fyrir utan konungshöllina í Ósló, höfuðborg Noregs. Eigandi: Maxxii – Wikimedia Commons)
Tengt efni:
Milljarðatugir Jóns Baldvins
Hengd á klafa hnignandi markaðar
Málið sem þolir ekki ljósið
Hverfist allt um lokamarkmiðið
Telja Brussel vera langt í burtu