Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Greinar
    • Evrópumál
    • EES
    • Varnarmál
    • Fríverzlun
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Með hálfan þingmann á Alþingi

Posted on 07/12/202210/12/2022 by Fullveldi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.

Ég vakti athygli á þessum staðreyndum í grein sem birtist á Vísir.is á fullveldisdaginn 1. desember sem varð til þess að Ole Anton Bieltvedt ritaði grein í Fréttablaðið þar sem hann kallaði mig „ESB-óhróðursmeistara“ og sakaði mig um rangfærslur í þessum efnum. Þá ýjaði hann að því að ég væri leigupenni þeirra sem standa að Morgunblaðinu – með greinaskrifum mínum á vef helzta samkeppnisaðila þeirra!

Byggt á gögnum frá Evrópusambandinu

Hinar meintu rangfærslur mínar eru hins vegar byggðar á gögnum frá Evrópusambandinu sjálfu sem auðvelt er að kynna sér ef einhver áhugi er fyrir því að setja sig inn í málin. Til dæmis á vefsíðu ráðherraráðs sambandsins, helztu valdastofnunar þess. Þar kemur fram að langflestar ákvarðanir ráðsins séu háðar þeirri reglu að 55% ríkja Evrópusambandsins að lágmarki með 65% íbúafjölda þess standi að þeim.

Ráðherrar ríkja Evrópusambandsins hafa þannig í langflestum tilfellum ekki sama vægi þegar greidd eru atkvæði í ráðherraráðinu, ólíkt því sem Ole Anton hélt fram, heldur ræðst það einkum af íbúafjölda ríkjanna. Þá eiga ríkin ekki fulltrúa í framkvæmdastjórn sambandsins, líkt og hann vildi meina, enda er þeim sem þar sitja óheimilt að draga taum heimalanda sinna samkvæmt Lissabon-sáttmála sambandsins.

Sjávarútvegs- og orkumál ekki mikilvæg?

Ég benti einnig á það að einróma samþykki einstakra ríkja Evrópusambandsins heyrði nær sögunni til innan ráðherraráðsins enda má telja þá málaflokka sem það á við um í dag nánast á fingrum annarrar handar. Einróma samþykki var áður reglan en hefur hins vegar jafnt og þétt verið á útleið og var þannig til dæmis afnumið í um 40 málaflokkum á einu bretti með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009.

Hvað varðar þá fullyrðingu Oles Antons að Ísland fengi neitunarvald varðandi „alla veigamikla stefnumótun og allar stærri ákvarðanir“ Evrópusambandsins nægir að benda á þá einföldu staðreynd að einróma samþykki í ráðherraráðinu nær hvorki til sjávarútvegs- né orkumála sem varða einhverja mikilvægustu hagsmuni landsins. Mögulega er Ole Anton ósammála því. Þar gildir fyrst og fremst íbúafjöldinn.

Tal um gífurleg áhrif stenzt enga skoðun

Hvað þing Evrópusambandsins varðar er það rétt hjá Ole Antoni að Ísland fengi líklega sex fulltrúa á þinginu en af um 700 sem hann nefndi ekki. Til þess að setja það í samhengi væri það á við það að hafa hálfan þingmann á Alþingi. Á þingi sambandsins er ekkert einróma samþykki heldur gildir einfaldur meirihluti atkvæða. Þá myndu fulltrúarnir dreifast á hérlenda stjórnmálaflokka og því ólíklega starfa saman.

Hér að framan hefur fyrst og fremst verið byggt á gögnum frá Evrópusambandinu og væri um rangfærslur að ræða þýddi það að sambandið sjálft færi með rangt mál. Væntanlega sjá annars flestir það í hendi sér að tal Oles Antons um gífurleg áhrif og völd Íslands innan Evrópusambandsins stenzt alls enga skoðun. Fyrir utan annað er einfaldlega lítið gagn að sæti við borðið þegar ekki er setið við sama borð.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 7. desember 2022)

(Ljósmynd: Þing Evrópusambandsins. Eigandi: France Diplomatie – MEAE)


Tengt efni:
Frelsið til þess að ráða eigin málum
Pólitíski ómöguleikinn
Kvartað yfir klofinni ríkisstjórn
Vægi ríkja ESB fer eftir íbúafjölda
Sjávarútvegsmálin ekki mikilvæg?

HELZTU GREINAR


Sjálfstæðið í smápörtum til Brussel

„Við stöndum á ákveðnum tímamótum í samskiptum okkar við Evrópusambandið,“ sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í ræðu á fjölmennum fundi í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, 30. ágúst 2018 þar sem hann hafði uppi þung varnaðarorð varðandi aðild Íslands að EES-samningnum og með hvaða hætti hann hefði þróast.



Fullkomin uppgjöf

Fullyrða má svo gott sem að Ísland hefði ekki orðið aðili að EES-samningnum fyrir bráðum 30 árum síðan ef litið hefði verið svo á að innleiða þyrfti bókun 35 við samninginn með þeim hætti sem nú stendur til af hálfu stjórnvalda. Bæði ef horft er til umræðna á vettvangi stjórnmálanna á þeim tíma og á meðal lögspekinga. Hvernig staðið var að innleiðingunni var í raun ein af forsendunum fyrir því að af aðildinni varð.



Vantreysta ESB í varnarmálum

„Ég verð að vera algerlega hreinskilin við ykkur, Evrópusambandið er ekki nógu sterkt eins og staðan er í dag. Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna,“ sagði Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, á fundi sem skipulagður var af Lowy Institute í Sydney í Ástralíu í byrjun desember á síðasta ári. Þannig hefði sambandið ekki haft getu til þess að bregðast sem skyldi við innrásinni í Úkraínu og þurft að treysta á Bandaríkjamenn.



Meira en heildartekjur ríkissjóðs

Tryggðar innistæður í fjármálastofnunum á Íslandi námu 1.228 milljörðum króna um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja (TVF) og jukust þær um eitt hundrað milljarða á síðasta ári. Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd á Íslandi vegna EES-samningsins mun það að öllum líkindum þýða ríkisábyrgð á tryggðum innistæðum.


Færslur

  • Hvað er þá að Viðreisn?
  • Krafa þjóðarinnar?
  • Sjálfstæðið í smápörtum til Brussel
  • Flóknara en góðu hófi gegnir
  • Fjarar undan tveggja stoða kerfinu
  • „Stjórnsýsla Íslands er lítil“
  • Fullkomin uppgjöf
  • Hin stórkostlegu tíðindi
  • Meirihluti íþyngjandi löggjafar í gegnum EES
  • Vantreysta ESB í varnarmálum
  • Vissulega lítið vit í slíkum samningi
  • Hver á að framkvæma stefnu Viðreisnar?
  • „Þið vitið fullkomlega hvað er í pakkanum“
  • Minnast ekki á lokamarkmiðið
  • Fátt bendir til norskrar inngöngu í ESB
  • Meira en heildartekjur ríkissjóðs
  • Þegar raunveruleikinn hentar ekki
  • Versnandi staða fámennari ríkja ESB
  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb