Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Kvartað yfir klofinni ríkisstjórn

Posted on 17/08/202221/10/2022 by Fullveldi

Fulltrúar Evrópusambandsins, sem höfðu það verkefni með höndum að hafa eftirlit með framgangi umsóknar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um inngöngu í sambandið á sínum tíma, lýstu því ítrekað yfir að það ylli verulegum áhyggjum að ríkisstjórnin væri klofin í afstöðu sinni til þess hvort ganga ætti þar inn. Einnig að innan stjórnarflokkanna væri eins ekki einhugur um málið.

Til að mynda segir þannig í þingsályktunartillögu dagsettri 13. nóvember 2012 sem þingmaðurinn Cristian Dan Preda ritaði sem fulltrúi utanríkismálanefndar þings Evrópusambandsins um framvindu umsóknarinnar og samþykkt var með 56 atkvæðum gegn tveimur: „Þing Evrópusambandsins ítrekar áhyggjur sínar af pólitískum ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar og stjórnmálaflokkanna varðandi inngönguna í það“.

Vísað er í þingsályktunartillögunni einkum til þeirrar staðreyndar að á meðan Samfylkingin var hlynnt inngöngu í Evrópusambandið var Vinstrihreyfingin – grænt framboð það ekki. Fyrir vikið var engin samstaða um það í ríkisstjórninni þegar til dæmis þurfti að samþykkja lokun einstakra kafla umsóknarferlisins að sambandinu. Voru til að mynda ítrekað gerðir ýmsir fyrirvarar í þeim efnum af hálfu einstakra ráðherra.

Hefur sjálft ekki kunnað fótum sínum forráð

Forystumenn þeirra stjórnmálaflokka sem vilja sjá Ísland ganga í Evrópusambandið, Viðreisnar og Samfylkingarinnar, hafa kallað eftir því í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu að ríkisstjórnin setji inngöngu í sambandið á dagskrá þrátt fyrir þá staðreynd að stjórnarflokkarnir eru allir andvígir því að ganga þar inn, buðu síðast fram undir þeirri stefnu í þingkosningunum síðasta haust og voru meðal annars kosnir út á hana.

Flokkarnir tveir, sem vilja inngöngu í Evrópusambandið, fengu samanlagt minna fylgi í þingkosningunum síðasta haust en Sjálfstæðisflokkurinn einn. Sú staða hefur ekki breytzt miðað við niðurstöður skoðanakannana þó að vart þurfi að taka það fram að kannanir eru ekki það sama og kosningar. Þessir flokkar kalla nú eftir því að stjórnarflokkarnir hunzi það sem þeir sögðu við kjósendur í aðdraganda kosninganna.

Fullyrðingar, um að ástæða sé til þess að horfa til Evrópusambandsins með tilliti til öryggismála í kjölfar innrásar rússneska hersins í Úkraínu, standast þess utan enga skoðun. Þó ekki nema fyrir þá staðreynd að sambandið hefur engan veginn kunnað fótum sínum forráð gagnvart stjórnvöldum í Rússlandi þegar kemur að orkuöryggi sem átt hefur stóran þátt í því að setja stöðu efnahagsmála innan þess í fullkomið uppnám.

Samstíga ríkisstjórn forsenda inngöngu í ESB

Fyrir liggur þannig að ríkisstjórnin er ekki einungis með stjórnmálaflokk innanborðs sem andvígur er inngöngu í Evrópusambandið heldur hafa allir þrír stjórnarflokkarnir þá stefnu að standa áfram utan sambandsins. Velta má því fyrir sér, fyrir utan annað, hvernig ráðamenn í Brussel tækju því ef slík ríkisstjórn stæði að ósk um inngöngu í Evrópusambandið þegar klofin stjórn gagnvart málinu olli þeim ítrekuðum áhyggjum.

Hvað sem annars líður mögulegum viðbrögðum Evrópusambandsins liggur fyrir að umsóknarferlið að því er afar umfangsmikið og tekur nokkur ár. Auk þess kemur víða fram í gögnum frá sambandinu að umsókn um inngöngu feli það í sér að markmiðið sé að ganga þar inn enda hafa fulltrúar þess ítrekað bent á það að fyrir liggi í öllum meginatriðum hvað hún hefði í för með sér. Þar er ekkert til sem heitir að „kíkja í pakkann“.

Vert er að hafa þetta í huga þegar forystumenn Viðreisnar og Samfylkingarinnar tala fyrir því að tekin verði skref í þá átt að Ísland gangi í Evrópusambandið án þess að við völd sé ríkisstjórn með þingmeirihluta á bak við sig, kjörinn af íslenzkum kjósendum, sem samstíga er um það að ganga þar inn. Hvort sem þeim líkar betur eða verr er um að ræða grundvallarforsendu í þeim efnum og það að mati sambandsins sjálfs.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 17. ágúst 2022)

(Ljósmynd: Þinghús Evrópusambandsins í Strasbourg í Frakklandi. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)


Tengt efni:
Stefnt að einu ríki frá upphafi
Vægi ríkja ESB fer eftir íbúafjölda
Stjórnsýslan ekki nógu stór
Ríkisstjórn Þýzkalands vill evrópskt sambandsríki
Fullveldi og lýðræði haldast í hendur

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb