Skip to content

Fullveldi.is

VEFSETUR UM UTANRÍKIS- OG VARNARMÁL

Menu
  • Heim
  • Fréttir
  • Greinar
  • Skýrslur
  • Fullveldi.is
  • English
Menu

Vægi ríkja ESB fer eftir íbúafjölda

Posted on 30/03/202222/03/2023 by Fullveldi

Krafa um einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins, þegar teknar eru ákvarðanir á vettvangi þess, heyrir í raun til algerra undantekninga í dag enda má nánast telja á fingrum annarra handar þá málaflokka sem það á enn við um. Þar á meðal eru hvorki sjávarútvegsmál né orkumál sem flestir eru væntanlega sammála um að skipta okkur Íslendinga mjög miklu máli. Þess í stað fer vægi ríkjanna við ákvarðanir innan sambandsins í langflestum tilfellum fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra eins og lesa má um á vefsíðu þess.

Með hverjum nýjum sáttmála Evrópusambandsins í gegnum tíðina hefur einróma samþykki verið afnumið í sífellt fleiri málaflokkum. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans 2009, sem í dag er grundvallarlöggjöf sambandsins, var það gert í um 40 málaflokkum á einu bretti. Þetta hafa ríki Evrópusambandsins ítrekað samþykkt að lokum þrátt fyrir sum þeirra hafi í fyrstu lagzt gegn því. Einkum þau fámennari. Mikill þrýstingur er innan sambandsins á það að áfram verði haldið á þessari braut og einróma samþykki afnumið enn frekar.

Stærstu ríkin ráða ferðinni

Langflestar ákvarðanir í ráðherraráði Evrópusambandsins eru háðar því að 55% ríkjanna standi að baki þeim með 65% íbúa sambandsins en fjögur stærstu ríki Evrópusambandsins, Þýzkaland, Frakkland, Ítalía og Spánn, hafa 58% íbúanna á bak við sig. Jafnvel þó öll hin ríkin 23 tækju sig saman þyrftu þau engu að síður að minnsta kosti eitt af stærstu ríkjunum fjórum í lið með sér til þess að hægt væri að taka ákvarðanir. Til samanburðar væri Ísland langfámennasta ríkið innan sambandsins með einungis 0,08% íbúafjöldans.

Hins vegar skiptir ekki síður máli að einungis þarf fjögur ríki til þess að hindra ákvarðanatöku í ráðherraráðinu svo framarlega að þau hafi yfir 35% íbúafjöldans innan Evrópusambandsins á bak við sig. Með öðrum orðum geta stærstu ríkin fjögur stöðvað hvaða mál sem er í ráðinu fyrir utan þau fáu tilfelli þar sem enn er krafizt einróma samþykkis og þar sem einfaldur meirihluti gildir. Raunar nægir Þýzkalandi og Frakklandi nánast hvaða tvö ríki sem eru þar sem þau vantar einungis um 1,6% til þess að ná yfir 35% íbúafjöldans.

Væri ekki fulltrúi Íslands

Viðmiðið er að sama skapi fyrst og fremst íbúafjöldi ríkjanna í tilfelli þings Evrópusambandsins. Þannig hefur Þýzkaland 96 þingmenn af um 700 en til samanburðar hefði Ísland sex þingmenn innan þess. Þar er ekkert einróma samþykki heldur gildir einfaldlega meirihlutinn. Ljóst er að vægi Íslands yrði dropi í hafið við slíkar aðstæður og margfalt minna en fámennasti þingflokkurinn hefur á Alþingi. Við þetta bætist að þingmennirnir myndu ólíklega eiga samstarf þar sem að þeir myndu dreifast á ólíka þingflokka.

Hvað framkvæmdastjórn Evrópusambandsins varðar eiga ríki ekki eiginlega fulltrúa í henni eins og sumir hafa fullyrt að væri raunin. Hið rétta er að þó ríkin tilnefni einn fulltrúa hvert er tekið skýrt fram í 3. tölulið, 17. greinar Lissabon-sáttmálans (TEU) að þeim sé með öllu óheimilt að fylgja fyrirmælum frá ríkisstjórnum ríkjanna. Með öðrum orðum er deginum ljósara að þó Íslendingur sæti í framkvæmdastjórninni, tilnefndur af hérlendum stjórnvöldum, gæti hann ekki á nokkurn hátt talizt fulltrúi íslenzkra hagsmuna.

Sitja ekki við sama borð

Fjölmennustu ríki Evrópusambandsins eru þannig bæði í lykil- og yfirburðastöðu þegar kemur að ákvarðanatöku á vettvangi þess. Bæði varðandi það að samþykkja mál og að hindra samþykkt þeirra. Við þetta bætist að fulltrúar stærstu ríkjanna samræma iðulega áherzlur sínar fyrir afgreiðslu þeirra innan sambandsins. Enginn skortur er á því að fámennari ríki, en þó margfalt fjölmennari en Ísland, hafi orðið undir í ráðherraráðinu og þar með talið í stórum hagsmunamálum fyrir þau. Til að mynda í sjávarútvegsmálum.

Tal um að Ísland þurfi að ganga í Evrópusambandið til þess að eiga sæti við borðið kann að hljóma vel í eyrum einhverra þar til málið er skoðað ofan í kjölinn. Það er ástæða fyrir því að málflutningur Evrópusambandssinna breyttist fyrir um 15-20 árum síðan úr því að Ísland þyrfti að ganga í sambandið til þess að hafa þar áhrif yfir í tal um sæti við borðið. Það er jú engin trygging fyrir því að hlustað væri á þann sem þar sæti. Fyrir utan annað er einfaldlega lítið gagn að því að eiga sæti við borðið þegar ekki er setið við sama borð.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Greinin birtist áður á Vísir.is 30. marz 2022)

(Ljósmynd: Þing Evrópusambandsins í Strasbourg. Eigandi: Franska utanríkisþjónustan – MEAE)


Tengt efni:
Stjórnsýslan ekki nógu stór
Dýr aðgöngumiði að EES-samningnum
Meira regluverk og minna svigrúm
Ríkisstjórn Þýzkalands vill evrópskt sambandsríki
Fullveldi og lýðræði haldast í hendur

HELZTU GREINAR


Meginvandinn er sjálft regluverkið

Talsvert hefur verið rætt á undanförnum árum um svonefnda gullhúðun við innleiðingu á lagagerðum frá Evrópusambandinu í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum. Er þar vísað til þess þegar gerðir eru innleiddar hér á landi meira íþyngjandi en þær koma frá sambandinu. Um er að ræða mál sem full ástæða er til þess að taka föstum tökum en á sama tíma er ljóst að ekki er um að ræða meginvandann í þeim efnum.



Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi

Fylgi Samfylkingarinnar hefur tvöfaldast frá þingkosningunum sem fram fóru fyrir rúmu ári síðan samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana í kjölfar þess að nýr formaður, Kristrún Frostadóttir, tók við flokknum. Fylgið hefur þannig farið úr tæpum 10% í kosningunum í um 20%. Kannanir benda til þess að þar vegi þungt ákvörðun formannsins um það að setja stefnu flokksins um inngöngu í Evrópusambandið á ís.



Með hálfan þingmann á Alþingi

Vægi ríkja innan Evrópusambandsins, og þar með möguleikar þeirra á því að hafa áhrif innan sambandsins, fer fyrst og fremst eftir íbúafjölda þeirra. Því fámennari sem ríkin eru því minni möguleika eiga þau almennt á því að hafa áhrif á ákvarðanatöku stofnana Evrópusambandsins þar sem þau eiga fulltrúa. Kæmi til þess að Ísland gengi í sambandið yrði landið fámennasta ríki þess og með vægi í samræmi við það.


Færslur

  • Minna svigrúm til viðskiptasamninga
  • Dvínandi eða vaxandi?
  • Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB
  • Flotið vakandi að feigðarósi
  • Tvennt hægt að gera við tillögurnar
  • Meginvandinn er sjálft regluverkið
  • Málstaður sem skilar ekki auknu fylgi
  • „Við værum í vandræðum án Bandaríkjanna“
  • Með hálfan þingmann á Alþingi
  • Frelsið til þess að ráða eigin málum
  • Hlutleysi veitir enga vörn
  • Verður ríkisábyrgð sett á þúsund milljarða?
  • Viðreisn og báknið
  • Setur Viðreisn í vanda
  • Treysta ekki ESB í varnarmálum
  • Dönsk stjórnarskrá?
  • Hindrar EES fríverzlun við Bandaríkin?
  • Hverju ætti ESB að bæta við?
  • Pólitíski ómöguleikinn
  • Að virða niðurstöður kosninga
©2023 Fullveldi.is | Built using WordPress and Responsive Blogily theme by Superb